Fyrstu dýrin fóru út í geiminn 1947, þegar bandarískir vísindamenn settu bananaflugur um borð í þýska V2-eldflaug sem Bandaríkjamönnum áskotnaðist í stríðslok.
Eldflaugin náði 109 km hæð og hún komst þar með upp fyrir hin alþjóðlega viðurkenndu mörk, svonefnda Kármánlínu, milli gufuhvolfs og geims í 100 km hæð.
Síðar fylgdu m.a. geitungar, bessadýr, mýs, kettir, hundar, skjaldbökur, simpansar, kanínur, froskar, sniglar og hamstrar – og svo auðvitað menn.
Geimdýr gera vísindamenn snjallari
Vísindamenn hafa iðulega sent dýr út í geiminn til að rannsaka hvaða áhrif þetta einstaka umhverfi hafi á líkamann.
T.d. leituðu menn svara við því hvaða áhrif langtímaþyngdarleysi hefði á bein og vöðva og hvaða áhrif geimgeislun hafi á frumur til lengri tíma litið.
Niðurstöður slíkra dýratilrauna hafa valdið breytingum á geimskipum og geimbúningum. Á þann hátt hafa dýratilraunirnar átt þátt í að gera geimferðir manna öruggari.
Dýr ruddu braut geimfaranna
Dýr hafa farið á braut um jörðu og lent í geislun til að betur yrði hægt að tryggja öryggi manna.
Bananaflugur fyrstar
Árið 1947 skutu Bandaríkjamenn upp bananaflugum með þýskri V2-eldflaug. Vísindamennirnir rannsökuðu flugurnar til að greina áhrif geislunar.
Skjaldbökur til tunglsins
1968, ári áður en menn fóru fyrst til tunglsins, sendu Sovétmenn tvær sléttuskjaldbökur í hringferð um tunglið. Báðar drápust þær við lendinguna í Kasakhstan.
Kakkalakkar í kynlífi
Árið 2007 fékk kakkalakkakerlan Nadezhda frjóvgun í rússneska geimhylkinu Foton-M3. Eftir komuna til jarðar klöktust egg hennar án vandræða
Lífinu var fórnað fyrir vísindin
Mörg þeirra dýra sem látin voru þjóna mannkyninu á þennan hátt týndu lífi í tengslum við geimferðirnar.
Frægasta dýrið, tíkin Laika fórst úr ofhitnun eftir að kælikerfið í Sputnik 2 bilaði.
Og fyrsti apinn í geimnum, Albert II, lét lífið í lendingu vegna þess að fallhlífin opnaðist ekki.
Aftur á móti lifðu allir hringormarnir sem í tilraunaskyni voru um borð í geimferjunni Columbiu þegar hún tættist í sundur eftir að hitaskjöldur bilaði í 60 km hæð 2003 og öll sjö manna áhöfnin fórst.