Það má leiða líkum að því að fyrsta ríkið sem fylgdist með miklum fjölda þegnanna hafi verið þegar Elísabet 1. Englandsdrottning var við völd á 16. öld. Drottningin var dauðhrædd við að verða ráðin af dögum og kom því á laggirnar fjölmennu neti njósnara sem áttu að vakta allt og alla. Njósnararnir opnuðu einkabréf, leystu dulmálskóða og báru kennsl á alla þá sem drottningunni stafaði möguleg hætta af.
Elísabet hafði enda ríkar ástæður til að óttast um líf sitt. England var klofið eftir miklar trúarbragðadeilur þegar Elísabet var krýnd árið 1559 en hún aðhylltist mótmælendatrú. Fjölmargir álitu kaþólska frænku hennar, Mary Stuart, réttmætan krúnuhafa og Elísabet varð að berjast fyrir stöðu sinni, því nágrannalönd hennar voru flest kaþólsk og vildu velta henni úr sessi.
Njósnarar Elísabetar 1. vernduðu hana tryggilega – hún lést af náttúrulegum orsökum 69 ára gömul árið 1603.
Njósnararnir afhjúpuðu samsærið
Drottningin tók enga áhættu og kom á laggirnar fjölmennum flokki njósnara sem voru eyru hennar og augu – jafnt í Englandi sem í nágrannalöndum. Flestir gengu þeir um götur og reyndu að þefa uppi orðróm um mögulega uppreisn eða samsæri.
Njósnararnir voru „svo dugmiklir og fjölmennir að vart leið sá dagur að ekki væri einhver grunsamlegur maður dreginn til yfirheyrslu“, ritaði einn kaþólskur jesúítaprestur.
Njósnararnir skiluðu góðu verki, því árið 1589 komust þeir yfir dulkóðað bréf sem afhjúpaði hóp kaþólikka hliðholla Mary Stuart. Þar var ráðgert að myrða Elísabetu 1. sem brást við með því að láta taka þau öll af lífi, Mary Stuart meðtalda.