Alheimurinn

Heimsókn frá geimnum eða ryk á linsunni

Allt frá því að undarlegir málmhlutir féllu niður við bæinn Roswell í Nýju Mexíkó hafa komið fram ótal frásagnir um FFH, einkum í BNA. Vísindamenn hafna ekki því að geimverur fyrirfinnist en telja að trúlegri skýringar sé að finna. En hvað ef við höfum í raun fengið heimsókn utan úr geimnum?

BIRT: 23/06/2022

Þann 14. nóvember 2004 tekur Boeing orrustuflugvél á loft frá flugmóðurskipinu USS Nimitz sem er statt úti á Kyrrahafi tæplega 360 km suðvestur undan San Diego í Kaliforníu.

 

Um borð situr David Fravor.

 

Með sína 18 ára reynslu í flugstjórnarklefanum fyrir bandaríska flotann hefur þessi reyndi orrustuflugmaður séð eitt og annað á himni.

 

En eftir fáeinar mínútur kemur David Fravor auga á nokkuð sem gengur þvert gegn náttúrulögmálunum.

 

Í nokkrar vikur hefur annað amerískt flugmóðurskip, USS Princeton, séð röð af óskýranlegum fyrirbærum fljúga um á nærliggjandi svæðum. Nú vilja yfirvöld að David Fravor kanni málið nánar.

 

Orrustuflugvélin þeytist í gegnum heiðan himininn þegar hann kemur skyndilega auga á eitt af þeim fyrirbærum sem áhöfnin um borð í USS Princeton hafði furðað sig á.

 

Út úr stjórnklefanum sér David Fravor hvítt fyrirbæri með slétt yfirborð fljúga um á himninum á um 220 km/klst. hraða. Fyrirbæri þetta er um 14 metrar á lengd og lagað eins og sykurhúðað hlaup. Það er ekki með neina vængi, sendir engan hita frá hreyflum né líkist nokkru sem hann hefur áður séð.

Það eina sem ég get sagt er að þetta var ekki af þessum heimi.

David Fravor orrustuflugmaður, U.S.Navy

Skyndilega þeytist þessi furðuhlutur niður að sjávarborði og leggur að baki tæpa tvo kílómetra á fáeinum sekúndum – nokkuð sem ekki er mögulegt að gera með núverandi flugtækni manna.

 

Í gegnum árin hafa komið fram ótal frásagnir af dularfullum fljúgandi hlutum. Oft má skýra reynslu manna með náttúrulegum fyrirbærum en þetta sem að bandaríski orrustuflugmaðurinn verður vitni að þennan dag – og á öðrum tímum undanfarna tvo áratugi – er ennþá fullkomin ráðgáta.

 

Sjálfur er David Fravor ekki í neinum vafa um hvað það var sem hann sá.

 

Myndskeiðið fræga frá árinu 2004

Myndbandið sem sýnir að því er virðist FFH árið 2004 og er kallað „FLIR1“ eftir nafni innrauðu tækninnar sem var notuð.

„Það eina sem ég get sagt er að ég trúi ekki að þetta sé af þessum heimi. Ég er ekki geðveikur og ég hafði ekki drukkið. Eftir 18 ár sem flugmaður orrustuþotu hef ég séð nánast öll hugsanleg fyrirbæri í loftinu. En þetta var eitthvað allt annað,“ sagði hann mörgum árum síðar um atvikið.

 

Pentagon deilir FFH-reynslu manna

Þessari makalausu upptöku frá árinu 2004 var lekið í tímaritið New York Times árið 2017. Og árið 2020 staðfesti bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon, að myndskeiðið væri ekta.

 

Jafnframt opinberuðu yfirvöld tvö ný myndskeið sem voru tekin upp árið 2015. Þau sýndu svipuð farartæki sem bandarískur orrustuflugmaður hafði náð að fanga með innrauðri myndavél.

 

Rétt eins og sykurhúðaða farartækið frá 2004 virtust þessi fyrirbæri einnig stríða gegn lögmálum eðlisfræðinnar. Þau gátu skotist í burtu á áður óséðum hraða og snúist í lofti án þess að glata stefnu sinni.

