„Chihuahua“-hundar eru trygglyndir og skapstórir en hins vegar eru hundar af tegundinni golden retriever ástríkir og ólmir í að leika sér.“
Alls konar kerlingabækur og fordómar eru á sveimi um það hversu mislyndar, árásargjarnar eða hlýðnar tilteknar hundategundir eru. Nýjum hundaeigendum er iðulegu ráðlagt að hugsa sig vel um áður en þeir taka ákvörðun um að hleypa tiltekinni tegund hunds inn á heimili sitt.
Í raun og veru skiptir tegundin langtum minna máli fyrir hegðun hundsins en áður var haldið.
Þetta sýnir nýleg rannsókn sem fólst í því að vísindamenn við háskólann í Massachusetts yfirfóru gögn um rösklega 18.000 hunda og báru þau saman við erfðafræðilegar rannsóknir.
Viltu fræðast um hunda? Þá væri ráðlegt að lesa greinina um greindustu og heimskustu hundana HÉR!
Tegundin skýrir aðeins níu hundraðshluta
Vísindamenn hafa safnað saman munnvatns- og blóðprufum frá alls 2.155 hundum og þeir kortlögðu DNA-erfðaefni þeirra með það fyrir augum að leita að tilteknum afbrigðum sem tengdust persónugerð hundanna.
Síðan báru þeir niðurstöðurnar saman við rannsóknir byggðar á spurningalistum, þar sem 18.385 ólíkir hundaeigendur svöruðu alls 100 spurningum um allt frá stærð hundsins yfir í lit hans og félagslegt atferli.
Niðurstaðan varð sú að hundategundin skýrir einungis níu prósent af atferli hundsins.
Vísindamennirnir fundu m.a. tengsl á milli tiltekins svæðis í erfðamengi hundanna annars vegar og tilhneigingu þeirra til að spangóla hins vegar.
Vísindamennirnir fundu sérstök „spangólsgen“
Vísindamennirnir fundu alls ellefu ólík afbrigði í erfðamengi hundanna sem tengjast atferli þeirra. Sem dæmi greindu þeir tilhneiginguna til að spangóla í tilteknu svæði í erfðamengi hundanna.
Svo kostulega vildi til að vísindamennirnir fundu greinilegasta samhengið milli erfðafræði og atferlis í því svæði í erfðamengi hundanna sem hjá okkur mönnunum tengist vitsmunalegri getu, en sem hjá hundum getur greinilega aukið hættuna á að þeir festi sig einhvers staðar eða lendi í sjálfheldu.