Sjóræningjar hafa verið plága á höfunum í árþúsundir. Til forna þurftu Rómverjar margsinnis að berjast við ótal sjóræningjaflota sem herjuðu á Miðjarðarhafi. Einkum þóttu Illyríar frá núverandi Balkanlöndum vera sérlega skæðir og um 200 f.Kr. réðust Rómverjar mörgum sinnum á Illyríu til að stöðva sjóránin.
Þetta dugði þó ekki til og árið 75 f.Kr var sjálfur Sesar tekinn í gíslingu af flokki sjóræningja. Hann var látinn laus gegn háu lausnargjaldi. Fáeinum árum síðar veitti öldungaráðið Pompeiusi hershöfðingja ótakmarkað leyfi til að ráða niðurlögum þeirra – og það tókst í stórum dráttum.
Breski sjóherinn elti uppi og drap hinn alræmda sjóræningjaforingja Blackbeard í nóvember 1718.
Bretar fengu nóg af sjóræningjum
Gullöld sjóræningja átti sér þó ekki stað í Miðjarðarhafi helur hinum megin á hnettinum. Fram eftir miðri sautjándu öld réðu sjóræningjar ríkjum í Karabíska hafinu, þar sem þeir réðust á skip frá nýlendunum hlaðin gulli og gimsteinum.
Margir sjóræningjar nutu stuðnings evrópskra stórvelda sem nýttu sér sjóræningjana til að spilla verslunarleiðum andstæðinga. En í upphafi 18. aldar var Bretum nóg boðið af skaðræði þeirra og The Royal Navy var sendur til að ráða niðurlögum þeirra.
Sjórán eru stunduð enn þann dag í dag víðs vegar í heiminum – t.d. í Rauðahafi – þar sem sjóræningjar nýta sér m.a. farsíma, hraðskreiða vélbáta og vélbyssur. Þeir mæta oft mikilli mótspyrnu – sem dæmi tókst dönsku freigátunni Esbern Snare að hrinda árás sjóræningja í nóvember 2021 undan ströndum Nígeríu.