 

Myndskeiðin frá árinu 2015

Í þessu myndskeiði snýst hluturinn skyndilega á miklum hraða
Á þessu myndskeiði eykst hraðinn alveg gríðarlega á mjög skömmum tíma.

Fljúgandi furðuhlutir, stytt í FFH, hafa heltekið huga manna um áratuga skeið. Og nú, þegar Pentagon opinberar myndskeið af fyrirbærunum, markar það nýtt tímaskeið.

 

Eftir áratuga langt leyndarmakk mun bandaríski herinn nú deila þekkingu sinni um fljúgandi fyrirbæri þannig að almenningur fái að skoða myndböndin.

 

Þann 25. júní 2021 lagði Pentagon fram skýrslu um fljúgandi furðuhluti – eða „Unidentified Aerial Phenomena“ (UAP) eins og þau eru nefnd í skýrslunni – fyrir bandarísku öldungadeildina.

 

Þú getur lesið skýrsluna hér.

 

Í skýrslunni er að finna 144 óskýranlega fljúgandi hluti sem hafa sést í BNA á síðustu 20 árum, einkum af flugmönnum orrustuflugvéla.

 

Ekkert af þessum atvikum sýnir greinileg merki þess að þarna séu á ferðinni einhverjar geimverur. Hins vegar hafnar skýrslan því ekki heldur að sú gæti verið raunin.

 

Pentagon nefnir m.a. náttúruleg fyrirbæri í lofthjúpnum, leynileg þróunarverk Bandaríkjamanna og óþekkt útlensk vopn sem mögulegar skýringar.

 

„Nokkrir þessara fljúgandi furðuhluta virðast búa yfir óþekktri og háþróaðri tækni“, segir í skýrslunni sem samtímis vísar til þess að skortur á gögnum geri mönnum ómögulegt að skera úr um þetta álitamál.

 

Nokkrar athuganir hafa þó að geyma svo áhugaverð gögn að hópur sérfræðinga var kallaður saman úr ólíkum fögum til að greina atvikin og ákvarða hvort reiða mætti sig á þessi gögn og jafnframt hvað væri hægt að segja um viðkomandi atvik.

 

Þess er að vænta að lengri skýrsla um þessi dularfullu loftfyrirbæri verði opinberuð síðar.

LESTU EINNIG

1947 gerði FFH að hvers manns eign

Segja má að milljónir manna hafi leitast við að öðlast skilning á því hvað sé í gangi eða allt frá því þegar FFH festi sig í fyrsta sinn kyrfilega í vitund almennings skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina.

 

Þann 24. júní 1947 flaug athafnamaðurinn Kenneth Arnold yfir fjöllin Mount Rainer og Mount Adams í ríkinu Washington um borð í einkaflugvél sinni. Arnold var reyndur flugmaður með þúsundir af flugtímum að baki, m.a. í flughernum þar sem hann tók þátt í bardögum á Kyrrahafinu.

 

Þegar flugvélin flaug í boga inn yfir fjöllin skall öflugt ljósblik á glansandi yfirborði vélarinnar.

 

Kenneth Arnold leit áhyggjufullur í kringum sig, enda óttaðist hann að vera kominn of nærri annarri flugvél. Skömmu síðar kom annað ljósblik og nú kom hann auga á fylkingu sem samanstóð af níu silfurglansandi hlutum og var hver þeirra um 30 metrar í þvermál. Fylkingin rann milli bjarganna eins og ljóskeðja.

Upplifun Kenneth Arnolds birtist í fjölmörgum dagblöðum vestanhafs

Farartækin voru disklaga og engu líkara var en að þau fleyttu kerlingar í gegnum loftið.

 

Flugmaðurinn fylgdist með þessari undarlegu sjón í þrjár mínútur meðan farartækin þeyttust meðfram fjallgarðinum.

 

Þegar Kenneth Arnold greindi síðar fjölmiðlum frá reynslu sinni líkti hann farartækjunum við „fljúgandi diska“ – nafn sem hefur fests við fljúgandi furðuhluti allt fram á þennan dag.

 

Frásögn þessi opnaði flóðgáttir og brátt komu sjónarvottar fram hundruðum saman og greindu frá svipaðri reynslu.

