Lifandi Saga

Hetjunum var nóg boðið: Sjóliðar í stríði við Lenín 

Árið 1921 verður uppreisn í flotastöðinni Kronstadt. Sjóliðar sem árið 1917 voru elítuhermenn októberbyltingarinnar sultu og vildu velta Lenín úr sessi. Ung Sovétríkin leggja allt í sölurnar til að bæla uppreisnina niður.

BIRT: 28/07/2023

Sjóliðarnir á flotastöðinni í Kronstadt vita að árás bolsévika er yfirvofandi. Þennan morgun 8. mars 1921, rétt áður en sólin lýsir upp frosinn flóann undan Petrograd, eru rauðliðar að leggja til atlögu.

 

Mörg þúsund auðsveipir nýliðar í liðsforingjaskólanum eru klæddir hvítum kuflum til að dyljast í snjónum, flýta sér yfir ísinn í átt að flotastöðinni.

 

Taugaspenntir fylgjast 14.000 sjóliðar með árásarliðinu. Enginn í virkinu vill skjóta en það er augljóst að rauðliðarnir munu ekki láta neitt stöðva sig. Sjóliðarnir hefja skothríð.

 

Liðsforingjaefnin sem finna ekkert skjól úti á ísnum eru sallaðir niður. Mitt í þessum ójafna bardaga brestur á snjóhríð og þeir sem lifa af skothríðina nýta sér tækifærið til að flýja aftur til lands. En það er ekki til neins.

 

Á landi er að finna öfgafyllstu og miskunnarlausustu rauðliðana og þeir hleypa af vélbyssum sínum á eigin félaga sem verða að snúa aftur við.

Um 80% af rauðliðunum sem sjást hér á ísnum létust í fyrstu árásinni á Kronstadt.

Meðal sjónarvotta í Kronstadt er sjóliðinn Stepan Petritsjenko sem lýsti þessari misheppnuðu árás bolsévika síðar:

 

„Þegar dagur reis og það lægði náðu einungis fáeinir strákar íklæddir hvítum kuflum til okkar örmagna, hungraðir og vart færir um að ganga“.

 

En rétt eins og aðrir sjóliðar í Kronstadt veit Petritsjenko full vel að þessi ósigur bolsévika mun ekki koma í veg fyrir frekari árásir þeirra næsta dag.

 

Einungis fáeinum árum áður höfðu þessir hugrökku sjóliðar Kronstadt verið einhverjir dyggustu liðsmenn Leníns og voru þeir hylltir sem hryggjarstykkið í sjálfri byltingunni. En nú leit bolsévikaleiðtoginn á þá sem sína hættulegustu andstæðinga. Sjóliðum Kronstadt skyldi útrýmt.

 

Sjóliðar gera uppreisn

Sjóliðar Kronstadt endasentust árið 1917 í eina örlagaríkustu atburðarás sögunnar. Allt frá 18. öld hafði Kronstadt varið innsiglinguna í Petrograd, höfuðborg keisarans við Finnska flóann.

 

Á sama tíma var aðal eyjan, Kotlin, flotastöð fyrir Eystrasaltsflota Rússa. Kronstadt og aðrar vígvarðar eyjar hýstu því þúsundir sjóliða í vel skipulögðu samfélagi.

„Ástandið er alvarlegt. Stjórnleysi ríkir hér í höfuðborginni“.

Símskeyti til Tsarsins um uppreisnina í Petrograd í febrúar 1917.

Samanlagt fól það í sér að 27.000 sjóliðar og 13.000 almennir borgarar unnu að því að efla pólitíska stöðu Kronstadt. Og þegar verkamenn í Petrograd mótmæltu ömurlegu hlutskipti sínu í febrúar 1917 – í þriðja vetrarstríði landsins – voru sjóliðarnir reiðubúnir að styðja kröfur þeirra.

 

Nikulás 2. keisari var ekki staddur í höfuðborginni. Og örvæntingarfullur formaður ráðgefandi þingsins, Dúmunnar, sendi 26. febrúar símskeyti til einvaldsins:

 

„Ástandið er alvarlegt. Stjórnleysi ríkir hér í höfuðborginni“.

 

Sama dag skutu hermenn inn í fólksfjöldann. Ódæði þeirra fékk aðrar herdeildir til að styðja mótmælendur í höfuðborginni.

