Nasistar gerðu tilraunir með orrustuflugvélar
Þegar árið 1944 gerðu nasistar í Þýskalandi tilraunir með flugvélar sem þurftu ekki langt tilhlaup til að komast á loft. Þörfin fyrir lóðrétt flugtak fór vaxandi eftir því sem Bandamenn sprengdu upp sífellt fleiri flugvelli nasista.
Frumgerðin fannst þó einungis á teikniborðinu þegar stríðinu lauk. En eftir stríðið varð áhugi manna meiri á því að smíða orrustuflugvél sem væri t.d. hægt að senda á loft frá minni herskipum og vernda þannig mikilvægar skipalestir.
Bretar smíðuðu fyrstu orrustuþotuna
Bretar smíðuðu Hawker Siddeley Harrier árið 1967 og var hún fyrsta VTOL-orrustuflugvélin (Vertical Takeoff and Landing) sem var svo áreiðanleg að það mátti fjöldaframleiða hana.
Fjölmargar Harrier-gerðir bættust síðar við og flugvélarnar tóku þátt í Falklandseyjastríðinu árið 1982 með góðum árangri, þar sem þær vernduðu herskip gegn árásum úr lofti og sprengdu upp hervirki Argentínumanna á eyjunum.
Framleiðslan á Harrier stoppaði þó árið 2003 og núna hafa flest lönd hætt notkun slíkra flugvéla.
Hæfileikinn fyrir lóðrétt flugtak var einfaldlega ekki svo eftirsóttur lengur en gerði hins vegar Harrier-flugvélina bæði flókna í smíðum og eins var bilanatíðnin há.
Harrier þarf engan flugvöll fyrir flugtak og lendingu. Flatur akur dugar ágætlega.
Margar tilraunaflugvélar misheppnuðust
1954: Lockheed XFV
XFV gat verið kyrr í lofti þegar hún hafði fengið aðstoð við flugtak. Í upphafi hvíldi hún á fjórum stélvængjum en var þó aldrei fær um að komast frá jörðu fyrir eigin vélarafli. Einungis ein frumgerð var smíðuð.
1959: Coléoptére
Frakkar gerðu tilraunir með þotuhreyfil sem var lokaður inni í hringlaga vængi. Coléoptére gat tekið lóðrétt á loft en eina frumgerðin hrapaði og eyðilagðist í 9. tilraun flugvélarinnar við að fljúga lóðrétt.
1963: EWR VJ 101 C
Þotuhreyflarnir voru á vængjunum og snúa mátti þeim lóðrétt og þannig lyfta flugvélinni upp í loft. Við tilraunaflug tókst VJ 101 að létta lóðrétt og síðan fljúga lárétt. Flugvélin hrapaði þó síðar niður – einungis tvær flugvélar komust á loft áður en verkefnið var lagt á hilluna.