MessengerRNA eða mRNA gegnir þýðingarmiklu hlutverki sem boðberi frumnanna og án mRNA væru lífverur ekki til.
Störfum frumu er stjórnað inni í frumukjarnanum þar sem erfðaefnið, DNA, er til húsa. Ýmist er kveikt eða slökkt á einstökum genum, allt eftir því hvort þörf er fyrir virkni þeirra.
Virk gen senda boð út í frumuna og segja til um hvaða prótín skuli framleiða. Prótínin má kalla verkamenn frumunnar og þau annast það sem gera skal.
mRNA er boðberi frumunnar
DNA fer aldrei út úr frumukjarnanum. mRNA má hins vegar kalla sendisveina sem bera fyrirskipanir frá genunum.
Utan kjarnans bera mRNA-sameindirnar skipanirnar til ríbósómanna sem framleiða prótínin.
mRNA er boðberi frumunnar
Genin nota mRNA til að flytja uppskriftir að prótínum út í frumuna.

1. Gen skrifa mRNA
Þegar gen er virkjað aðskiljast DNA-strengirnir. Bygging þeirra er lesin og afrituð í mRNA-sameind.

2. mRNA fer úr kjarnanum
mRNA er sent út úr frumukjarnanum og berst til ríbósóms í umfryminu. Ríbósómið les uppskrift mRNA-sameindarinnar og tekur að framleiða prótínið.

3. Prótínframleiðslan
Um leið og ríbósómið les uppskriftina byggir það prótínið úr nákvæmlega réttum amínósýrum og í þeirri röð sem uppskriftin segir til um.
Ríbósómin nota mRNA sem eins konar handbók til að sjá hvernig byggja skuli prótínin. Þegar prótínið hefur verið framleitt hefur mRNA lokið hlutverki sínu og brotnar niður. Einstakir hlutar mRNA-sameindarinnar eru endurnýttir í nýtt mRNA.
mRNA kóðar fyrir Kóróna prótein
Kórónabóluefnin nota mRNA til að flytja ríbósómum vöðvafrumnanna fyrirskipanir um að byggja svonefnd broddprótín, sömu gerðar og þau sem veiran SARS-CoV-2 sem veldur Covid, notar til að komast inn í líkamsfrumur.
Broddprótín sem frumurnar framleiða eftir bólusetningu, styrkja ónæmiskerfið, enda er litið á broddprótínin sem framandi og frumur ónæmiskerfisins taka að framleiða mótefni.
Þegar þessi mótefni eru til staðar getur ónæmiskerfið brugðist hraðar við Covid-sýkingunni og barið hana niður áður en veirurnar ná að fjölga sér að ráði.