Lifandi Saga

Edmund Kemper: Hrottafenginn raðmorðingi var vinur lögreglunnar

VARÚÐ - ÓHUGNANLEG LESNING. Nautsterkur, bráðgáfaður og snargeðveikur – „Stóri Ed“ er einn af hræðilegustu raðmorðingjum gjörvallrar sögunnar. Hann sat úti á krá þar sem hann skiptist á kjaftasögum við lögreglumenn svæðisins, samtímis því sem hann lét sig dreyma um að myrða ungar konur og brytja þær niður.

BIRT: 04/03/2024

Regnið buldi á framrúðunni á Ford Galaxie bifreið Edmunds Kempers. Hinn 8. janúar 1973 hafði rignt sleitulaust allt kvöldið í Santa Cruz í Kaliforníu en hinn 24 ára gamli Ed kunni vel að meta úrkomuna.

 

Í huga hans hentaði rigningin nefnilega einkar vel fyrirætlun hans sem fólst í því að narra stúlkur inn í bílinn. Þarna keyrði hann hring eftir hring og svipaðist um eftir fórnarlömbum.

 

Í tilefni þess sem var í vændum hafði Kemper klætt sig í „drápsfötin“ sín, líkt og hann kallaði köflóttu skyrtuna og dökku gallabuxurnar.

 

Maðurinn sem var röskir tveir metrar á hæð, hafði myrt nokkrar stúdínur í nákvæmlega þessum fatnaði en fötin voru valin með tilliti til þess að dökkir litirnir gætu hulið blóðslettur úr fórnarlömbunum.

 

Þegar klukkan nálgaðist fimm síðdegis, sá Ed, gegnum kringlóttu gleraugun sín, mannveru sem stakk þumlinum upp í loft. Hann sveigði samstundis út á vegarbrúnina.

 

„Cindy“, sagði ljóshærða stúlkan og settist í farþegasætið við hlið Eds. Hún sagðist hafa verið að gæta barna og vera á leið heim á stúdentagarðinn sinn. Ed var ekki kominn langt áður en hann dró byssu undan bílsætinu sínu.

 

Hann veifaði vopninu og naut þess að sjá óttann í augum stúlkunnar. Cindy þrábað Ed um að þyrma lífi sínu en Ed sagðist einfaldlega bara hafa þörf fyrir „einhvern að rabba við“.

 

Ed ók bifreiðinni tímunum saman, sífellt lengra upp í hæðirnar í Kaliforníu, þar til hann loks beygði inn á lítinn, fáfarinn hliðarveg. Maðurinn tók nú byssuna upp aftur og þvingaði stúlkuna til að leggjast í farangursrýmið.

 

Andmæli stúlkunnar gögnuðust henni engan veginn og að lokum kom hún sér fyrir í skottinu á upprúlluðu teppi.

 

Kemper langaði til að nauðga stúlkunni en fékk sig ekki til þess. Þess í stað setti hann byssuhlaupið við höfuð hennar og hleypti af.

 

„Bara einn hvellur og síðan, alger kyrrð“, sagði hann undrandi við sjálfan sig.

 

Clarnell Kemper skammaði son sinn reglulega og tjáði honum að hann gæti aldrei eignast kærustu.

Morðinginn skellti aftur skottinu og ók áhyggjulaus heim til móður sinnar sem hann bjó hjá. Til allrar hamingju fyrir hann, voru nágrannarnir ekki heima og fyrir vikið dró hann lík stúlkunnar í rigningunni og fór með hana inn í herbergi sitt.

 

Þar tróð hann líkinu inn í fataskáp og rétt náði að þvo af sér blóðið áður en mamma hans, Clarnell, stóð í gættinni.

 

Þetta kvöld sátu mæðginin inni í stofu og spjölluðu en Ed var raunar með allan hugann við líkið í skápnum. Hann gat varla beðið eftir að móðirin færi til vinnu næsta dag, til þess að hann gæti haldið áfram með næsta þrep óra sinna.

 

Clarnell Kemper áleit soninn vera gagnslausan vesaling og datt engan veginn í hug að hann væri eftirlýstur raðmorðingi sem legði það í vana sinn að brytja niður fórnarlömb sín, né heldur hugkvæmdist henni hvaða áform Ed hafði í tengslum við hana sjálfa.

 

Santa Cruz var þekktur strandbær en upp úr 1970 var bærinn einnig þekktur fyrir hrottafengna raðmorðingja.

Friðsæll strandbær í Kaliforníu breyttist í sæluland morðingjans

Snemma á sjöunda áratug 20. aldarinnar hafði Santa Cruz í Kaliforníu orð á sér fyrir að vera friðsæll strandbær. Íbúarnir voru 30.000 talsins og meðal þeirra var að finna brimbrettaiðkendur, ellilífeyrisþega og hippa sem allir lifðu þar áhyggjulausu lífi.

 

Upp úr 1965 fóru námsmenn jafnframt að dvelja í bænum en um svipað leyti hafði verið sett á laggirnar útibú frá Berkeley-háskólanum.

 

Áhyggjulaust lífið í Santa Cruz gerði það að verkum að unga fólkið ferðaðist oft á puttanum þegar það átti erindi á milli staða og þessi ferðamáti gerði það að auðveldri bráð fyrir útsmogna morðingja.

