Þótt beinvefur sé fjórfalt sterkari en steypa, lendir flest fólk í því óláni einhvern tíma á ævinni að brjóta eitt eða fleiri bein.
Þegar beinbrotinn sjúklingur kemur á bráðamóttöku er byrjað á því að taka röntgenmynd til að læknirinn sjái nákvæmlega hvar brotið er.
Næst þarf svo að stilla beinendana alveg nákvæmlega rétt saman. Þannig tryggir læknirinn að líkaminn þurfi að mynda sem minnst af nýjum vef ásamt því að brotið grói rétt.
Brotendunum haldið rétt
Brotendunum þarf nú að halda í nákvæmlega réttri stöðu meðan brotið er að gróa. Þetta er yfirleitt gert með gifsumbúðum og stundum með spelku sem bæði veitir stuðning og dregur úr sársauka, þar eð beinendarnir geta nú ekkert haggast og skaðað með því nærliggjandi vef eða taugar.
Í flóknum tilvikum er nauðsynlegt að festa beinendana, t.d. með málmþræði, nöglum eða skrúfum en til þess þarf skurðaðgerð.
Þumalputtareglan segir að það taki bein í neðri hluta líkamans tvöfalt lengri tíma að gróa (16 vikur) en í efri hlutanum (8 vikur). Bein barna gróa þó yfirleitt á helmingi þessa tíma en hjá eldra fólki þurfa beinin hins vegar lengri tíma til að gróa saman.
Það blæðir úr brotinu
Ef maður beinbrotnar fylgja yfirleitt vikur eða mánuðir í gifsi í kjölfarið. Þegar beinið er gróið er brotstaðurinn hins vegar oft sterkasti hluti beinsins. Hér að neðan er skýrt hvernig líkaminn endurbyggir brotið bein.

1. Blóð streymir út í brotflötinn
Þegar bein brotnar, rofna margar æðar og blóð safnast upp á milli brotendanna.

2. Stofnfrumur byggja nýjan beinvef
Svonefndar beinstofnfrumur koma nú að og taka að byggja upp nýjan beinvef. Samtímis vaxa æðar saman á ný í gegnum brotið.

3. Blóðstorkan myndar brjósk
Beinstofnfrumurnar mynda brjóskvef sem á nokkrum mánuðum drekkur í sig kalksölt og harðnar smám saman.

4. Beinið er aftur heilt
Eftir nokkra mánuði er beinið alveg gróið. Meðan á batanum stóð hefur hinu skaddaða beini verið haldið grafkyrru og það hefur leitt til þess að beinið hefur veiklast – nema nýmyndaði beinvefurinn.
Bein þurfa álag
Bein brotna niður og endurbyggja sig sjálf þegar þau verða fyrir álagi. Strax á 19. öld uppgötvaði þýski líffærafræðingurinn Julius Wolff að bein verða því sterkari sem álag á þau er meira.

Til vinstri er venjulegt bein og til hægri gljúpt og veikt bein.
Á hinn bóginn verða beinin gljúpari og veikari fyrir þegar þau verða ekki fyrir álagi. Þetta má t.d. sjá gerast hjá geimförum sem dveljast lengi í þyngdarleysi.