 

Bandaríski loftherinn hafnaði því að þarna hafi verið á ferðinni gestir utan úr geim. Þetta hafi verið B-47 sprengjuflugvélar að taka eldsneyti úr KC-97 eldsneytisflugvél, samkvæmt útskýringum þeirra.

Nokkrum vikum eftir atvikið í Wasington birtir dagblaðið Tulsa Daily World mynd sem sýnir átta óþekkta fljúgandi hluti yfir borginni Tulsa í Oklahoma-fylki.

„FFH-leifar“ dúkka upp í Roswell

Fáeinum vikum síðar voru bandarísk yfirvöld komin með nýjan vanda í fangið, þegar frægasta FFH-athugun sögunnar átti sér stað í bænum Roswell í Nýju Mexíkó.

 

Þar sáu margir sjónarvottar undarleg lýsandi fyrirbæri þeytast yfir himininn þann 2. júlí 1947. Nokkrum dögum síðar fann bóndinn William Brazel nokkuð magn af skældum málmhlutum á ökrum sínum í útjaðri Roswell.

 

Málmurinn var þunnur eins og álpappír en svo sterkur að ekki var hægt að brjóta hann saman. Á sumum hlutanna virtist mega greina eitthvað sem líktist skrift. Daginn eftir hélt William Brazel inn í Roswell og greindi lögreglustjóranum frá fundi sínum.

Roger Maxwell Ramey hershöfðingi hjá bandaríska sjóhernum sýnir „FFH leifar“ frá Roswell.

Brátt breiddist sagan um þennan hrapaða FFH eins og eldur um sinu í fjölmiðlum. Og landareign William Brazel var strax yfirfull af forvitnum áhorfendum.

 

Þá var bandaríski herinn búinn að girða svæðið af og rannsaka og fjarlægja málmbútana úr þessu dularfulla flaki.

 

Opinber skýring yfirvalda var sú að efni þetta væri leifar af veðurloftbelg hersins sem hefði hrapað niður.

 

Roswell-atvikið leiddi af sér ótal samsæriskenningar – meðal annars að bandaríski herinn varðveitti geimskip og geimverur á herstöðinni Area 51.

 

Í raun var hvorki um að ræða hrapaða FFH utan úr geimnum eða veðurloftbelg.

 

Árið 1994 birti bandaríski herinn tvær skýrslur, þar sem staðhæft er að þarna hafi verið um að ræða vöktunarloftbelg sem átti að fylgjast með kjarnorkusprengingum frá leynilegu verkefni í kaldastríðinu, svonefndu „Project Mogul“.

 

Margir trúa enn á tilvist geimvera

Eftir atburðinn í Roswell greip um sig geimverumóðursýki í BNA og trúin á heimsóknir utan úr geim hefur aldrei sleppt taki sínu af almenningi.

 

Rannsókn frá árinu 2018 sem var gerð við bandaríska háskólann Chapman, sýnir að tæplega helmingur íbúa Bandaríkjanna er sannfærður um að geimverur hafi þegar heimsótt jörðina – ýmist fyrir löngu síðan eða nýverið.

 

Þetta hlutfall hefur farið stækkandi síðari ár og það sama á við um fjölda af frásögnum um FFH.

 

Árið 2020 var fjöldi slíkra tilkynninga í New York City einni saman kominn yfir 300 sem er mesti fjöldi nokkru sinni.

 

Þrátt fyrir að flestar reynslusögur af FFH séu komnar frá BNA finnast ótal dæmi um slíka reynslu manna víðs vegar í heiminum.

 

Þúsundir tilkynninga rannsakaðar

Þrátt fyrir þessa fjölmörgu sjónarvotta skortir enn beinharðar sannanir fyrir því að við höfum í raun fengið heimsókn utan úr geim – og það þrátt fyrir að tækifærin til að sjá og skrá FFH hafi aldrei verið betri.

 

Frá snæviþöktum geimsjónaukum á Suðurskautslandinu til ALMA-sjónaukans í Atacama eyðimörkinni í Chile hafa stjarnfræðingar núna stöðugt gætur á geimnum.

 

Engu að síður hefur ekki tekist að fanga FFH í linsum sjónaukanna.