 

Ed Kemper var nefnilega ekki einn um hituna, heldur sá raðmorðinginn Herbert Mullin sér einnig leik á borði. Hann myrti alls 13 manns, því hann taldi að morðin kæmu í veg fyrir að jarðskjálfti riði yfir Kaliforníu.

 

Árið áður en Ed Kemper og Herbert Mullin hófust handa við iðju sína á árunum 1971-72 hafði annar raðmorðingi látið að sér kveða í Santa Cruz. Sá hét John Linley Frazier en gekk undir heitinu „Drápsspámaðurinn“. Sá hafði myrt augnlækni, fjölskyldu hans og ritara sem öll bjuggu í bænum.

 

Um var að ræða öfgatrúarmann sem hélt því fram að guð hefði skipað sér að fremja morðin.

 

Kettir fjölskyldunnar bútaðir niður

Edmund Emil Kemper hafði ekki átt sjö dagana sæla í barnæsku. Hann fæddist í bænum Burbank í Kaliforníu árið 1948 og var ekki ýkja gamall þegar hann fór að verða vitni að háværum rifrildum foreldranna.

 

Það var einkum móðirin sem réðst til atlögu við eiginmann sinn sem hún áleit vera mannleysu sökum þess að hann þénaði ekki nóg. Móður Eds fannst faðirinn jafnframt vera allt of linur við soninn en fullstrangur við dæturnar tvær.

 

Hjónin skildu þegar Ed var níu ára að aldri og eftir það sá hann föður sinn sjaldan. Ed saknaði pabba síns verulega mikið, ekki hvað síst vegna þess að móðirin drakk ótæpilega og var sífellt að skamma hann.

 

Verstar voru þó næturnar en þá þvingaði hún strákinn niður í gluggalaust kjallaraherbergi. Þar lá hann á mottu allar nætur í átta mánuði áður en faðirinn uppgötvaði harðræðið.

 

„Ég hafði lengi velt því fyrir mér hvernig yrði að skjóta ömmu“.

Ed Kemper, 15 ára.

 

„Ed var logandi hræddur við þennan stað. Það var aðeins ein leið út úr herberginu. Fyrst þurfti að færa úr stað eldhúsborðið og svo að lyfta upp hlera. Ég fékk hana til að hætta þessu og hótaði að kalla til lögregluna“, sagði faðirinn seinna.

 

Ed bjó áfram hjá móður sinni og varð stöðugt skrýtnari. Hann hjó höfuðin af dúkkum systra sinna og dag einn gróf hann kött fjölskyldunnar lifandi í garðinum á bak við húsið. Hann gróf köttinn svo upp síðar og hjó af honum hausinn.

 

Þrettán ára að aldri refsaði Ed sínum eigin Síams-ketti á sama hátt, því kötturinn kaus frekar að vera hjá systrum Eds en honum sjálfum.

 

Ed reifst við stjórnsama móður sína öllum stundum og að lokum kom pabbi hans því þannig fyrir að Ed skyldi búa hjá afa sínum og ömmu á sveitabæ þeirra.

 

Þegar móðirin frétti af ráðahagnum hringdi hún drukkin í fyrrum eiginmann sinn og sagði: „Drengurinn er stórskrýtinn. Láttu þér ekki bregða þótt þú fréttir af því einn góðan veðurdag að búið sé að myrða foreldra þína“.

 

„Stóri Ed“ var 2,06 m á hæð og gnæfði þar með yfir langflesta – meira að segja lögreglumennina.

Amman sem skotmark

Í augum hins 15 ára gamla Eds var aðeins ein manneskja jafn hræðileg og móðirin en það var amma drengsins, Maude, hranaleg og stjórnsöm kona sem stöðugt var að skammast í drengnum.

 

„Mér var algerlega fyrirmunað að gleðja hana. Ég var eins konar tifandi tímasprengja og að lokum sprakk ég“, sagði Ed eftir handtökuna.

 

Einn góðan veðurdag í ágúst árið 1964 sat unglingurinn einn við eldhúsborðið ásamt ömmu sinni sem bað hann um að vera ekki svona undarlegan á svipinn.

 

Ed ýtti aftur stólnum, greip riffilinn sinn og kvaðst ætla út að skjóta kanínur. „Já, en gættu þess að skjóta ekki fuglana“, sagði Maude þá geðvonskulega.

 

Skyndilega fann drengurinn fyrir gífurlegri reiði um allan líkamann og beindi riffilhlaupinu að hnakka ömmunnar. Hár hvellur kvað við í eldhúsinu og blóðið spýttist út úr nefi hennar og munni.

 

Tvö skot að auki tryggðu að föðuramman væri örugglega öll. Hann dró líkið inn í svefnherbergi gömlu hjónanna og hugleiddi að afklæða ömmuna en hætti fljótlega við það, því honum fannst það óviðurkvæmilegt.

 

Nú heyrði Ed gömlu bifreiðina hans afa stöðvast úti á hlaði. Afinn sem var 72 ára, hafði farið í búðir og var í þann mund að taka innkaupapokana úr bílnum þegar drengurinn sendi byssuskot gegnum höfuðið á honum.

 

Ed varð skelfingu lostinn eitt andartak og reyndi að hylja ummerkin en áttaði sig þó fljótt á að engin leið væri að halda því fram að um voðaskot hefði verið að ræða.

