Stjörnuþokur eru stórar þyrpingar af stjörnum, sem finnast í tveimur meginflokkum: þyrilþokur og sporvöluþokur. Það var stjarnfræðingur Edwin Hubble sem uppgötvaði þær á þriðja áratug liðinnar aldar og birti yfirlit yfir þær með nokkrum undirflokkum.
Enn þann dag í dag er stuðst við þessa greiningu hans. Það nýjasta sem stjarnfræðilegar rannsóknir hafa sýnt, er að ef til vill eru til langtum fleiri stjörnuþokur en menn hafa talið til þessa. Þetta má þakka að hluta til betri og þróaðri sjónaukum, eins og t.d. geimsjónaukanum sem nefndur er eftir Hubble.
Margt bendir til að drýgstur hluti stjörnuþoka í alheimi séu dvergþokur.
Sem dæmi eru um 30 meðlimir í grenndarhóp okkar, en af þeim eru aðeins þrjár „venjulegar“ þokur, en hinar eru dvergar. Það getur reynst afar örðugt að greina kerfisbundið fjarlægar dvergþokur, en vitað er að það er til aragrúi af þeim.
Ráðfæri maður sig við hefðbundnar kennslubækur í stjarnfræði er fjöldi stjörnuþoka einatt sagður vera um 100 milljarðar. Kannski er raunhæfara að tífalda þá tölu.
Hér er þó aðeins horft til hins sýnlega alheims. Samkvæmt heimsfræðinni er alheimur takmarkalaus, og því ætti fjöldi stjörnuþoka að vera ótakmarkaður.