Opinberlega var lömunarveiki útrýmt í Englandi árið 1984. En í ágúst 2022 tilkynntu heilbrigðisyfirvöld í London að öll ungabörn í milljónaborginni gætu fengið bóluefni gegn lömunarveiki – banvænum sjúkdómi sem ræðst á taugakerfið og er sértaklega skæður börnum.
Þessi tilkynning vakti furðu margra, yfirvöld höfðu fundið leifar veirunnar í skólpi frá mismunandi hverfum í borginni.
Það að börn geti fengið bóluefnið og þannig sloppið við lömunarveiki, má fyrst og fremst þakka bandaríska lækninum Jonas Salk.
Bóluefni Jonasar Salk var dreift um heim allan og bjargaði það lífi milljóna barna.
Lömunarveiki hvarf á nokkrum árum
Þann 26. mars 1953 greindi Jonas Salk frá því í útvarpserindi að hann hefði þróað fyrsta skilvirka bóluefnið við lömunarveiki. Þessum tíðindum var tekið með miklum fögnuði, því á árinu áður einu saman höfðu tugþúsundir lamast og um 3.000 látist vegna veirunnar.
Áður höfðu margir vísindamenn í áratug reynt að finna gott bóluefni. Jonas Salk hafði sjálfur hafist handa 1948 og aðeins fjórum árum síðar var bóluefni hans tilbúið. Það var fyrst prófað á sjálfboðaliðum sem höfðu fengið veikina sem og Jonas Salk og fjölskyldu hans.
LESTU EINNIG
Eftir þetta stóðu Bandaríkin fyrir einhverju umfangsmesta lyfjaprófi sögunnar þar sem um 1,3 milljónir skólabarna voru bólusettar. Í apríl 1955 tilkynntu yfirvöld síðan að þetta nýja bóluefni væri bæði skilvirkt og öruggt og í kjölfarið voru landsmenn bólusettir.
Ári síðar hafði smitum fækkað úr um 60.000 niður í einungis 6.000 og upp úr 1960 var svo gott sem búið að útrýma lömunarveiki.