Hvað er svartur ís?
Svartur ís (glæra) virðist vera svartur því hann er gegnsær og malbik vegarins er sjáanlegt í gegn um hann.
Þetta lúmska veðurfyrirbrigði skapast þegar bráðinn ís eða snjór frýs aftur og breiðist yfir veginn sem ósýnilegt lag. Ökumenn sjá ekki ísinn og hvort grip er á veginum eður ei. Þannig geta skapast hættulegar aðstæður þar sem bílarnir skauta á veginum.
Fyrirbrigðið skapast líka eftir rigningu ef hitastig fer undir frostmark og votir vegir frjósa. Við fyrstu sýn virðist vegurinn í lagi og vel fær en í raun er gríðarhálka á veginum.
Svona verður svartur ís til
Oftast verður svartur ís til þegar bráðið vatn frá t.d. snjósköflum flýtur yfir veginn yfir daginn. Um nóttina fellur hitastigið og vatnið frýs.
Hiti yfir daginn bræðir snjó og klaka
Yfir daginn fer hitinn yfir frostmark. Það gerir það að verkum að snjór og klaki úr t.d. snjósköflum við vegkantinn bráðnar.
Vatn skolar vegsaltinu burt
Vatnið streymir yfir veginn og skolar í leiðinni burtu hugsanlegu salti á veginum. Vegurinn verður því enn hálli.
Næturfrost skapar svart lag af ís
Um kvöldið eða um nóttina fer hitastigið niður fyrir frostmark. Vatnið á veginum frýs og verður svo gegnsætt að svart malbikið á veginum sést í gegn.
Svartur ís finnst í sjónum
Svartur ís er þekktur meðal sjófarenda en hann getur verið hugsanleg ógn við skipsskrokka.
Svartur hafís er ekki ís sem hefur bráðnað og frosið aftur, heldur ís sem varð til undir miklum þrýstingi í jöklum. Við mikinn þrýsting verður ís gegnsær.
MYNDBAND: Svartur ís veldur fjöldaárekstri
Þann 1.desember árið 2013 myndaðist svart íslag á hraðbrautinni við Interstade 290 í Bandaríkjunum þegar rigningin skall á kaldan veginn og fraus á svipstundu.
Þrír vöruflutningabílar og meira en 60 bílar lentu saman á u.þ.b. 500 metra vegarkafla.
Óhappið varð skömmu eftir þakkargjörðarhátíðina og því mikil umferð á vegum.
Ísinn myndaðist þar sem keyrt var niður hæð á veginum og ökumenn tóku því ekki eftir umferðaröngþveitinu fyrr en þeir voru komnir yfir hæðina.
Þá var orðið of seint að bremsa og engin leið að forðast fjöldaárekstur.