 

Þess í stað hringdi hann í lögreglustjóra héraðsins sem kom heim á bæinn. Drengurinn viðurkenndi að hafa myrt ömmu sína og afa og þegar furðu lostinn lögreglustjórinn spurði hann hvers vegna, svaraði Ed sallarólegur:

 

„Ég hef oft verið að hugsa um hvernig það væri að skjóta ömmu“.

 

Stúlkurnar voru narraðar inn í dauðagildru á hjólum

Ed Kemper keyrði fram og til baka um alla Kaliforníu á Ford-bifreið sinni sem var hans helsta hjálpartæki þegar hann var að fremja morðin. Hann hafði skipulagt hvert smáatriði með það fyrir augum að stúlkurnar slyppu ekki út úr bifreiðinni aftur þegar þær fyrst voru komnar inn.

Ed var með límmiða á framrúðunni sem sýndi puttalingunum að hann væri nemi við háskólann í Santa Cruz og mætti leggja bifreið sinni á bílastæði háskólans. Hann hafði reyndar aldrei numið við háskólann, heldur fékk hann límmiðann hjá móður sinni sem vann á skrifstofu háskólans.

Í stað útvarpstækis var bifreiðin útbúin lögreglutalstöð sem gerði Ed kleift að fylgjast með ferðum lögreglunnar og hvort þeir hugsanlega hefðu fundið einhver fórnarlamba hans.

Læsingin á farþegahurðinni stóð á sér, því Ed sagði stúlkunum að ekki væri hægt að loka dyrunum almennilega og stakk svo varasalva inn í læsinguna þegar hann skellti fyrir þær hurðinni. Þannig var ekki hægt að opna dyrnar innan frá.

Undir bílstjórasætinu geymdi Ed Kemper byssu sem hann tók upp þegar hann hugðist myrða fórnarlömb sín.

 

Eftir morðin á afanum og ömmunni mátti hann í raun ekki eiga skotvopn en honum hafði engu að síður tekist að sannfæra læknana á geðdeildinni um að af honum stafaði ekki lengur nein ógn. Fyrir vikið höfðu yfirvöld ekki aðgang að sakavottorði hans.

Vinstra brettið var skemmt, því keyrt hafði verið á bifreiðina. Þetta þótti Ed miður, því hann áttaði sig á að þannig yrði auðveldara að bera kennsl á bílinn.

 

Hann hafði ekki efni á að láta gera við skemmdina, svo hann tjaslaði upp á brettið þannig að afturljósið virkaði og svoleiðis voru minni líkur á að lögreglan stöðvaði hann.

Farangursrýmið var fullt af sterklegum plastpokum og þar var jafnframt blátt teppi sem Ed notaði til að hylja líkin með, svo þau sæjust ekki. Þar geymdi hann einnig öxi sem hann notaði til að höggva höfuð kvennanna af búkum þeirra.

Stúlkurnar voru narraðar inn í dauðagildru á hjólum

Ed Kemper keyrði fram og til baka um alla Kaliforníu á Ford-bifreið sinni sem var hans helsta hjálpartæki þegar hann var að fremja morðin. Hann hafði skipulagt hvert smáatriði með það fyrir augum að stúlkurnar slyppu ekki út úr bifreiðinni aftur þegar þær fyrst voru komnar inn.

Ed var með límmiða á framrúðunni sem sýndi puttalingunum að hann væri nemi við háskólann í Santa Cruz og mætti leggja bifreið sinni á bílastæði háskólans. Hann hafði reyndar aldrei numið við háskólann, heldur fékk hann límmiðann hjá móður sinni sem vann á skrifstofu háskólans.

Í stað útvarpstækis var bifreiðin útbúin lögreglutalstöð sem gerði Ed kleift að fylgjast með ferðum lögreglunnar og hvort þeir hugsanlega hefðu fundið einhver fórnarlamba hans.

Læsingin á farþegahurðinni stóð á sér, því Ed sagði stúlkunum að ekki væri hægt að loka dyrunum almennilega og stakk svo varasalva inn í læsinguna þegar hann skellti fyrir þær hurðinni. Þannig var ekki hægt að opna dyrnar innan frá.

Undir bílstjórasætinu geymdi Ed Kemper byssu sem hann tók upp þegar hann hugðist myrða fórnarlömb sín.

 

Eftir morðin á afanum og ömmunni mátti hann í raun ekki eiga skotvopn en honum hafði engu að síður tekist að sannfæra læknana á geðdeildinni um að af honum stafaði ekki lengur nein ógn. Fyrir vikið höfðu yfirvöld ekki aðgang að sakavottorði hans.

Vinstra brettið var skemmt, því keyrt hafði verið á bifreiðina. Þetta þótti Ed miður, því hann áttaði sig á að þannig yrði auðveldara að bera kennsl á bílinn.

 

Hann hafði ekki efni á að láta gera við skemmdina, svo hann tjaslaði upp á brettið þannig að afturljósið virkaði og svoleiðis voru minni líkur á að lögreglan stöðvaði hann.

Farangursrýmið var fullt af sterklegum plastpokum og þar var jafnframt blátt teppi sem Ed notaði til að hylja líkin með, svo þau sæjust ekki. Þar geymdi hann einnig öxi sem hann notaði til að höggva höfuð kvennanna af búkum þeirra.

 

Ed afplánaði innan um kynferðisglæpamenn

Ed Kemper afplánaði í unglingafangelsi um skamma hríð en eftir að geðlæknir hafði rætt við drenginn og komist að raun um að hann væri „ofsóknaróður og með geðklofa“ var hann sendur í meðferð á ríkisspítalanum í Kaliforníu.

