Manneskjan hefur líklega ævinlega verið afar herská vera en elstu fornleifamenjar um stór og skipuleg átök eru um 13.500 ára gömul.
Á sjöunda áratugnum fundu fornleifafræðingar grafreit með jarðneskum leifum 60 manna, kvenna og barna við bakka Nílar í norðurhluta Súdan. Greiningar sem voru gerðar árið 2014 sýndu að 41 af þessu fólki hafði verið drepið með spjóti eða örvum. Sum fórnarlambanna báru ummerki eftir návígi – meðal annars höggáverka á brotnum handleggjum og fótum.
Nýjar greiningar frá 2021 sýna enn fremur að vopnin sem voru notuð til að drepa fórnarlömbin voru hönnuð til að valda sem mestum skaða og blóðmissi eins og kostur var.
Blýantarnir sýna hvar örvar hafa lent í beinagrindunum tveimur.
Stríðið stóð yfir í mörg ár
Samkvæmt vísindamönnum hefur þetta ævaforna stríð líkast til staðið milli tveggja þjóðflokka sem börðust um takmarkaðar auðlindir á svæðinu eftir tímabil loftslagsbreytinga og þurrka.
Greiningar á beinagrindum sýna augljósan mun á líkamlegum leifum hinna látnu sem hefur fengið vísindamenn til að ætla að sumar beinagrindurnar tilheyri afrískum íbúum staðarins meðan aðrar óþekktum þjóðflokki – líkast til frá Miðausturlöndum.
Margt bendir til að átökin hafi staðið yfir í mörg ár þar sem hóparnir tveir réðust hvor á annan mörgum sinnum. Sem dæmi hafa vísindamenn fundið merki um bæði nýleg og gróin sár eftir bardaga á sumum beinagrindum sem getur vísað til þess að ráðist hafi verið á hinn látna mörgum sinnum.
„Ofbeldið virðist því miður hafa verið viðvarandi staðreynd og hluti hversdagsins hjá þessu fólki“, segir fornleifafræðingurinn Daniel Antoine við British Museum þar sem beinagrindurnar eru núna varðveittar.