Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Heldurðu að þú getir komist upp með morð? Hugsaðu aftur. Í dag nýtur lögreglan aðstoðar gervigreindar, gervihnatta, háþróaðrar DNA tækni – og jafnvel trjánna í skóginum – í leit sinni að morðóðum glæpamönnum. Og bráðum gætu rannsakendur jafnvel upplýst morð sem hafa ekki enn verið framin.

BIRT: 02/09/2024

Þann 8. október 2019 vaknaði hinn 23 ára Bandaríkjamaður Joe Elledge í næstum tómri íbúð á Eastwood Drive í Columbiu, Missouri.

 

Eiginkona hans, hin 28 ára Mengqi Ji hafði farið að sofa kvöldið áður en um morguninn fannst hún hvergi. Bíll Mengqi Ji stóð í innkeyrslunni og eins árs gömul dóttir hjónanna svaf í rúmi sínu.

 

„Hvað sem gerðist, þá vona ég bara að það sé í lagi með hana,“ sagði Joe Elledge við fréttastofu á staðnum stuttu eftir hvarf hennar.

 

Einu og hálfu ári síðar kom hinn hræðilegi sannleikur í ljós. Um tíu kílómetrum frá heimili þeirra hjóna fannst lík í skógarbotninum. Það voru jarðneskar leifar Mengqi Ji.

 

Því miður var ekki að finna á líkinu neinar vísbendingar sem hjálpuðu til við að finna morðingjann. Í staðinn fundu lögregla og rannsakendur aðra mikilvæga vísbendingu í skóginum – tegund sönnunargagna sem hefði verið óhugsandi að gagnaðist þeim örfáum árum áður og sem undirstrikar hversu erfitt það er í dag að komast upp með morð.

 

Reyndar er það næstum ómögulegt – í sumum löndum hefur hlutfall upplýstra morða náð allt að 100%.

 

Símar kjafta frá

Ástæðuna fyrir háu hlutfalli upplýstra morða er meðal annars að finna í skipulagðari vinnubrögðum við rannsókn mála en þau tæki og tækni sem lögreglan hefur nú yfir að ráða skiptir ekki minna máli.

 

Einu sinni voru fingraför mikilvægasta tæknilega sönnunargagn lögreglunnar en í takti við þróun DNA-raðgreiningar undanfarna áratugi hafa smásæjar leifar af blóði, munnvatni og sæði tekið við því hlutverki.

3.690 morð voru framin í ESB löndunum árið 2021. Talan hefur lækkað jafnt og þétt síðastliðin rúm tíu ár.

Það eru þó ekki aðeins líffræðileg ummerki sem lögreglan hefur orðið betri í að nýta sér. Eftirlit, GPS mælingar, andlitsgreining og gervigreind eru aðeins nokkrar af þeim tæknilegu nýjungum sem stuðla að því að fleiri glæpamenn lenda í neti lögreglunnar.

 

Við erum öll með eitt mikilvægasta vopn lögreglunnar gegn glæpamönnum í vasanum allan daginn. Snjallsímar okkar sýna stöðugt hvar við erum og hvenær. Þetta gera þeir með tengingu við GPS gervihnetti – tækni sem hefur orðið nákvæmari og nákvæmari á undanförnum árum.

 

Google til dæmis safnar gríðarlegu magni upplýsinga um notendur um allan heim. Fyrirtækið geymir þær síðan í gagnagrunni sem kallast Sensorvault sem inniheldur gögn úr hundruðum milljóna fartækja sem ná tæpan áratug aftur í tímann.

Joe Elledge skoðar mynd af sjálfum sér og látinni eiginkonu sinni, Mengqi Ji við réttarhöldin.

Lögreglan biður oft um staðsetningargögn frá Google ef hún vill vita hvar hugsanlegur glæpamaður var staðsettur þegar glæpurinn var framinn. GPS mælingar einar nægja þó sjaldan til að fá mann dæmdan – en það getur dugað til að koma einhverjum í gæsluvarðhald á meðan lögreglan leitar fleiri sannana.