 

Fremstir í flokki voru sjóliðarnir í Kronstadt. Þeir gerðu uppreisn og myrtu æðsta yfirmann Eystrasaltsflotans, Adrian Nepenin aðmírál, ásamt stjórnanda herskóla flotans, Robert Viren sem var stunginn til bana á aðaltorgi Kronstadts.

 

Þá var einnig liðsforingi á beitiskipinu Aurora tekinn af lífi. Aðrir herforingjar stöðvarinnar flúðu og eftir það var Kronstadt samkomustaður fyrir byltingarsinnana í Pétursborg.

Kronstadt var komið á laggirnar árið 1704 og voru varnir hennar efldar næstu árin. Teikningin sýnir flotastöðina um 1850.

Fornt vígi Péturs keisara var nánast ósigrandi

Kronstadt var byggt til að standast sérhvern óvin sem réðist á vígið utan frá. En hönnuðir höfðu viljandi gert Kronstadt veikari fyrir árás frá landi.

 

Um 25 km vestan við St. Pétursborg er eyjan Koklin. Þar kom Pétur mikli keisari upp miklu virki árið 1704 og flotastöðinni Kronstadt sem átti að verja innsiglinguna fyrir nýbyggða borg hans, St. Pétursborg.

 

Á vetrum frýs Finnski flóinn og það nýttu Rússar sér til að útvíkka varnarvígin. Þúsundir af trjábolum, trérömmum fullum af steinum voru flutt yfir frosið hafið og þrýst niður í göt sem söguð voru í ísinn.

 

Þannig voru fjölmargar litlar nýjar eyjar búnar til og á þeim var komið upp virkjum.

 

Þannig var siglingaleiðin til St. Pétursborgar lokuð af. Einungis var hægt að sigla um tvö þröng sund til að komast til borgarinnar og þau voru varin af fjölmörgum vígjum.

 

Á næstu árum voru varnirnar sífellt styrktar með fleiri tilbúnum eyjum og stórskotaliði.

 

Varnir Kronstadt beindust þó einungis gegn vestri meðan að gagnstæð hlið var nánast óvarin.

 

Ef óvininum tækist að vinna þetta mikla sjávarvirki, þrátt fyrir allt gat stórskotaliðið á ströndinni auðveldlega látið sprengjum rigna á Kronstadt.

 

Þegar sjóliðar í Kronstadt gerðu byltingu gegn bolsévikum árið 1921 varð einmitt þetta þeim að falli.

Kronstadt var lítið samfélag

Flotastöðin Kronstadt var á eyjunni Kotlin í Finnska flóanum um 25 km vestan við Pétursborg. Í uppphafi 18. aldar var þar að finna um 40.000 sjóliða, verkamenn og borgara. Stöðin var tryggilega víggirt.

Stöð fyrir Eystrasaltsflotann

Kronstadt var með eigin höfn og virkaði eins og aðalstöð fyrir Eystrasaltsflota Rússa. Stór herskip lágu þar við akkeri og ef ráðist væri á Kronstadt gátu þau bæði varið stöðina og Pétursborg.

Sjávarvirki styrkja varnir

Til þess að styrkja varnir flóans gerðu Rússar nokkrar litlar eyjar sunnan við Kotlin. Eyjarnar fengu hver sínar fallbyssur. Undir lok 19. aldar voru fleiri slíkar byggðar norðan við Kotlin.

Kronstadt var lítið samfélag

Flotastöðin Kronstadt var á eyjunni Kotlin í Finnska flóanum um 25 km vestan við Pétursborg. Í uppphafi 18. aldar var þar að finna um 40.000 sjóliða, verkamenn og borgara. Stöðin var tryggilega víggirt.

Stöð fyrir Eystrasaltsflotann

Kronstadt var með eigin höfn og virkaði eins og aðalstöð fyrir Eystrasaltsflota Rússa. Stór herskip lágu þar við akkeri og ef ráðist væri á Kronstadt gátu þau bæði varið stöðina og Pétursborg.

Sjávarvirki styrkja varnir

Til þess að styrkja varnir flóans gerðu Rússar nokkrar litlar eyjar sunnan við Kotlin. Eyjarnar fengu hver sínar fallbyssur. Undir lok 19. aldar voru fleiri slíkar byggðar norðan við Kotlin.