 

Á sjúkrahúsinu var geðlæknirinn William Schanberger í daglegu sambandi við Ed og læknirinn komst fljótt að raun um að drengurinn væri vel gefinn, já, í raun svo greindur að hann var með greindarvísitöluna 136.

 

Schanberger leyfði fanganum unga fyrir vikið að starfa fyrir sig á rannsóknarstofu sjúkrahússins og Ed fékk fljótt orð fyrir að vera góður starfsmaður.

 

Eftir því sem árin liðu virtist Ed verða sífellt eðlilegri, því ungi maðurinn áttaði sig fljótt á hvað geðlæknarnir vildu heyra og hegðaði sér í samræmi við það.

 

„Hann hefur brugðist afbragðsvel við meðferð og endurhæfingu undanfarin ár og ég sem geðlæknir sé enga ástæðu til að ætla að hann geti verið sjálfum sér eða öðrum hættulegur“, ritaði geðlæknir hans í síðustu sjúkraskrána, skömmu áður en Ed var látinn laus á 21. afmælisdegi sínum.

 

Ed hafði að sjálfsögðu aldrei upplýst lækna sjúkrahússins um allt það sem hann hefði lært á geðveikraspítalanum, þar sem hundruð fárveikra kynferðisglæpamanna voru samankomnir.

 

Ed hafði að sjálfsögðu heyrt þá tala um nauðganir og aðrar hrottafengnar árásir og þessi nýi heimur vakti með honum kynferðislega óra sem einkenndust af ofbeldi.

 

Edmund Kemper myrti afa sinn og ömmu, auk minnst sex ungra kvenna.

1. Maude Kemper, 67 ára
2. Edmund Kemper, 72 ára
3. Allison Liu 20 ára
4. Rosalind Thorpe 23 ára
5. Mary Anne Pesce 18 ára
6. Anita Luchessa 18 ára
7. Cindy Schall 18 ára
8. Aiko Koo 15 ára

Grunlausir námsmenn

Geðlæknirinn hafði mælst til þess að Ed umgengist ekki móður sína þegar hann yrði látinn laus en yfirvöld í Kaliforníu sendu glæpamanninn unga engu að síður rakleiðis í umsjá móður hans.

 

Þó svo að hann hefði ekki búið heima í sex ár, hafði nánast ekkert breyst. Rifrildin blossuðu upp reglulega og enduðu ætíð með því að Ed rauk á dyr. Þegar þarna var komið sögu bjó móðirin í Santa Cruz í Kaliforníu.

 

Ed settist iðulega inn á knæpuna Jury Room sem lögreglumenn bæjarins sóttu gjarnan eftir vinnu. Hann drakk bjór með laganna vörðum og leit upp til þessara einkennisklæddu manna.

 

Hann langaði sjálfan að ganga í lögregluna en hafði nú náð fullum vexti og var 206 cm á hæð og vó 125 kg, með öðrum orðum risavaxinn karlmaður og allt of stór til að geta orðið lögga.

 

Þess í stað fékk hann tímabundið starf sem ófaglærður umferðarvörður. Stærðar sinnar vegna hlaut hann viðurnefnið „Stóri Ed“ á kránni Jury Room en þar datt engum í hug að forvitnast um fortíð hans.

 

Ed Kemper fékk útrás fyrir gremju sína með öðru móti. Hann keyrði stundum hundruð kílómetra um svæðið milli San Francisco og Santa Cruz og mætti þá annað slagið ungum stúlkum sem voru að ferðast á puttanum.

 

Þegar frá leið fór hann að bjóða þeim far. Hann naut þess að vera í samneyti við þær, ekki hvað síst þær varnarlausu og tengdi þær við hrottafullt ofbeldið sem hann gat ekki hætt að hugsa um.

 

Hinn 7. maí 1972 gat hann ekki lengur haldið aftur af löngun sinni. Kemper hafði tamið sér yfirvegaða og vinalega framkomu til þess að puttalingarnir óttuðust hann síður, risavaxinn eins og hann var.

 

Fyrir bragðið hikuðu Mary Anne Pesce og Anita Luchessa alls ekki þegar hann stöðvaði bifreiðina í borginni Fresno um fjögurleytið síðdegis. Stúlkurnar sem voru báðar 18 ára að aldri, voru á leið í heimsókn til skólasystur sinnar sem var fyrsta árs nemi við háskólann, líkt og þær.

 

„Þið vitið áreiðanlega hvað ég ætla mér“.

Edmund Kemper við tvö fórnarlömb sín.

 

Ed áttaði sig fljótt á að stúlkurnar voru ekki kunnugar staðháttum á svæðinu. Hann beygði þess vegna fljótt út af þjóðveginum og ók í áttina að óbyggðu svæði.

 

Þegar hann að lokum beygði inn á fáfarinn sveitaveg fór stúlkurnar að gruna að þær væru í vanda staddar. Þær sannfærðust svo um að þær væru í lífshættu þegar Ed beindi byssu sinni að þeim.

 

„Hvað viltu?“ spurði önnur stúlkan.

 

„Þið vitið áreiðanlega hvað ég ætla mér“.

 

Anita reyndi að tala um fyrir honum, allt hvað hún gat, en það þýddi ekkert. Hann handjárnaði stúlkuna og greip svo Mary Anne sem var lömuð af hræðslu og henti henni aftur í farangursrýmið.