LESTU EINNIG

En hvernig stemmir þetta við þær fjölmörgu reynslusögur um óskýranleg fljúgandi fyrirbæri?

 

Bandaríski flugherinn reyndi að svara þessari spurningu þegar árið 1952 þegar þeir birtu „Project Blue Book“.

 

Þetta sérkennilega verkefni hafði það að markmiði að rannsaka allar reynslusögur um FFH og þegar því var lokið árið 1969 hafði nefndin farið í gegnum 12.000 slíkar.

 

Niðurstaðan var einhlít: Mestan hluta þeirra mátti eigna stjarnfræðilegum fyrirbærum eins og ljósi sem endurvarpast frá gervihnöttum, stjörnum, loftsteinum og plánetum (sem endurvarpa sólarljósinu aftur til jarðar).

 

Einungis 701 af slíkum sögum (tæplega 6%) var ekki hægt að útskýra.

Bandaríski kjarneðlisfræðingurinn Edwar Condon fór fyrir svonefndri Condon-nefnd sem batt enda á FFH-verkefni flughersins, „Project Blue Book“, árið 1969.  Stuttu eftir að skýrslan kom út birti tímaritið Look minnisblað frá Edward Condon, þar sem lesa mátti að nefndin átti vísvitandi að komast að neikvæðum niðurstöðum.

Núna hefur fjöldi gervihnatta á braut um jörðu vaxið í um 6.900 stykki (af þeim má flokka 2.900 sem geimrusl) sem á kannski sinn þátt í að útskýra sífellt fleiri frásagnir um FFH síðustu áratugi.

 

Í öllu falli hafa komið fram meira en 100 falskar frásagnir um fljúgandi furðuhluti á síðustu árum en á þeim tíma hefur Space X fyrirtæki Elons Musk sent 1.600 Starlink-gervihnetti á sporbraut um jörðu.

 

Missýning skapar FFH

Stjörnur og plánetur hreyfast ekki nægjanlega hratt til að mannsaugað geti greint það. Engu að síður orsaka himintunglin oft falskar frásagnir um FFH. Þetta stafar af því að stjörnur og einkum plánetur eins og Venus sem er ljóssterkasta plánetan í sólkerfi okkar, blekkja mannsaugað.

 

Stari maður nógu lengi á lýsandi punkt á svörtum bakgrunni mun koma að því að ljósgjafinn virðist hreyfast í hringi eða með litlum rykkjum.

 

Þessi blekking nefnist „autokinetic effect“.

 

Þegar maður starir lengi á fastan punkt þreytast augnvöðvar sem endar með því að augað hreyfist lítillega. Þar sem allt annað er svart hefur augað ekki aðra sjónræna viðmiðunarpunkta til að festa sjónina á, þá skapar augnhreyfingin þá sjónhverfingu að það sé fyrirbærið – í þessu tilviki stjarna eða pláneta – sem hreyfist.

Færðu þig alveg að skjánum og horfðu á hvíta punktinn í 30 sekúndur. Geturðu séð hann hreyfast?

Fjarplánetur auka líkur á lífi

En hvað með þau 5-10 prósent sem eftir standa af slíkum reynslusögum og ekki er hægt að útskýra sem sjónhverfingu eða villuráfandi loftstein – eins og myndskeiðin frá Pentagon árin 2004 og 2015?

 

Slíkar reynslusögur hyggst bandaríska varnarmálaráðuneytið nú fara í saumana á með nýstofnaðri nefnd sem nefnist Unidentified Aerial Phenomena (UAP) Task Force (UAPTF).


„Verkefni nefndarinnar er að finna, greina og flokka UAP sem kunna að stofna öryggi Bandaríkjanna í hættu,“ ritaði varnarmálaráðuneyti BNA þegar tilkynnt var um stofnun nefndarinnar í ágúst 2020.

 

FFH þarf ekki nauðsynlega að útskýra með framandi vitsmunalífi, eins og gefur að skilja. Þetta kunna að vera njósnadrónar eða vopn með óþekktri tækni framleidd í Kína, Rússlandi eða Norður-Kóreu, til dæmis hönnuð til að njósna um andstæðingana eða jafnvel við undirbúning árásar.

