Fátæka ekkjan Mette Jakobsdatter var dauðþreytt á lífinu. Hún bjó ein með dóttur sinni Lisbeth. Heima fyrir í þorpinu Erristsø var hún hædd og fyrirlitin vegna andlits síns sem var afmyndað af skæðu krabbameini. Þann 3. júní 1762 ákvað hún að binda enda á alla þessa óhamingju sína.
Mette Jakobsdatter skar dóttur sína á háls og beið síðan róleg eftir refsingu sinni. Í dómssalnum í Koldingshus útskýrði hún af hverju hún framdi þetta ódæði: Hún drap barnið til þess að missa sjálf lífið undir öxi böðulsins.
Mette Jakobsdatter fékk ósk sína uppfyllta og hún var langt því frá sú eina sem nýtti sér þetta úrræði. Á árunum frá um 1650 til 1780 skall bylgja af „sjálfsvígsmorðingjum“ yfir Danmörku, Svíþjóð og N-Þýskaland.
„Árið 1736 geisaði þetta morðæði í Kaupmannahöfn. Á tveimur mánuðum, í maí og júní, voru framin átta morð. Flest af fólki sem var langþreytt á lífinu og óskaði sér að deyja. Því fór það jafnan, eftir að hafa myrt ungabörn sín, til lögreglunnar.“
Erik Pontoppidan biskup í Kaupmannahöfn.
Þetta tímabil einkenndist af öfgafullum trúarhita – píetismanum – þar sem guðrækni og meinlætalifnaður einkenndi samfélagið og kirkjusókn varð skylda. Kristna trúin hélt öllum þegnum landanna í heljargreipum sínum.
Í augum kirkjunnar voru sjálfsvíg versta syndin sem manneskja gat drýgt. Jafnframt var það glæpur sem ekki var hægt að friðþægja því sjálfsmorðinginn „dó í synd“ og sál hans var því að eilífu glötuð.
Einungis með því að fremja morð – og verða síðan tekinn af lífi fyrir glæpinn – mátti forðast vist í helvíti.
Átta barnamorð á tveimur mánuðum
Fjöldi sjálfsvígsmorðingja var furðulega hár. Í Stokkhólmi voru 2 af hverjum 3 morðum, undir lok 17. aldar og byrjun þeirrar 18., framin af persónum sem óskuðu þess að vera teknar af lífi. Og í Kaupmannahöfn voru 4 af hverjum 5 dauðadómum kveðnir upp yfir fólki sem óskaði sér heitast að deyja.
„Árið 1736 geisaði þetta morðæði í Kaupmannahöfn. Á tveimur mánuðum, í maí og júní, voru framin átta morð. Flest af fólki sem var langþreytt á lífinu og óskaði sér að deyja. Því fór það jafnan, eftir að hafa myrt ungabörn sín, til lögreglunnar“, skrifaði biskupinn Erik Pontoppidan.
Myndskreyttar lausavísur sögðu frá óhamingjusömum manneskjum sem gerðust morðingjar til þess að fá að deyja.
Rökfærsla morðingjans var skynsamleg að gefnum forsendum: Ef hann myrti syndlaust barn, þá komst barnið beint til himna, meðan morðinginn fékk hjálp kirkjunnar til að iðrast syndarinnar.
Morðinginn var síðar fluttur í gálga í hvítum kufli undir sálmasöng og bænum. Þetta var því orðið trúarleg athöfn og söfnuðurinn fór með faðir vorið þegar öxin féll. Himnavistinni var borgið.
Hert á dauðarefsingu
Með tímanum sáu yfirvöld að ógnin við dauðann væri ekki lengur hræðileg heldur hvetti sjálfsvígsmorðingjana til frekari ódæða.
Því ákvað dansk-norski kóngurinn Kristján fimmti árið 1697 að skerpa dauðarefsinguna svo að hinn dæmdi sjálfsvígsmorðingi myndi ekki einungis missa höfuðið, heldur yrði hann einnig klipinn með glóandi töngum fimm sinnum: Fyrst á afbrotastað, því næst þrisvar sinnum á leið hans til aftökustaðarins og að lokum skömmu fyrir aftökuna.
Áður en hann væri hálshöggvinn skyldi hægri hönd hans höggvin af, síðan yrði skrokkurinn festur upp á stjaka, höfuðið sömuleiðis og afhöggna höndin saumuð föst neðan á búkinn.
