Rétt eins og börn læra að skríða áður en þau geta farið að ganga, þurftu fyrstu fuglarnir að hlaupa áður en þeir gátu flogið. Þetta segir hópur verkfræðinga hjá Tsinghuaháskóla í Kína.
Þessi kenning stríðir gegn hugmyndum flestra steingervingafræðinga um upphaf flugsins.
Vísindamenn greina milli tveggja gerða flugs, svifflugs t.d. frá einu tré til annars og svo virks flugs þar sem fuglar hefja sig á loft með eigin vængjaafli.
Hin almennt viðtekna kenning segir að svifflugið hafi komið fyrst og fuglar með svifhæfni hafi smám saman náð að þróa virka flughæfni.
Efasemdir um kenninguna
Kínversku verkfræðingarnir hafa rannsakað aðra hugmynd. Þeir hafa athugað vandlega steingervinga 5 kg þungrar eðlu, Caudipteryx sem var uppi fyrir 125 milljónum ára.
Hún gekk á sterkum afturfótum en framlimirnir líktust vængjum þótt þeir væru allt of litlir til flugs. Engu að síður vildu verkfræðingarnir komast að því hvort vængirnir hafi farið á hreyfingu þegar eðlan hljóp og reiknuðu út hvernig titringur frá líkamanum barst til vængjanna á hlaupum.
Niðurstöðurnar sýndu að þegar Caudipteryx náði 2,5 m hraða á sekúndu tóku vængirnir að sveiflast upp og niður.
Verkfræðingarnir smíðuðu því næst hlauparóbót með sama sköpulagi og létu tækið hlaupa á hlaupabretti og þar gerðist nákvæmlega hið sama.
Þess vegna álíta þeir að forneðlur geti hafa lært virkt flug án þess að byrja á svifi. Aðferðirnar tvær gætu því hafa þróast samhliða en óháð hvor annarri.