 

Hann stakk hana aftur og aftur með hnífnum sínum, án þess að Anita sæi til hans og vesalings stúlkan lét lífið þarna í farangursrýminu.

 

FBI hóf að rannsaka raðmorð

Þegar raðmorðum fór fjölgandi neyddist alríkislögreglan til að hefja rannsóknir á því hvað knýr fólk til að fremja slík morð. Eftir samtöl við m.a. Ed Kemper hófu þeir að grannskoða ástæður og aðferðir. Rannsóknir þeirra leiddu í ljós að til væru þrjár gerðir raðmorðingja.

 

Þrjár gerðir raðmorðingja:

Sá skipulagði

Góðar gáfur og natni einkenna skipulagða raðmorðingjann. Slíkan raðmorðingja er að jafnaði erfiðast að góma. Hann skipuleggur hvert einasta smáatriði glæpsins fyrirfram til að tryggja að engin sönnunargögn finnist.

 

Skipulagði morðinginn fylgist gjarnan með fórnarlambi sínu dögum saman. Að því loknu er fórnarlambinu ósjaldan rænt, jafnvel eftir sviðsettan atburð.

 

Síðan er því ekið á afvikinn stað, þar sem nægur tími gefst fyrir sjálft morðið. Skipulagði morðinginn er einatt hreykinn af gerðum sínum og fylgist grannt með fréttum af morðum sínum.

 

Raðmorðinginn Ted Bundy sem sagður var vera greindur og aðlaðandi, myrti á árunum 1970-1980 á bilinu 30 til 50 konur í Bandaríkjunum en hann þykir vera gott dæmi um skipulagðan morðingja.

 

Sá óskipulagði

Óskipulagði morðinginn er sjaldnast búinn að skipuleggja glæpi sína, heldur virðist það tilviljunum háð hverja hann myrðir.

 

Hann hugsar heldur ekki um að hylja slóð sína þegar morð hefur verið framið. Óskipulagður morðingi er að öllu jöfnu illa gefinn, á við geðræn vandamál að etja og er einfari.

 

Hann er iðulega undir áhrifum fíkniefna þegar hann fremur glæpina og man fyrir vikið ekki ýkja vel eftir voðaverkum sínum.

 

Richard Chase er gott dæmi um óskipulagðan raðmorðingja en hann kallaðist einnig „Dracula-morðinginn“.

 

Richard Chase myrti sex tilviljanakenndar manneskjur á einum mánuði árið 1978 í því skyni að drekka blóð þeirra. Hann framdi morðin sökum ranghugmynda um að hann yrði að myrða og drekka blóð til að koma í veg fyrir að nasistar og geimverur myrtu hann með eitri sem væri falið undir sápuskálinni heima hjá honum.

 

Sá flókni

Þriðji flokkur raðmorðingja hjá FBI samanstendur af raðmorðingjum sem eru bæði með einkenni skipulagða raðmorðingjans og þess óskipulagða. Ed Kemper var slíkur morðingi.

 

Hann var skipulagður og vel undirbúinn þegar hann myrti ungu puttalingana sem hann jafnframt limlesti á skipulegan hátt með því t.d. að skera af þeim höfuðin.

 

Hins vegar virðist það hafa verið tilviljunum háð hvað hann síðan gerði við líkin. Sum þeirra hafði hann samfarir við en aðrar konur myrti hann án þess að til þess kæmi.

 

Eftir viðtöl við m.a. Ed Kemper drógu lögreglumenn alríkislögreglunnar þá ályktun að skipulagðir raðmorðingjar kunni að fremja óskipulögð morð sökum streitu.

 

Þegar Ted Bundy flýði meðan á réttarhöldunum yfir honum stóð árið 1977, byrjaði hann að fremja óskipulögð morð, sennilega sökum þess að honum hugnaðist ekki lífið á flótta.

 

Hann sneri sér aftur að Anitu sem sat í farþegasætinu og þegar hún spurði hvað hefði hent vinkonu hennar, Mary Anne, svaraði Ed:

 

„Hún var með stæla, svo ég nefbraut hana. Þú ættir að koma og hjálpa henni“.

 

Þegar Anita var komin út úr bílnum tók Ed upp stóran hníf og stakk hana í bakið. Stúlkan var þó áfram með meðvitund og hóf nú að berjast af öllum kröftum við risavaxinn manninn.

 

Ed reyndi að skera hana á háls en hún varði sig með höndunum og fékk á þær stungusár.

 

Hann hélt áfram að stinga hnífnum í stúlkuna og fylgdist í hrifningu með öskrum hennar og mismunandi viðbrögðum við hverri stungu. Þegar hann hafði veitt stúlkunni mörg djúp sár lá hún að lokum hreyfingarlaus á jörðinni.

 

Að þessu loknu bútaði hann líkin niður og skar af þeim höfuðin, nákvæmlega á sama hátt og hann hafði gert með kettina.

 

Hann brenndi líkamana til ösku uppi í fjöllunum en geymdi reyndar höfuðin sem eins konar herfang og jafnframt í því skyni að tefja fyrir lögreglurannsókninni.

 

Hann ætlaði sér alls ekki að láta góma sig, líkt og höfðu verið örlög vesalinganna sem hann hafði afplánað með á ríkisspítalanum.

 

Ed varðveitti minjagripi um morðin - oftast föt fórnarlambanna eða háskólaskilríki þeirra.