 

Þetta var líka raunin í tilviki Mengqi Ji. Stuttu eftir hvarf hennar náði lögreglan gögnum úr síma eiginmannsins, Joe Elledge sem leiddu í ljós að hann hafði farið út að Lamine ánni sem er í u.þ.b. 40 mínútna akstursfjarlægð frá heimili hjónanna, daginn sem eiginkona hans hvarf. Það hafði hann ekki upplýst lögregluna um við yfirheyrslur.

 

Lögreglan handtók Joe Elledge grunaðan um morðið á eiginkonu sinni og leitaði síðan að líki Mengqi Ji í ánni í mánuð – án árangurs.

 

Handtekinn af reikniriti

Hefði Mengqi Ji horfið í heimalandi sínu Kína hefði gerandinn staðið frammi fyrir stærri vandamálum en GPS mælingum. Kommúnistaflokkur Kína státar af því að um það bil 500 milljónir eftirlitsmyndavéla landsins geta skannað andlit allra 1,4 milljarða borgaranna á aðeins einni sekúndu.

 

Þessar tölur eru kannski ekki alveg réttar en enginn vafi leikur á því að kínversk yfirvöld fylgjast vel með ferðum borgaranna.

 

Síðan 2019 hefur það verið krafa að Kínverjar láti skanna andlit sitt þegar þeir kaupa nýtt SIM-kort fyrir farsímann sinn. Þetta þýðir að andlitsdrættir nánast allra íbúanna eru skráðir og hlaðið inn í ríkisstýrðan eftirlitsgagnagrunn með hinu ógnvekjandi nafni „Skynet“.

Sólgleraugu geta bent á glæpamenn á sekúndubroti

Frá árinu 2018 hafa hátækni sólgleraugu hjálpað kínverskri lögreglu í fjölda stórborga að bera kennsl á eftirlýsta einstaklinga í mannfjöldanum – þökk sé gervigreind.

1. Gleraugu skanna andlit

Myndavél í gleraugum skannar andlit þeirra sem lögreglumaður horfir á og sendir upplýsingarnar í farsíma. Þar eru þau borin saman við gagnagrunn sem inniheldur andlit þúsunda eftirlýstra og fyrrverandi glæpamanna.

2. Reiknirit athugar sakaskrána

Gervigreind rekur andlitsgreiningarforrit sem ber saman eiginleika mismunandi andlita til að finna samsvörun. Samkvæmt þróunaraðilum getur reikniritið skannað gagnagrunn með 10.000 grunuðum á aðeins 100 millisekúndum.

3. Lögreglumenn fá persónulegar upplýsingar

Ef forritið finnur samsvörun eru upplýsingar um hinn grunaða sendar í farsíma lögreglumannsins. Þegar gleraugun voru prófuð árið 2018 leiddi það til handtöku sjö eftirlýstra einstaklinga og 26 annarra sem ferðuðust á fölskum skilríkjum.

Andlitsgreining vinnur með hjálp tauganets sem er ákveðin gerð gervigreindar sem getur greint mynd af andliti til að finna áberandi punkta og kortlagt staðsetningu þeirra innbyrðis. Útkoman er eins konar fingrafar sem er einstakt fyrir andlit einstaklingsins.

 

Tæknin gerir mögulegt að rekja ferðir hugsanlegra gerenda eða að bera kennsl á allt fólkið sem hefur verið á eða nálægt glæpavettvangi – þannig að morðingjar eiga erfitt með að komast undan óséðir.

VARÚÐ – ÓHUGNANLEG LESNING. Nautsterkur, bráðgáfaður og snargeðveikur – „Stóri Ed“ er einn af hræðilegustu raðmorðingjum gjörvallrar sögunnar.

Andlitsgreining er einnig notuð meðal annars af lögreglu í Bretlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi, Hollandi og Þýskalandi.

