Hefðinni samkvæmt á nútíma jólasveinninn að halda til á Grænlandi, Norðurpólnum eða einhvers staðar í norðanverðu Finnlandi. Eða þá jafnvel Íslandi, þar sem við eigum ekki bara einn jólasvein heldur 13.
En ef við viljum í raun og veru komast að því hver var fyrirmyndin að nútíma jólasveininum, þá þurfum við að leita langt sunnar á hnettinum.
Hinn gjafmildi heilagi Nikulás
Sennilega var fyrsta fyrirmyndin að jólasveininum biskupinn heilagur Nikulás sem lifði í bænum Mýra á 4. öld, þar sem nú er Tyrkland.
Nikulás öðlaðist sess í kirkjusögunni fyrir þær sakir að hann var einstaklega gjafmildur og gaf gjafir sínar helst án þess að nokkur yrði þess var.
Sem dæmi má nefna að hann á að hafa sett smápeninga í skó fátæklinga að nóttu til og þaðan stafar sá siður að setja skó út í glugga, í von um að finna í þeim gjafir frá jólasveininum.
Jólasveinninn kemur frá Ameríku
Heilagur Nikulás skipaði afar mikilvægan sess í kaþólsku kirkjunni en þar sem hann var jafnframt verndardýrlingur sæfarenda viðhélst virðingin fyrir nafni hans einnig í Hollandi, þar sem reyndar ríkti mótmælendatrú en þar gengur hann undir heitinu „Sinterklaas“.
Hollendingar sem fluttu vestur um haf tóku hefðina með sér til Bandaríkjanna á 19. öld og þar varð hann að þeim Santa Claus sem við þekkjum svo vel í dag.
Jólasveinninn var fíngerður og grannur
Seinna meir opnuðu fornleifafræðingar gröf heilags Nikulásar í ítalska bænum Bari og í ljós kom að jólasveinninn sögufrægi var fíngerður, örgrannur maður, ekki nema 150 cm á hæð.
Þrátt fyrir að upprunalegi dýrlingurinn hafi ekki líkst kröftuglega byggðum jólasveininum í dag, þá skipar hann enn mjög mikilvægan sess í löndum kaþólikka þar sem dánardags hans er minnst með miklum veisluhöldum hinn 6. desember ár hvert.
Hvað heitir jólasveinninn?
Það er frekar mismunandi eftir löndum hvaðan jólasveinninn kemur. Og heiti jólasveinsins er einnig mjög mismunandi eftir löndum. Hann heitir t.d.:
- Santa Claus í Bandaríkjunum
- Father Christmas í Englandi
- Weihnachtsmann í Þýskalandi
- Sinterklaas í Hollandi
- Julenissen í Noregi
- Jultomten í Svíþjóð
- Joulupukki í Finnlandi
- Julemanden í Danmörku
- Babbo Natale á Ítalíu