Æstist upp við það að skera höfuðin af

Fjórum mánuðum eftir morðin á Mary Ann og Anitu tók Ed 15 ára gamla stúlku, að nafni Aiko Koo, upp í bílinn. Hún var á leið í ballett þegar morðþorstinn sótti að honum aftur. Hann skar höfuð hennar einnig af líkamanum og sú athöfn vakti með honum kynferðislega löngun.

 

„Þetta var kynferðisleg spenna, ekki ósvipað því þegar veiðimaður sker höfuðið af hjartardýri. Ég var veiðimaðurinn og þær bráðin“, viðurkenndi morðinginn í yfirheyrslu.

 

Þegar Ed hafði myrt Aiko hafði hann samfarir við líkið. Þetta átti enn fremur við um barnfóstruna Cindy Schall sem hann skaut í höfuðið, þar sem hún lá í farangursrými bifreiðarinnar í janúar árið 1973.

 

Um leið og móðirin, Clarnell, var farin í vinnuna tók Ed líkið af Cindy út úr skápnum og hafði samfarir við látna stúlkuna.

 

Hann bútaði því næst líkið niður og dreifði bútunum fyrir utan borgina en varðveitti reyndar höfuðið í margar vikur, allt þar til hann gróf það úti í garði, beint fyrir framan svefnherbergi móður sinnar.

 

Staðsetningin var hugsuð sem kaldhæðnisleg kveðja til móðurinnar sem þráði svo mikið að fólk „liti upp til hennar“. Nú horfði látið andlitið upp í átt til móðurinnar á hverri nóttu, án þess að hana grunaði neitt.

 

Ósætti Eds og móður hans lagaðist ekkert og eftir enn eitt heiftarlegt rifrildið þann 8. febrúar 1973 kom morðhvötin upp í Ed á nýjan leik. Hann tók tvær skólastúlkur, Rosalind Thorpe og Alice Liu, upp í bílinn skammt frá háskólanum í Santa Cruz.

 

Þegar hann hafði skotið þær báðar keyrði hann heim til mömmu sinnar. Þar skar hann svo höfuðin af báðum stúlkunum á meðan móðir hans horfði á sjónvarpið.

 

Ed sagði alríkislögreglunni allt

Í yfirheyrslum hjá alríkislögreglunni sagði „Stóri Ed“ fúslega frá sjálfum sér og grimmilegum morðunum sem hann hafði framið. Hann virtist vera sallarólegur og yfirvegaður þegar hann lýsti ástæðu þessara hrottafengnu morða.

 

„Hugsanlega getið þið rannsakað mig og komist að raun um hvað fær fólk eins og mig til að gera slíka hluti“.

 

Þannig hljómuðu viðbrögð Eds þegar alríkislögreglumaðurinn John Douglas óskaði eftir að ræða við hann árið 1979. Lögreglumennirnir ræddu við Ed og ótalmarga aðra raðmorðingja í því skyni að skilja hvað fengi þá til að fremja slík ódæði og enginn var hjálplegri og opnari en góðvinur lögreglunnar – „Stóri Ed“.

 

„Hann opnaði sig og ræddi við okkur tímunum saman. Hann var hvorki með stæla né hroka, né heldur var hægt að skynja að hann sæi eftir neinu eða væri með samviskubit“, sagði lögreglumaðurinn Douglas seinna.

 

Alríkislögreglumaðurinn ræddi jafnframt við morðingja á borð við Ted Bundy og Charles Manson en Douglas lýsti Ed Kemper sem einum greindasta fanga sem hann hefði hitt. Hann kvað Ed hafa getað greint sjálfan sig á einkar áhugaverðan hátt.

 

Ed var sannfærður um að hann passaði ekki inn í samfélagið. Höfnun móðurinnar gagnvart honum í æsku, svo og kynlífsórar hans, hefðu hvatt hann til að fremja ódæðin.

Kaldrifjaðar athugasemdir Eds við lögreglumanninn sýndu, svo ekki varð um villst, að maðurinn var ekki heill á geði.

 

„Þegar ég kem auga á stúlku, langar mig hálfvegis að bjóða henni út. Hálfvegis langar mig samt að komast að raun um hvernig höfuð hennar liti út á priki“.

 

„Þegar ég var í rétta skapinu fékk ekkert stöðvað mig“.

 

„Ef ég dræpi þær, gætu þær ekki hafnað mér sem manni“.

 

„Ég dáðist að verki mínu og jafnframt að fegurð stúlkunnar. Ég held að ég verði að segja að ég hafi dáðst að veiði minni, líkt og stangveiðimaður“.

Eftir að Ed hafði verið handsamaður var hann mjög áfjáður í að sýna lögreglumönnunum hvar líkin væru grafin.

Lögreglumennirnir voru hrifnir af „Stóra Ed“

Í lok vetrar, árið 1973, byrjaði óttinn að grafa um sig meðal íbúanna í Santa Cruz, jafnframt því sem sífellt fundust fleiri hlutar úr líkum ungra stúlkna sem höfðu verið myrtar.

 

Líkin af Rosalind og Alice voru þau síðustu sem fundust og blaðamenn fóru að kalla morðingjann „stúdínumorðingjann“, því augljóst var að hann myrti einkum ungar stúlkur í háskóla.

 

Háskólarnir vöruðu kvenkyns nemendur sína við, í samstarfi við lögregluna.

