Fiskikvótar vekja upp sterkar tilfinningar og frá því upp úr 1950 og fram eftir áttunda áratugnum, voru þær svo miklar að Ísland og Stóra-Bretland enduðu í þorskastríði. Átökin snerust um að hvaða marki breskir togarar gátu veitt þorsk við strendur Íslands.
Allt frá fjórtándu öld sigldu Englendingar til hingað til að fylla skip sín af þorski. Danski konungurinn Eiríkur af Pommern sem ríkti yfir Íslandi, bannaði Englendingum árið 1414 að sigla til Íslands en þeir hunsuðu þetta bann og héldu áfram að moka upp íslenskum þorski í margar aldir.
Varðskipið Þór neyddi nokkur bresk fiskiskip til að leggja til hafnar.
NATO varð að grípa inn í
Á 20. öldinni var þorskafli enskra orðinn gríðarlegur. Eftir að Ísland hlaut sjálfstæði frá Danmörku í síðari heimsstyrjöldinni lögleiddum við árið 1952 7,5 kílómetra landhelgi meðfram ströndum. Á árunum 1958 til 1975 var landhelgin færð út í 22 km, 93 km og á endanum í 370 km.
Bretar litu á þessar aðgerðir sem hreina ögrun og sendu herskip á Íslandsstrendur, þar sem þau mættu oft langtum minni íslenskum varðskipum sem voru að elta uppi breska togara.
Þar kom að Ísland rauf öll diplómatísk samskipti við Stóra-Bretland og hótaði jafnframt að draga sig úr NATO og loka herstöð Bandaríkjamanna. Þessi hótun varð til að NATO skarst í leikinn og þvingaði Breta til að undirrita samkomulag, þar sem kröfur Íslands voru virtar. Í sárabætur fengu Bretar leyfi til að veiða mun minna magn af íslenskum þorski.