 

Hér er framtíð aðferðarinnar hins vegar óljós, því á nokkrum stöðum er í undirbúningi lagasetning sem takmarkar notkun andlitsgreiningar vegna laga um persónuvernd og borgaraleg réttindi.

 

Því mun DNA líklega áfram vera eitt mikilvægasta verkfæri lögreglunnar – og sem betur fer hafa miklar framfarir í DNA-rannsóknum undanfarin ár gert morðingjum mjög erfitt fyrir að komast upp með glæpi sína. Þetta átti einnig við um morðingja Mengqi Ji.

 

DNA teiknar morðingjann

Einar helstu framfarirnar er yfirgripsmikil ný þekking á genum okkar sem gerir rannsakendum kleift að teikna eins konar draugateikningu af gerandanum – byggða á DNA einu saman.

 

Draugateikningin byggir á greiningu á genum sem gegna hlutverki í útliti okkar. Árið 2020 sýndu rússneskir vísindamenn til dæmis að greining á 69 genaafbrigðum gæti leitt í ljós augn- og hárlit einstaklings með 80-98 prósent nákvæmni.

 

Svipuð genaafbrigði geta einnig leitt í ljós húðlit og gefið vísbendingar um allt frá skalla til hæðar og þyngdar þess sem skildi eftir DNA sporið.

Reiknirit umbreyta DNA upplýsingum í myndir af brotamönnum

Ný tækni getur breytt smásæjum DNA sporum í draugateikningar af grunuðum glæpamönnum – og lögreglan, meðal annars í Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada er nú þegar í fullum gangi að prófa aðferðina.

1. Ensím afritar sérstakar DNA raðir

Lögreglan safnar DNA sporum af vettvangi glæpsins og sendir til greiningar. Með því að bæta við ensíminu DNA pólýmerasi (rauður) eru valin gen afrituð þannig að erfðafræðingarnir fá nægjanlegt magn af DNA til að geta framkvæmt greiningu.

2. Sérstakar raðir sýna líkamlega eiginleika

Erfðafræðingar greina ákveðin atriði í genaröðunum – svokölluð SNP – sem sýna líkamlega eiginleika einstaklingsins. Vísindamenn vita til dæmis um hundruð mismunandi SNP sem tengjast hár-, augn- eða húðlit.

3. Reiknirit breytir DNA spori í teikningu

Þegar SNP hefur verið kortlagt er tölvureiknirit matað með niðurstöðum greiningarinnar. Reikniritið getur síðan teiknað líkan af andliti hins grunaða geranda sem gefur lögreglu heildarmynd af útliti viðkomandi.

Svona draugateikningar beina lögreglunni í áttina að morðingjanum og í framtíðinni gætu þær verið svo góðar að morðinginn gæti allt eins hafa skilið eftir mynd af sér á vettvangi glæpsins.

 

Í tilviki Mengqi Ji var það hins vegar ekki DNA frá gerandanum sem að lokum kom upp um hann. Í staðinn notaði lögreglan allt aðra tegund af DNA – sem kom alls ekki frá manni.

 

Barrtré felldi morðingja

Þegar lögreglan handtók Joe Elledge árið 2019, grunaðan um hvarf eiginkonu hans, fann hún par af drullugum stígvélum sem tilheyrðu honum. Stígvélin voru færð til rannsóknar og það átti eftir að reynast skynsamlegt ráð. Þegar lík Mengqi Ji fannst vorið 2021 tók lögreglan sýni af nálum úr barrtrjám sem uxu þar sem líkið hafði fundist.

 

Sýnin voru síðan send á rannsóknarstofu sem kortlagði DNA nálanna. Rétt eins og hjá mönnum eru DNA raðir örlítið mismunandi milli trjáa og því hefur hvert tré sitt erfðafræðilega fingrafar.

 

Með því að bera DNA úr barrtrjánum þar sem líkið fannst saman við DNA úr barrnálum sem fundust á drullugum stígvélum Joe Elledge gátu vísindamenn sýnt fram á samsvörun. Nálarnar á stígvélunum komu ótvírætt frá trénu sem stóð beint fyrir ofan jarðneskar leifar Mengqi Ji.

