Á hátindi stórveldistímans var breska heimsveldið stærsta ríki sögunnar. Á árunum í kringum fyrri heimsstyrjöldina náði þetta risavaxna nýlenduveldi yfir um fjórðung af öllu landi á jörðu – frá Ástralíu til Kanada og frá Jamaica til Indlands.
Fyrsta skrefið að þessu heimsveldi var tekið þegar á 12. öld þegar Englendingar lögðu undir sig Írland. Vaxtarverkir Breta jukust þó einkum á 16. öld og á næstu öldum þegar landkönnuðir, verslunarmenn og nýlendubúar af bresku eyjunum héldu út til allra afkima heims.
Myndskeið: Ris og fall Breska heimsveldisins
Á stórveldistíma sínum átti Stóra Bretland nýlendur á öllum meginlöndum heims.
Stríðið veikti Breta
Á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina tók heimsveldið þó að riða til falls. Á öldunum áður höfðu sumar nýlendurnar – þ.á m. Kanada og Ástralía – náð sjálfstæði undan breskum yfirráðum og á 20. öld tóku þjóðernissinnar og aðskilnaðarsinnar að gera sig gildandi í mörgum öðrum nýlendum.
Heimsstyrjöldin hafði jafnframt dregið svo mikinn kraft úr Stóra-Bretlandi að landið bjó ekki lengur yfir þeim auðlindum sem til þurfti til að halda heimsveldinu saman.
Undir lok 7. áratugar liðinnar aldar höfðu nánast allar nýlendur slitið sig frá Stóra-Bretlandi. Í dag eru leifarnar af breska heimsveldinu nokkrar smáeyjar víðsvegar um hnöttinn, m.a. Bermuda og Falklandseyjar.