Gæsahúð kallast það þegar litlar, harðar bólur spretta upp á handleggjum, fótleggjum og stundum annars staðar á líkamanum. Heitið stafar einfaldlega af því að þetta minnir á húð gæsar sem búið er að plokka fiðrið af.
Gæsahúð myndast þegar vöðvar við hársekki dragast saman þannig að hársekkirnir reisa sig upp frá húðinni og þar með rísa hárin líka.
Þetta eru viðbrögð sem stýrt er af hinum ósjálfráða hluta taugakerfisins, rétt eins og gildir t.d. um andardrátt, blóðþrýsting og meltingu.
Aðrar reglur gilda um hinn meðvitaða hluta sem m.a. ber boð frá skilningarvitum og stýrir meðvituðum gerðum okkar.
Smásæir vöðvar reisa hárin
Hársekkirnir tengjast húðinni með hárfínum vöðvum sem dragast saman þegar okkur verður kalt. Þá fáum við gæsahúð.
1. Hárin liggja flöt
Á mönnum og öðrum spendýrum eru hárin skásett þannig að hárin eða feldurinn fellur oftast flatur að húðinni. Þetta verndar húðina og hjá sumum tegundum verður feldurinn vatnsheldur.
2. Vöðvar dragast saman
Í kulda, ótta eða árásargirni – og hjá mannfólkinu við djúpstæðar tilfinningar – draga smávöðvar, nefndir „arrector pili“ sig saman. Vöðvarnir tengja hársekk og húð.
3. Hárið rís upp
Þegar vöðvinn dregst saman togar hann í botn hársekksins. Hársekkurinn réttist upp og liggur hornrétt á húðina þannig að hárið stendur beint út í loftið. Þetta er gæsahúð.
Við fáum gæsahúð við mismunandi aðstæður, svo sem í kulda, þegar við finnum fyrir djúpstæðum tilfinningum og líka í tengslum við ótta.
Í bandarískri rannsókn báðu vísindamenn 93 þátttakendur að halda gæsahúðardagbók í fjórar vikur. Niðurstaðan sýndi 1.015 skráð gæsahúðartilvik og 60% þeirra tengdust kulda.
Einmitt í kulda gerir gæsahúð loðnum spendýrum gagn. Þegar hárin í feldinum rísa myndast volgt loftlag milli háranna og loftið berst ekki út úr feldinum eins og venjulega.
Þannig virkar gæsahúð sem prýðileg einangrun. En hárlausu mannfólkinu gagnast þessi ósjálfráðu viðbrögð ekki lengur.
Gæsahúð gagnast okkur heldur ekki lengur sem óttaviðbrögð en hjá loðnum spendýrum veldur hárrisið því að dýrið sýnist stærra og meira ógnvekjandi. Fyrirbrigðið er algengt og sést m.a. hjá hundum sem ýfast upp þegar þeir telja sér ógnað.