Þó voru ekki allir jafn hrifnir af sjóliðunum: „Þessi hópur var með sams konar hugarfar og ruslaralýður. Hugsa aðeins um eigin þarfir en sjá ekki heildarmyndina“, minntist einn bolséviki mörgum árum síðar.

 

Nokkrum dögum eftir uppreisnina í Petrograd sagði keisarinn af sér og eftirlét stjórnina bráðabirgðastjórn. Nokkrum vikum síðar sneri byltingarsinnaður útlagi heim til Rússlands með áætlun, þar sem sjóliðar Kronstadts áttu eftir að gegna mikilvægu hlutverki. Nafn hans var Vladimir Lenín.

 

Ofurstjörnur byltingarinnar

Lenín lét sér ekki nægja afsögn keisarans. Sem leiðtogi bolsévika réðist hann á yfirvöld og krafðist þess að öll völd væru færð í hendur svokallaðra sovéta: Ráð bænda, verkamanna og hermanna sem voru stofnuð víða um landið eftir febrúarbyltinguna.

„Vopnuð uppreisn er óhjákvæmileg og núna er rétti tíminn“.

Skilaboð frá miðstjórn bolsévika.

Mikilvægast þeirra var Pedrograd-sovétið undir forrystu Lev Trotskí. Eftir mánaðarundirbúning ákváðu bolsévikar haustið 1917 að leggja til atlögu:

 

„Vopnuð uppreisn er óhjákvæmileg og núna er rétti tíminn“, hljómuðu skilaboðin frá miðstjórn bolsévika.

 

Þann 25. október 1917 hófst byltingin. Í höfn Petrograds voru fimm herskip með áhafnir hliðhollar bolsévikum og aðrir sjóliðar í Kronstadt sem nú máttu ráða sér sjálfir, studdu einnig uppreisnina.

 

Rauðliðar bolsévika þustu út á göturnar til að leggja undir sig mikilvægustu byggingar Petrograds. Sjóliðar um borð í Aurora náðu að stýra þessu mikla skipi upp Neva-fljótið til einnar af mikilvægustu samgönguleiðum borgarinnar: Nikolai-brúnni.

Beitiskipið Aurora átti stóran þátt í að bolsévikar komust til valda. Skipið er í dag á safni.

Þegar herskipið kom í ljós lögðu margir í bráðabirgðastjórninni á flótta og innan tíðar náðu uppreisnarmenn flestum brúm á sitt vald. Á meðan hélt ríkisstjórnin neyðarfund í Vetrarhöllinni í miðborg Petrograd.

 

Þegar bolsévikar nálguðust höllina yfirgáfu flestir þeir hermenn sem voru til varnar bygginguna. Klukkan 21.45 um kvöldið skaut Aurora af fremstu fallbyssu sinni til marks um að nú skyldi ráðist á höllina.

 

Síðustu hermennirnir í höllinni gáfust upp – bolsévikar höfðu sigrað.

 

Og allir vissu sem var að þessi sigur hefði ekki náðst nema fyrir liðsinni sjóliða Kronstadts. Í einu vetfangi voru þeir nú orðnir ofurstjörnur októberbyltingarinnar.

 

Lenín kallaði þá „hina rauðustu af öllum rauðum“, meðan Lev Trotskí kvað sjóliðana vera „heiður og stolt byltingarinnar“.

 

Báðir áttu þeir eftir að iðrast þessara orða.

Lenín mærði frammistöðu Kronstadt-sjóliðanna í októberbyltingunni.

Frelsið hvarf

Skömmu eftir valdatöku bolsévika braust út borgarastyrjöld: Hvítliðar, fyrrum liðsforingjar og andstæðingar kommúnista tóku saman höndum og með stuðningi frá útlöndum börðust þeir við bolsévika.

 

Meginhluti af hinum rauða her Leníns samanstóð af verkamönnum og bændum sem höfðu aldrei meðhöndlað vopn. Þess vegna urðu hinir öguðu og þrautreyndu sjóliðar Kronstadts mikilvægir í borgarastríðinu.

„Þegar við snerum heim spurðu foreldrar okkur hvers vegna við værum að berjast fyrir kúgarana“.