Erfðafræðingurinn Christine Edwards greinir nálar úr einiberjatré sem stóð við hliðina á gröf Mengqi Ji.

Fyrir Joe Elledge urðu barrtrén við gröf eiginkonu hans hin afgerandi sönnunargögn og 11. nóvember 2021 var hann dæmdur í 28 ára fangelsi fyrir morðið á Mengqi Ji. Málið er skýrt dæmi um þá öru þróun sem nú á sér stað innan lögreglutækninnar.

 

Nú er ekki aðeins ómögulegt fyrir gerendur að fremja morð án þess að skilja eftir DNA spor – jafnvel loftið sem þeir anda frá sér skilur eftir sig DNA.

 

Morðingjarnir komast heldur ekki hjá því að fá leifar af vettvangi glæpsins á líkama sinn eða föt.

 

Niðurstaðan er sú að lögreglan í sumum Evrópulöndum hefur í dag leyst nærri 100% allra morðmála; til dæmis leystust öll þau 38 morð sem framin voru í Danmörku árið 2023.

 

Reiknirit spáir fyrir um morð

Og þróunin gæti brátt gengið enn lengra en þetta. Í framtíðinni er alls ekki víst að Joe Elledge hefði getað náð að fremja misgjörð sína áður en lögreglan handsamaði hann.

 

Í framtíðinni gætu ný gervigreindarforrit gert lögreglunni kleift að spá fyrir um hvar og hvenær glæpir verða framdir. Með gögnum eins og sakamálaskýrslum, handtökuskrám og skráningarmerkjum bifreiða getur kerfið leitað að mynstrum til að spá fyrir um hvar og hvenær tiltekin tegund glæpa muni eiga sér stað í framtíðinni.

Á 17. og 18. öld þótti sjálfsvíg svo mikil synd að fæstir þorðu að svipta sig lífi. Þess í stað drápu þau barn til þess að fá dauðadóm. Morðingjarnir gátu síðan komist til himna, einungis með því að iðrast gjörða sinna.

Forspárlöggæsla, eins og þessi aðferð er kölluð, hefur meðal annars verið prófuð í Bandaríkjunum og nokkrum Evrópulöndum. Niðurstöðurnar eru misjafnar en í sumum tilfellum virðist aðferðin skila árangri; til dæmis var forritið PredPol gott í að spá fyrir um hvar skotárásir yrðu í bandarísku borginni Chicago.

 

Hröð þróun í gervigreind þýðir líklega að forspárlöggæsla verður nákvæmara og verðmætara tæki í framtíðinni. Þetta mun vonandi gera það enn erfiðara að komast upp með morð.

HÖFUNDUR: ANDREAS EBBESEN JENSEN

© Claus Lunau. © Don Shrubshell/AP/Ritzau Scanpix. © AFP/Ritzau Scanpix. © Shutterstock & Lotte Fredslund. © Gorodenkoff & Shutterstock. © Bill Greenblatt/Shutterstock/Ritzau Scanpix.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hanukkah: Kraftaverkahátíð gyðinga

Náttúran

Hvað eru eldur og logar?

Náttúran

Hvernig stendur á því að bæði heitt vatn og kaldur ís fljóta á vatni?

Alheimurinn

Hvað eru norðurljós?

Heilsa

Tilraun: Langvarandi fasta getur haft neikvæð áhrif

Náttúran

Hvað eru heimsálfurnar margar?

Maðurinn

Draumráðningar – Hvað þýða draumar þínir?

Náttúran

Vetrardvali tryggir lífsskilyrði dýra

Maðurinn

Góðir erfðavísar gera andlitið skakkt: Fögnum ósamhverfu!

Tækni

Ný rafhlöðutækni fyrir rafbíla dregur verulega úr hleðslutíma

Maðurinn

Fólk fætt í sveit er betur áttað.

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is