Fyrsta manneskjan sem skráð er að hafi gengist undir kynleiðréttingaraðgerð, var hin danska Lili Elbe.
Hún fæddist sem Einar Wegener í Vejle árið 1882 en þegar hún var 48 ára leiðrétti hún kyn sitt.
Wegener flutti ungur að árum til Kaupmannahafnar til að nema við Listaháskólann og kynntist þar listmálaranum Gerdu Gottlieb sem hann svo giftist.
Gerda hafði Wegener oft sem fyrirsætu þegar hún málaði myndir af konum og eiginmanninum leið svo vel í kvenmannsklæðum, að hann fór að koma opinberlega fram klæddur þeim.
Gottlieb studdi eiginmann sinn í hvívetna og parið flutti til Parísar. Þar fannst Wegener eins og hann væri fangi í eigin líkama og íhugaði jafnvel sjálfsmorð.
Árið 1930 leitaði Wegener til læknis sem sagði honum að hann væri í raun kvenmaður fastur í karlmannslíkama.
Í París sagðist Elbe vera mágkona konu sinnar.
Þetta sama ár gekkst Wegener undir skurðaðgerðir hjá lækninum og í þeirri fyrstu af þremur voru eistu hans og getnaðarlimur fjarlægt en komið fyrir „ferskum kvenmannskirtlum“.
Wegener fór á næsta ári í skurðaðgerð, þar sem í hana var grætt móðurlíf.
Líkami hennar hafnaði þessu líffæri og hún lést þann 13. september 1931.
Á ævi hennar litaðist almenningsálit á Elbe ýmist af viðbjóði eða samúð en á síðari tímum er hún nú talin vera einn helsti kvenskörungur transfólks.