Sjóliði um stuðning sinn við bolsévika sem héldu Rússum í járngreipum sínum.

Í næstum þrjú ár börðust sjóliðar Kronstadt fyrir byltinguna. En með tímanum tóku þeir að efast um stefnu og hugmyndir Leníns.

 

„Um áraraðir var allt það sem gerðist hér heima á meðan við vorum í víglínunni eða til sjós útilokað með ritskoðun bolsévika“, minntist ungur sjóliði.

 

„Þegar við snerum heim spurðu foreldrar okkar hvers vegna við værum að berjast fyrir kúgarana. Það gjörbreytti hugmyndum okkar“.

 

Þjóðin hafði þolað þriggja ára „stríðskommúnisma“ þar sem lagt var hald á uppskeru og matur skammtaður. En þrátt fyrir að borgarastríðinu væri lokið svalt þjóðin enn og heljartök bolsévika voru einungis hert.

 

Í febrúar 1921 var tilkynnt um ekki færri en 155 uppreisnir bænda víðsvegar í landinu og í Kronstadt tóku sjóliðar að gagnrýna opinberlega stefnu Leníns.

 

„Kronstadt-sjóliðarnir voru sannfærðir um að bolsévikarnir sem kölluðu sjálfa sig „bændavaldið“ væru í raun verstu óvinir bændanna“, mátti lesa í blaðagrein árið 1921 sem var skrifuð af m.a. sjóliðanum Stepan Petritsjenko.

 

Í Petrograd brutust einnig út uppreisnir og óeirðir. Til að svara þessu sendu bolsévikar rauðliða sína sem miskunnarlaust brutu öll mótmæli á bak aftur.

 

En uppreisnarandinn hafði borist til Kronstadt og þann 28. febrúar gerðu sjóliðar uppreisn á orrustuskipinu Petropavlovsk. Þeir kröfðust tjáningarfrelsis fyrir alla, réttlátari útdeilingu matarskammta og að öllum pólitískum föngum yrði sleppt.

 

Slagorð þeirra var „Öll völd til sovétanna, ekki flokksins!“.

Bolsévikar litu á sig sem frelsishetjur í baráttu við kapítalistana.

Níu blóðug ár komu bolsévikum til valda

Skortur á margvíslegu frelsi, hungur og misheppnuð stríð varð til að Rússar snerust gegn keisaranum. Bolsévikar biðu tækifærisins og þeir vildu ekki deila völdum með öðrum. (dagsetningar eftir rússnesku tímatali).

 

– 17. október 1905

Dráp lögreglu veldur byltingu


Nikulás 2. lofar ýmsum réttindum ásamt stofnun þings eftir að lögreglan skýtur miskunnarlaust niður friðsamlega mótmælendur fyrr á árinu.

 

– 19. júlí 1914

Þýskaland lýsir yfir stríði


Fyrri heimsstyrjöldin brýst út en Rússland er vanbúið. Á næstu þremur árum missir landið um 5,5 milljónir hermanna.

 

– 23. febrúar 1917

Febrúarbyltingin


Um 1.300 mótmælendur eru drepnir þegar þeir mótmæla stríðinu. Nikulás 2. keisari segir af sér og lætur bráðabirgðastjórn eftir völdin.

 

– 25. október 1917

Októberbyltingin


Bolsévikar ná völdum í Pétursborg og setja bráðabirgðastjórnina frá. Á næstu mánuðum ná bolsévikar völdum hvarvetna í Rússlandi.

 

– Júní 1918

Helvíti borgarastríðsins


Árið 1918 brýst borgarastyrjöld út milli rauðliða og hvítliða. Á næstu tveimur árum glata allt að 10 milljón Rússar lífi í stríðinu sem endar með sigri bolsévika árið 1920.

 

– 17. mars 1921

Kronstadt-uppreisnin bæld niður

 

Sjóliðar á Kronstadt flotastöðinni gera uppreisn gegn alræði bolsévika. Uppreisnin er bæld niður eftir níu daga blóðuga bardaga.

Kapphlaup við tímann

Leiðtogi uppreisnarinnar í Kronstadt var Stepan Petritsjenko. Þessi 30 ára gamli sjóliði hafði aðeins tveggja ára skólagöngu að baki og talaði með greinilegum úkraínskum hreim. En allir skildu hann harla vel og kunnu að meta uppreisnarandann í honum.

