Mannkyn á bandaríska uppfinningamanninum Thomasi Edison margt og mikið að þakka.
Hann færði okkur glóðarperu, hljóðnema og myndavél – og svo smíðaði hann einnig fyrsta velheppnaða apparatið til að geyma og spila hljóð.
Fónógraf Edisons, eins og hann kallaði fyrstu útgáfuna af plötuspilaranum, var fyrst sýndur árið 1877.
Edison mætti fyrirvaralaust hjá blaðinu „Scientific American“, þar sem hann dró apparat sitt fram og sneri sveif á hlið hans.
„Góðan daginn. Hvernig hafið þið það? Hvernig líst ykkur á fónógrafinn?“ Orðin komu út úr þessari dularfullu maskínu.
Fónograf Edisons var eldri útgáfa plötuspilarans
Fónógraf Edisons var ólíkur síðari grammófónum því hann spilaði hljóð af málmsívalningi fremur en plötu.
Rás snerist hringinn í kringum sívalninginn sem var þakinn þunnri tinplötu. Þegar fónógrafinn sneri sívalningnum, rann nál – hljóðdósin – í rásinni og fangaði litlar ójöfnur þar.
Þær urðu að hljóði sem streymdi út úr hátölurunum.
Önnur nál gat rispað í ójöfnur í tinplötuna og með þeim hætti var hægt að taka upp hljóð á tækið.
Grammófónn Emile Berliners tók við af fónógrafnum
Edison byrjaði að framleiða apparatið árið 1878 og var sífellt að betrumbæta það.
Sem dæmi dugði tinplatan einungis í nokkrar afspilanir, þannig að hann útbjó sívalning úr vaxi sem slitnaði ekki jafn hratt.
Snemma á 20. öld vék fónógraf Edisons þó fyrir „grammófón“ Emile Berliners sem spilaði af flötum plötum úr svörtu lakki.
Það var mun auðveldara að fjöldaframleiða þær heldur en sívalning Edisons.
Núna finnast fáar upprunalegar upptökur sem gerðar voru á fónógrafinn og flestar þeirra eru svo brothættar að þær munu trúlega brotna í sundur við frekari afspilun.