 

„Haldið ykkur heima í herbergjunum eftir miðnætti og læsið hurðunum.

 

Ef þið endilega þurfið að fara út, skuluð þið vera tvær og tvær saman. Þiggið aldrei far hjá ókunnugum!!!“ stóð á tilkynningum sem hengdar voru upp á háskólasvæðunum.

 

Viðvaranir þessar komu ekki í veg fyrir að Ed Kemper færi á pöbbinn Jury Room, þar sem lögreglumennina grunaði aldrei að Stóri Ed gæti gert flugu mein.

 

„Hann var verulega fínn náungi. Einstaklega vinalegur og hlýlegur“, sagði lögreglumaður að nafni Jim Conner sem spjallaði oft við Ed á barnum.

 

Á Jury Room sóttist raðmorðinginn mjög mikið eftir tíðindum af sundurskornum líkum í héraðinu.

 

„Stóri Ed“ skálaði við lögreglumennina, líkt og hann tilheyrði hópi þeirra, á meðan þeir sögðu fréttir af rannsókninni. Sér til mikillar ánægju heyrði hann að lögreglan hafði engar vísbendingar í málinu.

 

Næstu mánuðina fann lögreglan sífellt fleiri líkamshluta stúlkna sem „stúdínumorðinginn“ hafði myrt, þrátt fyrir hvað hann hafði lagt mikið á sig við að fela þá.

 

Ed fannst böndin vera farin að berast að sér og var sannfærður um að félagar hans á Jury Room væru farnir að hafa á sér gætur.

 

Ed ákvað að nú væri kominn tími á endanlega uppgjörið – hann varð að drepa móður sína á meðan enn gafst ráðrúm til þess.

 

Hamarshögg batt enda á haturssamband

Allar götur frá því að Ed hafði verið læstur niðri í kjallaranum sem barn hafði hatrið gegn móðurinni búið um sig í Ed og hafði í raun bara aukist við hvert rifrildið.

 

Geðlæknar mátu sem svo að hugsanlega hefði Ed myrt allar ungu stúlkurnar sökum þess að hann í raun vildi myrða móðurina.

 

Þann 20. apríl 1973 kom Clarnell seint heim úr bænum og þegar Ed heilsaði henni innan úr svefnherbergi sínu svaraði hún reiðilega:

 

„Láttu þér ekki detta í hug að ég ætli að sitja í alla nótt og rabba við þig“, en Ed svarið stuttlega: „Nei. Góða nótt“.

 

Þegar hér var komið sögu vissi pilturinn að móðirin yrði að deyja. Seinna þegar hann var þess fullviss að hún væri steinsofnuð náði hann í hamarinn sinn og vasahnífinn og gekk að rúmi mömmunnar.

 

„Afsakið subbuskapinn, strákar“.

Miði sem Edmund Kempt skildi eftir til vina sinna í lögregunni áður en hann yfirgaf Kaliforníu.

 

Ed fylgdist með henni í nokkrar mínútur áður en hann lyfti hamrinum hátt upp og lamdi honum af öllum kröftum í gagnauga konunnar.

 

Blóð lak fyrst í stað hægt niður á lakið en þegar Ed stakk hnífnum á kaf í háls móðurinnar fór það að streyma af öllum kröftum. Að lokum skar hann höfuðið af búknum.

 

Hann setti höfuðið upp í hillu, öskraði á það í klukkustund, skaut pílum í það og stundaði á því munnmök. Að lokum skar hann tunguna úr höfðinu, svo og raddböndin.

 

„Mér fannst það vera vel við hæfi, því hún hafði öskrað svo mikið á mig gegnum tíðina“, sagði hann seinna.

 

Sonurinn ákvað að sér nægði ekki að myrða einvörðungu móðurina, heldur „þyrfti einhver vina hennar jafnframt að deyja“.

 

Hann hringdi þess vegna í bestu vinkonu móður sinnar, Sally Hallett og bauð henni næsta kvöld í teiti sem hann hygðist koma móður sinni á óvart með. Þegar vinkonan mætti klukkan rúmlega átta gekk hún beina leið að sófanum.

 

„Eigum við ekki að setjast? Ég er hundþreytt“, sagði hún áður en Ed tók hana kverkataki og lyfti henni upp með útréttum handleggjum, þangað til líkami hennar lyppaðist niður.

 

Síðan sofnaði hann við hlið líksins en svaf órólega. Þegar hann vaknaði aftur gerði hann sér grein fyrir að engin leið væri að kjafta sig út úr þessu morði.

 

Hann yfirgaf heimilið í bifreið konunnar en skildi fyrst eftir miða til kunningja sinna á Jury Room kránni: „Afsakið subbuskapinn, strákar“.

 

Hlustið á Edmund Kemper í viðtali frá árinu 1984

Morðinginn gaf sig sjálfur fram

Ed Kemper unni sér engrar hvíldar í tvo sólarhringa, heldur keyrði um, allt þar til hann var kominn til Colorado í miðríkjum Bandaríkjanna. Hann var örmagna af þreytu og á barmi taugaáfalls.

 

Aðfaranótt hins 24. apríl 1973 stoppaði Ed Kemper bílinn við símaklefa í bænum Pueblo. Hann tók upp tólið og hringdi á lögreglustöðina í Santa Cruz, þar sem félagar hans af pöbbnum unnu.