 

LESTU EINNIG

Það er ekki svo að vísindamenn telji að okkar pláneta sé sú eina sem hýsir líf.

 

Þvert á móti halda flestir stjarnfræðingar og stjarneðlisfræðingar því hiklaust fram að það hljóti að finnast aðrar lifandi verur meðal stjarnanna.

 

Fyrsta fjarplánetan sem líkist jörðu uppgötvaðist árið 1995. Núna vitum við um meira en 4.000 fjarplánetur í öðrum sólkerfum – fjöldi sem fjórfaldast á hverju ári.

 

Sumar af þessum plánetum eru taldar vera byggilegar, enda hafa þær nokkurn veginn sama massa og jörðin og eru í heppilegri fjarlægð frá stjörnum sínum, þannig að mögulega kann vatn að fljóta á yfirborði þeirra.

TRAPPIST-1 d er ein af fjarplánetum sem vísindamenn telja að geti hýst líf.

Vísindamenn hafa reiknað út að það gætu verið fleiri en 300 milljón byggilegir heimar í stjörnuþoku okkar einni saman.

 

Nálægasta fjarplánetan er í minna en 20 ljósára fjarlægð og miðað við það að heimurinn er ægistór, þá má segja að þetta sé eiginlega í kosmískum bakgarði okkar.

 

Leitin að rjúkandi byssu

Árið 1950 kom ítalski eðlisfræðingurinn Enrico Fermi með einfalda en stríðnislega spurningu: „Hvar eru allir hinir?“

 

Stærð alheims og óendanlegur fjöldi pláneta og stjarna í stjörnuþokunum felur í sér að líkurnar á tilvist annarra vitsmunavera eru miklar. Því liggur við að spyrja af hverju við höfum ekki ennþá náð sambandi við slíkar geimverur.

 

Þessi þversögn er núna þekkt sem þversögn Fermis og í grófum dráttum má svara henni á tvo vegu:

 

Annað hvort hafa aðrar siðmenningar ekki samband við okkur af ótta við að upplýsa staðsetningu sína, því sólkerfi okkar liggur í eyðilegu horni stjörnuþokunnar eða af því að þær hafa langtum háþróaðri tækni en útvarpsbylgjur og að við búum ekki yfir þeirri tækni til að fanga boð frá þeim.

 

Eins kann að vera að lífið á jörðu sé algerlega einstakt.

 

Hvað varðar áhugamenn um FFH þá ríkir enginn vafi í þeirra huga: Geimverur eru til og þær hafa heimsótt jörðina ótal sinnum – og munu halda því áfram.

 

Eftir að Pentagon birti nýju myndskeiðin hafa áhangendur fengið glænýja möguleika til að finna rjúkandi byssu sem myndi í eitt skipti fyrir öll skera úr um það hvort við séum ein í alheimi.

 

Það er gott að hafa orð hins fræga stjarneðlisfræðings Carls Sagan í huga þegar farið er í gegnum sönnunargögnin: „Það borgar sig að hafa opinn huga en ekki svo opinn að heili þinn detti út“.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: AF ANDREAS EBBESEN JENSEN

Shutterstock,© The Chicago Sun,© Enlo Gilmore,© Courtesy, Fort Worth Star-Telegram Photograph Collection, Special Collections, The University of Texas at Arlington Library, Arlington, Texas,© Carl Iwasaki/The LIFE Images Collection/Getty,© NASA/JPL-Caltech,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Fjöldi daglegra salernisheimsókna getur haft afleiðingar fyrir heilsuna

Maðurinn

Genagalli gerir albínóa hvíta

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

Náttúran

Fræðimenn rýna í innsta eðli risaeðlanna 

Menning

Saga kaffisins: Hinir syfjuðu loksins bænheyrðir

Lifandi Saga

Hervegir tengdu keisaradæmið saman 

Lifandi Saga

Barsmíðar og sektir Rómverja sköpuðu ósigrandi hersveitir

Lifandi Saga

Leynivopn Rómverja: Virkið var flutt meðferðis

Alheimurinn

Hvað verður um gaspláneturnar?

Læknisfræði

Hver var fyrsti kvensjúkdómalæknirinn?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is