Fyrstu hugleiðingarnar um tölvuveirur komu fram árið 1949. Stærðfræðingurinn John von Neumann átti hlut að þróun fyrstu tölvanna og lýsti í fræðilegum minnisblöðum sínum hvernig unnt væri að láta tölvuforrit afrita sig sjálft – á sama hátt og lífrænar veirur fjölga sér í frumum.
Á næstu áratugum reyndu ýmsir skarpir forritarar að þróa sjálffjölgandi forrit í samræmi við hugleiðingar Neumanns. Ein fyrsta árangursríka tilraunin var gerð 1971, þegar tölvuveirunni Creeper var sleppt lausri í lokuðu tölvuneti.
Rúmum áratug síðar, árið 1982, fór fyrsta alvöru tölvuveiran á stjá, þegar Elk Cloner tók að sýkja hinar vinsælu Apple II-tölvur.
Tölvuveiran Elk Cloner var hugsuð sem hrekkur og sýndi m.a. tilgang sinn í ljóðformi.
Táningur stóð að fyrstu tölvuveiruárásinni
Að baki árásinni stóð 15 ára miðskólanemi, Rich Skrenta sem hafði nýtt vetrarfríið sitt til að forrita veiruna Elk Cloner sem „fáránlegan en meinlausan hrekk“.
Tölvuveiran barst með leikjadiskettum sem í vinahópnum voru afritaðar til að fleiri gætu spilað leikinn. Í upphafi lá tölvuveiran í dvala en þegar diskettan var notuð í 50. sinn, yfirtók Elk Cloner tölvuskjáinn. Þar birtist stutt, sigri hrósandi prósaljóð en að öðru leyti var veiran ekki skaðleg og það var líka vandalaust að eyða henni.
Væri tölvan ræst með smitaðri diskettu í spilaranum, afritaði Elk Cloner sig þó á harða diskinn og sýkti síðan næstu diskettu. Þannig gat þessi tölvuveira breiðst út.
Nú til dags eru tölvuveiruárásir og veiruvarnir fyrir löngu orðinn fastur þáttur í tilveru allra tölvunotenda.