 

Lögreglumaðurinn sem svaraði hélt að Ed væri að gantast og skellti á hann. Snemma næsta morgun svaraði hins vegar lögregluþjónn að nafni Jim Conner og þegar Ed hrópaði að hann vildi tala um morðin á háskólanemunum, var hann tekinn trúanlega.

 

Ed sagði frá morðunum tíu á meðan lögreglubílarnir voru á leiðinni að sækja hann. Morðinginn róaðist smám saman eftir því sem frásögninni vatt fram.

 

„Þú hlýtur að sjá að það er eitthvað mikið að mér. Sjálfur veit ég ekki hvað það er“, sagði Ed örvæntingarfullur. Andartaki síðar stoppaði lögreglubíll við hlið símaklefans.

 

„Löggan er komin“, sagði Ed í símann. „Hann miðar byssu á mig“. Eftir handtökuna var Ed einkar samvinnuþýður við lögregluna.

 

Hann afþakkaði alla lögfræðiaðstoð og viðurkenndi öll morðin fyrir framan segulbandsupptökutæki. Ed lýsti morðunum í miklum smáatriðum og virtist vera stoltur af því hve vel hann myndi eftir öllu.

 

Hann vildi taka út sína refsingu og lýsti því yfir að „samfélagið hefði ekki gott af samvistum við sig“. Honum fannst í raun það eina rétta vera að loka sig inni í klefa þar sem hann gæti ekki skaðað neina aðra.

 

Ósk hans rættist, því hinn 14. nóvember 1973 var Ed Kemper dæmdur í áttfalt lífstíðarfangelsi. Í dag er hann 73 ára að aldri og afplánar enn dóm sinn í öryggisfangelsinu California Medical Facility í borginni Vacaville.

 

Ed Kemper fékk eigin skrifstofu þar sem hann skipulagði heimsóknir annarra fanga til geðlæknanna.

„Stóri Ed“ er fyrirmyndarfangi

Ed Kemper hefur varið tæpum 50 árum í California Medical Facility og hegðað sér óaðfinnanlega frá upphafi. Örfáum árum eftir að hann hóf afplánun árið 1973 byrjaði hann að tala inn á hljóðsnældur sem gefnar eru út fyrir blinda.

 

Þetta efni er nú orðið rösklega 5.000 klukkustundir að lengd og árið 1981 var honum meira að segja veitt viðurkenning fyrir störf sín.

 

Í öryggisfangelsinu hefur hann m.a. verið samtíða Charles Manson og raðmorðingjanum Herbert Mullin. Ed hataði hinn hömlulausa Mullin sem einnig hafði framið sín ódæði á Santa Cruz-svæðinu.

 

„Stóri Ed“ braut Mullin að lokum svo mikið niður að hann bað Kemper um leyfi til að fá að syngja og fékk frá honum jarðhnetur að launum.

 

Ed Kemper hefur ítrekað afþakkað að sækja um reynslulausn, því ef marka má lögfræðing hans, líður honum vel í fangelsinu. Þar semur honum einkar vel við bæði starfsfólkið og samfangana.

Lesið meira um Edmund Kemper

 • Margaret Cheney: Why?: The Serial Killer in America, iUniverse, 2000

 

 • Jack Rosewood: Edmund Kemper, CreateSpace, 2015

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Bue-Kindtler-Nielsen

Getty Images, Edmund Kemper Stories,© Bettmann/Getty Images,JohnBgon, Interfoto, Hermann Historica GmbH/Imageselect & Edmund Kemper Stories,© JohnBgon, Interfoto, Hermann Historica GmbH/Imageselect & Edmund Kemper Stories,

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

Lifandi Saga

Sósíaldarwinistarnir lýstu yfir stríði gegn fátækum

Lifandi Saga

BNA á barmi borgarastyrjaldar: Nasista-prestur vildi bylta lýðræðinu

NÝJASTA NÝTT

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

Nasistaveiðar meðal óvina 

Lifandi Saga

Nasistaveiðar meðal óvina 

Lifandi Saga

Nasistar leituðu arísks menningarheims í Tíbet

Lifandi Saga

Nasistar leituðu arísks menningarheims í Tíbet

Glæpir

Newton upprætti peningafölsun í Englandi

Lifandi Saga

5 ástæður þess að BNA er einungis með tvo flokka 

Lifandi Saga

Hvers vegna hættu karlar að ganga með hatt?

Lifandi Saga

Versti óvinur skógareldanna

Vinsælast

1

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

2

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

3

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

4

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

5

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

6

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

1

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

2

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

3

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

4

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

5

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

6

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Maðurinn

Göngutúr heldur heilanum heilbrigðum

Menning og saga

5 fornleifafundir sem raskað hafa sögu mannsins

Tækni

Allir vildu eiga pýramída

Maðurinn

Svo hættuleg er loftmengun fyrir lungun

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

Heilsa

Bakteríurnar þrífast vel í handklæðinu þínu

Lifandi Saga

Voru víkingarnir húðflúraðir?

Menning

Þess vegna verða konur þreyttar á (sumum) körlum

Náttúran

Í frysti frá dánarstund

Heilsa

Hinn týndi hlekkur milli krabbameins og mataræðis ef til vill fundinn

Heilsa

Vísindamenn: Miklir kostir þess að nota stigann frekar en lyftuna.

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Þegar ég skoða laufblöð trjáa tek ég eftir því hversu ólík þau eru í raun og veru. Er það tilviljun eða hefur lögun blaðsins hlutverk?

Náttúran

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is