Sníkjudýrið sem veldur malaríu hefur verið óvelkominn gestur í mannslíkamanum frá ómunatíð. Vísindamenn telja sig þó geta fullyrt að sjúkdómurinn hafi ekki tekið að herja fyrir alvöru fyrr en fyrir svo sem 10.000 árum, þegar fólk fór að taka sér fasta búsetu og lifa af landbúnaði.
Læknar notuðu kínín til að meðhöndla malaríu langt fram á 20. öld.
Einkum voru Rómverjar illa haldnir af malaríu sem þá var þekkt sem rómverska veikin og sumir sagnfræðingar telja að malaríufaraldrar hafi átt þátt í falli Rómarveldis. Rómverski rithöfundurinn Columella (um 4-70 e.Kr.) tengdi malaríu við skordýr á fenjasvæðum og sú kenning var staðfest kringum aldamótin 1900, þegar vísindamenn gátu loks bent á moskítóflugur sem smitbera.
Fyrsta lyfið var trjábörkur
Fyrsta lyfið sem gagnaðist gegn malaríu var kínín sem innfæddir íbúar í hlíðum Andesfjalla unnu úr trjáberki. Efnið barst til Evrópu um miðja 17. öld og var notað vel fram yfir 1920 þegar nútímalegri lyf komu til sögunnar.
Víða í Evrópu voru hermenn látnir hreinsa upp fenjasvæði þar sem moskítómý þreifst. Þessi mynd er frá Englandi.
Það lyf sem nú virkar best gegn malaríu byggist á efninu artemisínín sem hin kínverska Youyou Tu uppgötvaði upp úr 1970. Árið 2015 fékk hún Nóbelsverðlaunin fyrir verk sitt og með framlagi sínu átti hún stóran þátt í því að í júní 2021 gátu Kínverjar lýsti því yfir að malaríu hefði verið útrýmt í landinu.
Þrátt fyrir miklar framfarir kostar malaría enn um 400.000 mannslíf á ári. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hefur sett fram áætlun um að fækka malaríudauðsföllum um 90% fyrir 2030.