Líkamshlutunum var stillt þannig upp, þar til þeir duttu sjálfir niður vegna rotnunar, til þess að „aðrir líkt þenkjandi siðleysingjar“ skyldu finna fyrir „ótta og blygðun“ samkvæmt kónginum.
Að aftöku lokinni voru sjálfsvígsmorðingjar sundurlimaðir og settir á stjaka.
Hörð refsing átti að milda Guð
Konungar í Norður-Evrópu óttuðust refsingu guðs ef þeir veittu ekki sjálfsvígsmorðingjum kvalafullan dauða.
Hörð refsing sjálfsvígsmorðingjanna byggði á kröfunni um „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“ í Gamla Testamentinu.
Konungurinn ríkti vegna náðar guðs og bar því að refsa glæpamönnum – annars myndi reiði guðs skella á þjóðinni með plágum, hungursneyð og öðrum skelfingum.
Oft dugði öxi böðulsins ekki til. Til aukinnar refsingar voru afbrotamenn sundurlimaðir og líkamshlutum þeirra komið fyrir uppi á steglum og vagnhjólum til þess að vara aðra íbúa landsins við.
Í Svíþjóð innleiddu yfirvöld svipaðar hegningar auk dauðarefsingarinnar – en það dugði ekki alltaf eins og sagan um hermanninn Johan Hellbom í Stokkhólmi er til marks um.
Hellbom var árið 1753 dæmdur til að ganga svipugöngin, refsing sem fór fram með þeim hætti að 300 hermenn með prik tóku sér stöðu í tveimur röðum. Síðan skyldi hinn dæmdi hlaupa milli þeirra meðan höggin voru látin dynja á honum.
Þetta mátti endurtaka allt að 24 sinnum og olli jafnan mikilli fötlun á hinum dæmda. Með slíkar framtíðarhorfur kaus Johann Hellbom fremur að deyja. En í stað þess að fremja sjálfsvíg og fyrirgera sálu sinni drap hann barn.
Ævilangt fangelsi var verst
Hellbom var dæmdur ekki aðeins til að missa höfuðið heldur einnig til að húðstrýkjast dagana fyrir aftökuna. Síðan var lík hans hlutað í sundur og fest upp á stjaka.
Þessi hræðilega refsing hafði þó ekki mikil áhrif. Sjálfsvígsmorðin héldu áfram því skammvinnar píslir skiptu ekki miklu máli þegar eilíft líf í Paradís beið manns.
Í Danmörku kaus kóngur að herða refsinguna enn frekar árið 1749 þannig að hinn dæmdi nyti ekki lengur leiðsagnar klerka.
Þess í stað átti aftakan að vera ein löng og samfelld niðurlæging: Aleinn og án nokkurrar seremóníu átti að aka hinum dæmda á aftökustaðinn í kerru sem var dags daglega notuð til að flytja sjálfdauðan búfénað sem og innihald úr kömrum bæjarins. Alla leiðina átti hinn dæmdi að sitja á hækjum sínum með samanbundnar hendur og snöru um hálsinn.
Þetta var sú refsing sem Mette Jakobsdatter hlaut. Nú virtist varla hægt að gera refsinguna öllu hræðilegri – en engu að síður héldu sjálfsvígin áfram.
Danski lögmaðurinn Henrik Stampe lagði þess vegna til að fólk sem fremur morð til þess að vera tekið af lífi – „döpru morðingjarnir“ – eins og hann kallaði þá, skyldi þess í stað vera dæmt í ævilangt fangelsi og húðstrýkt með reglulegu millibili.
Hugmynd þessi var samþykkt með lagasetningu árið 1767 og bætt við að sjálfsvígsmorðingjar skyldu brennimerktir á ennið, festir í járn og látnir þræla ævina út, húðstrýkjast opinberlega árlega og eftir dauðann sundurlimaðir og festir upp á stjaka. Loksins virkaði löggjöfin. Sjálfsvígsmorðingjarnir hurfu smám saman.
Í Svíþjóð tóku breytingar á meðferð sjálfsvígsmorðingja nokkuð lengri tíma. En eftir 1830 voru nýjar refsingar settar í lög til að stöðva morðingjana. Í millitíðinni höfðu hugmyndir upplýsingatímans náð slíkri fótfestu að kirkjan hafði misst ægivald sitt og trúin á eilífa bölvun fjaraði út.
Lesið meira um sjálfsvígsmorðingjana:
Martin Bergman: Vägen till himlen går över Schavotten