Allt frá því á forsögulegum tíma er maðurinn talinn hafa notað blóm til að tjá ást sína, virðingu og umhyggju. Fornleifafræðingar hafa fundið blómafræ og leifar af þurrkuðum blómum í gröf neanderdalsmanns, þar sem nú er Írak. Fundur þessi gefur til kynna að neanderdalsmenn hafi komið fyrir blómum á gröfum ástvina sinna fyrir 35.000-65.000 árum.
Fyrstu vísbendingar um áþekka notkun blóma á sögulegum tíma eru frá Egyptalandi til forna. Þar sýna veggmyndir að blóm hafa verið sett á grafir fólks, bæði blómvendir, blómakransar og skrautfléttur. Grikkir og Rómverjar notuðu einnig blóm til marks um jákvæðar tilfinningar.
Grikkir notuðu ilmandi blóm, m.a. til að hylla íþróttahetjur sínar.
Blóm voru notuð til að tjá tilfinningar
Grikkir skreyttu höfuð ýmissa sigurvegara með blómum, m.a. íþróttamanna og táknuðu blómin þá velgengni og sigur þeirra sem blómin báru. Meðal Rómverja tíðkaðist að ástfangin pör gæfu hvort öðru blómakransa til marks um ævarandi ást.
Á miðöldum fóru mismunandi blómategundir að öðlast ólíka merkingu, þannig að fólk gat gefið tiltekin blóm til að tjá tilfinningar sínar, t.d. táknuðu rósir ást en sólblóm trygglyndi. Sú hefð að gefa blóm við sérstök tækifæri hefur að sjálfsögðu lifað allt fram á okkar daga.