 

Fáeinum dögum eftir ákvörðun sjóliðanna kom svar bolsévika:

 

„Það er augljóst að Kronstadt uppreisnin hefur verið skipulögð í París af frönsku leyniþjónustunni“, hljómaði hin augljósa lygi.

 

Þann 6. mars surgaði í útvarpinu um borð í Petropavlovsk. Þetta var sjálfur hermálaráðherrann Trotskí sem krafðist þess að allir í Kronstadt legðu niður vopn sín:

 

„Einungis þeir sem gefast upp skilyrðislaust mega vænta náðar frá Sovétlýðveldinu. Þetta er síðasta viðvörunin“.

 

En sjóliðarnir höfnuðu þessu og tóku þegar í stað að efla varnir sínar. Kronstadt er að finna í miðjum Finnska flóanum. Milli Kronstadt fastalandsins voru minni vígi á fjölmörgum litlum eyjum. Tvö herskip, Petropavlovsk og Sebastopol voru frosin föst í vetrarísnum í höfn Kronstadt.

Umhverfis Kronstadt var röð virkja byggð á manngerðum eyjum. Hér Alexandervirkið með tæplega 150 fallbyssum.

Með samanlagt 28 stórar fallbyssur var slagkraftur skipanna gríðarmikill. Herskipin og vígin voru mönnuð af 14.000 sjóliðum. Við þetta bættust meira en 2.000 borgarar sem gerðust sjálfboðaliðar.

 

Margir reiknuðu með því að annars staðar í landinu myndi þjóðin rísa upp gegn bolsévikum með sama hætti. Sannleikurinn var samt sá að sjóliðarnir voru aleinir.

 

Hvaðanæva að rúlluðu inn lestir með úthvíldum hermönnum og stórskotaliði til Petrograd. Það lá á fyrir bolsévika að berja þessa uppreisn niður. Um leið og ísinn bráðnaði væru herskipin laus og ógjörningur að ráðast á Kronstadt.

 

Þess vegna ráðgerðu bolsévikar árás yfir ísinn. Styst var vegalengdin milli Kronstadt og fastalandsins fimm kílómetrar – löng og hættuleg leið.

 

Þann 7. mars 1921 skrifaði stjórnleysinginn Alexander Bergman frá Petrograd að hann gæti heyrt þrumugný:

 

„Undir eins áttaði ég mig á því að þetta var stórskotaliðið sem klukkan sex síðdegis hafði verið að ráðast á Kronstadt!“.

 

Árásin á Kronstadt

Árásin kom næstu nótt. Íklæddir hvítum dulargervum réðust bolsévikar úr norðri og suðri. Þeir sem fremstir fóru gengu beint inn í skothríðina frá vélbyssum Kronstadt og þegar þeir reyndu að hörfa undan voru þeir skotnir niður af eigin félögum.

 

Árásin fór hryllilega úrskeiðis og í útgáfu dagblaðs í Kronstadt næsta dag sneri uppreisnarforinginn Petritsjenko sér beint að árásarliðinu:

 

„Við verðum að verja réttmæta baráttu verkafólks og skjóta. Skjóta á bræður okkar sem eru sendir í vísan dauða af kommúnistum sem hafa graðkað sig feita á kostnað þjóðarinnar“.

 

Næstu daga héldu árásirnar áfram – og í sérhvert sinn var þeim hrundið. Smám saman dró þó máttinn úr sjóliðunum. Petritsjenko skrifaði um örmagna varðliða við ísinn: „Í snjó og stormi og ægilegum kulda“. Inni á landi undirbjuggu bolsévikar sig undir lokaárásina.

 

Á hverri nóttu lýstu leitarljós Kronstadt yfir ísinn. Og aðfaranótt 17. mars komu varðmenn auga á þá – hvítklædda hermenn sem skriðu í átt að vígi þeirra.

Margir af sjóliðunum í Kronstadt enda í fangabúðum Sovétríkjanna, þar á meðal Stepan Petritsjenko.

Bolsévikar hefna sín

Uppreisnarforinginn Petritsjenko og þúsundir annarra enda í Finnlandi eftir sigur bolsévika. Flestir hljóta dapurleg örlög.

