Það tekur náttúruna milljónir ára að mynda olíu. Elsta olían fannst í vesturhluta Ástralíu og hún er 3,2 milljarða ára.
Til að olía myndist þarf lífrænt efni, oftast dauðir þörungar eða bakteríur, að verða fyrir mun meiri þrýstingi og hærra hitastigi en við yfirborð jarðar.
Iðulega gerist þetta á 1-5 km dýpi þar sem hitinn er 40-90 gráður. Sé hitinn enn hærri myndast jarðgas.
Réttar aðstæður skapast þegar lífræna efnið þrýstist smám saman neðar þegar ný og ný setlög myndast ofan á því, t.d. úr leir, sandi eða möl og þetta tekur langan tíma.
Við mjög sérstakar aðstæður getur atburðarásin þó verið miklu hraðari eins og t.d. eftir að eldfjallið Uzon á austurhluta Kamtschatkaskaga sprakk. Þar hafa jarðfræðingar nú fundið olíu sem hefur myndast á aðeins 50 árum. Ein skýringanna er sú að rétt undir yfirborðinu er hitinn um 90 gráður vegna þess hve mikið er af heitum uppsprettum.
Í rannsóknastofu er unnt að mynda olíu á enn skemmri tíma. Það hafa tilraunir með svonefnda HTL-tækni sýnt.
Þrýstingur og hiti breytir mat í olíu
HTL-tæknin getur á fáeinum mínútum skapað eldsneyti sem annars væri margar milljónir ára að myndast.
1. Úrgangur hitaður
Blautt sorp, t.d. matarafgangar eða holræsasorp er hitað upp í 350 gráður við 250-faldan loftþrýsting við sjávarmál í fáeinar mínútur. Vatn, gas og þurrefni hreinsuð úr.
2. Vetni hreinsar olíu
Leðjan meðhöndluð með vetni sem myndar efnasambönd með umframsúrefni, köfnunarefni og brennisteini og þau sambönd hreinsuð úr. Útkoman verður hráolía, nánast eins og í náttúrunni.
3. Hiti flokkar eldsneyti
Olían er hituð og mismundandi eldsneyti losnar við mismunandi hitastig. Bensín losnar við 65 gráður, þotueldsneyti við 200 gráður og dísil- og vélaolía við 290 gráður.
HTL (HydroThermal Liquefaction) byggist á því að hita úrgang, t.d. úr holræsum, undir miklum þrýstingi í fáeinar mínútur.
Við þetta brotna lífrænar sameindakeðjur niður í minni búta sem síðan eru meðhöndlaðir m.a. með vetni og vatni og útkoman verður leðja, ekki ósvipuð olíu. Leðjuna má svo hreinsa í bæði flugvélabensín og venjulegt bensín.
Vegna þess að HTL-aðferðin nýtir úrgangsefni verður þetta eldsneyti kolefnishlutlaust.