Við uppgröft á kirkjugörðum frá miðöldum og greiningu á beinaleifum úr þeim telja sérfræðingar nú að meðalaldur í stórum hlutum Evrópu hafi verið um 30 – 35 ár.
Í V-Evrópu á okkar dögum er talan um 79 ár fyrir menn og 84 fyrir konur. Á Íslandi er meðalævilengd karla rúm 80 ár og kvenna rúm 84 ár.
Þessi lági meðalaldur jafngildir samt ekki því að fólk á miðöldum hafi aldrast hraðar en nú er raunin.
Hins vegar var þeim mun hættara við að deyja úr sjúkdómum heldur en nú á dögum og einkum var það mikill ungbarnadauði sem dró meðalaldur manna niður.
Ástralski læknirinn Henry O. Lancaster birti árið 1990 rannsókn á lífsaldri meðal aðalsins á miðöldum í Englandi.
Með því að draga alla sem létust undir 21 árs aldri frá í útreikningum sínum komst hann að þeirri niðurstöðu að meðalaldur annarra hafi verið um 65 ár.
LESTU EINNIG
Rannsóknir á almúganum á 15. öld í Englandi sýna að þeir sem náðu 20 ára aldri máttu búast við að geta lifað í 21 til 28 ár í viðbót. Rit frá miðöldum benda til að manneskjur sem voru yfir 50 voru taldar aldraðar.
Þær manneskjur sem voru orðnar of gamlar til að vinna nutu virðingar í samfélaginu og stuðnings fjölskyldunnar, kirkju eða einhvers aðalsmanns.
Með auknu hreinlæti og betra mataræði var mögulegt að verða mun eldri en meðaltalið, einkum fyrir þá sem voru í efstu stéttum samfélagsins. Ítalskur herstjóri Feneyja, Enrico Dandolo var t.d. 98 ára þegar hann dó árið 1205.