 

Um 8.000 af sjóliðum Kronstadt flýja til Finnlands eftir ósigurinn. Þar sá Rauði krossinn þeim fyrir matvælum. Sumir fengu vinnu en flestir lifðu hörmulegu lífi og náðu aldrei að laga sig að nýjum aðstæðum.

 

Þegar Lenín bauð þeim sakaruppgjöf þáðu margir það og sneru heim. Þeir enduðu þess í stað í fangabúðum bolsévika. Stepan Petritsjenko var þó áfram í Finnlandi. Árið 1925 skrifaði hann grein um uppreisnina: „Bylting okkar var sjálfsprottin tilraun til að losna undan kúgun bolsévika“.

 

Engu að síður starfaði hann endrum og sinnum að sögn sem njósnari fyrir Sovétríkin. Þegar her Stalíns réðist á Finnland árið 1939 hjálpaði Petritsjenko mörgum sovéskum hópum í Finnlandi, áður en Finnar fangelsuðu hann árið 1940. Fjórum árum síðar var honum sleppt lausum og árið 1945 var hann framseldur til Sovétríkjanna.

 

Þar var hann dæmdur í tíu ára fangelsi í þrælkunarbúðum „fyrir þátttöku í andbyltingarsinnuðum hryðjuverkasamtökum og fyrir að starfa fyrir leyniþjónustu Finnlands“. Petritsjenko lést tveimur árum síðar í fangabúðunum.

Kveikt var á öðrum leitarljósum og eldflaugum skotið upp til að kalla hermenn til varnar. Samkvæmt einum hermanni „breyttist nóttin í dag“ og ljósið afhjúpaði þéttar raðir af rauðliðum sem fylktu sér að baki þeim sem fremstir fóru.

 

Þrátt fyrir mikið mannfall börðust bolsévikar áfram og náðu að lokum í gegnum aðalhliðið að Kronstadt.

 

Í þröngum götunum beið þeirra sannkallað helvíti. Úr gluggum húsanna skaut varnarliðið á rauðliðana meðan að líkin hrúguðust upp á götunum.

 

En sjóliðarnir voru ofurliði bornir. Í kjölfarið fylgdi síðan heiftarlaus hefndarþorsti. Sjóliðar, borgarar og konur voru skotin á götum úti. Einungis áhöfnin um borð í herskipunum hélt áfram að berjast.

 

Klukkan 23.50 þann 17. mars sendu bolsévikaleiðtogar sigri hrósandi símskeyti til Petrograd:  „Það er búið að útrýma hreiðri gagnbyltingarsinna um borð í Petropavlovsk og Sebastopol“.

 

Rétt áður en að ráðist var um borð í skipið flúði Petritsjenko og margir aðrir yfir ísinn. Öll von var úti. Næsta sólarhring náðu minnst 8.000 frá dauðadæmdu flotastöðinni til Finnlands.

 

Tölur eru óljósar en líklega voru allt að 4.000 uppreisnarmenn drepnir, særðir eða teknir til fanga. Mannfall bolsévika var enn hærra. Talið er að þeir hafi misst allt að 10.000 hermenn í þessum bardaga.

 

Uppreisnin í Kronstadt var síðasta uppreisnin gegn bolsévikum.

Lesið meira um Kronstadt

Paul Avrich: Kronstadt 1921, Princeton University Press, 1970 Stepan Petrichenko: The Truth About Kronstadt, upprunalega gefin út 1921, The Anarchist Library

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: JAN INGAR THON

© SZ-Photo/Imageselect,© Heritage Images/Getty Images,© Shutterstock,© Universal History Archive/UIG/Bridgeman Images,© CPA Media Pte Ltd/Imageselect,© Album/Ritzau Scanpix,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Ofvirkni í heilastöð veldur stami

Maðurinn

Rannsókn: Þetta er ástæðan fyrir því að börn læra hraðar en fullorðnir

Maðurinn

Heilinn kortlagður: Smásæ vefsýni sýna stórbrotin smáatriði

Náttúran

Af hverju er kalt í mikilli hæð?

Maðurinn

Hversu oft segjum við ósatt?

Lifandi Saga

Kjarnorkuógnin: Sovéskur kafbátur í skerjagarðinum

Alheimurinn

Lítið eitt um þyngdarkraftinn

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.