Í langflestum dauðsföllum sem stafa af dýrum gegna þau aðeins óbeinu hlutverki.
Sem dæmi má geta þess að malaríumýflugan er ábyrg fyrir dauða um það bil 2,5 milljóna manna á ári, sökum þess að sjúkdómurinn smitast með henni.
Ef við hins vegar einblínum á dýr sem eru sjálf hættuleg er raunin allt önnur. Mörg dýr sem talin eru vera hættuleg mönnum hafa í raun afskaplega fá dauðsföll á samviskunni.
Dæmi um þetta eru hákarlar, sem verða um 30 manns að fjörtjóni á ári hverju á meðan tígrisdýr og önnur stór kattardýr deyða mörg hundruð manns.
Hins vegar verma húsdýr annað sæti listans og þar eiga einkum hestar og hundar hlut að máli. Hestar hafa þann leiða ávana að sparka í fólk og traðka á því, þegar þeir verða æstir, og þetta atferli dregur fólk ósjaldan til dauða. Í Bandaríkjunum hafa hestar fleiri dauðsföll á samviskunni en öll önnur dýr samanlagt.
Í langefsta sætinu eru þó slöngur.
Mottusnákurinn (Echis carinatus) sem lifir víða í Miðausturlöndum og annars staðar í Asíu er talinn draga um 10.000 manns til dauða ár hvert.