Í raun stendur sá hluti alheims sem við sjáum – stjörnur, plánetur og stjörnuþokur – aðeins fyrir lítinn hluta af öllu efni í alheimi en samkvæmt bestu útreikningum stjarnfræðinga er sá hluti aðeins um fjögur prósent.
Afgangurinn samanstendur af svonefndu hulduefni og dularfullum krafti sem stjarnfræðingar hafa nefnt hulduorku. Hulduefni er talið vera 23 prósent og hulduorka heil 73 prósent af samanlögðu efni alheims. Hulduorkan er talin knýja sífellt hraðari útþenslu alheims.
Allar stjörnuþokur fjarlægjast hver aðra með auknum hraða og það hlýtur að stafa frá einhverju sem verkar gegn þyngdarkraftinum. Með því að greina dreifingu örbylgjukliðsins í alheimi hefur magn hulduorku verið metið 73 prósent. Hulduefni sýnir tilvist sína með þyngdarkrafti sínum en ekki er vitað hvað fyrirbærið er í raun.
Nýverið hafa enskir stjarnfræðingar við Cardiff University greint heila stjörnuþoku án einnar einustu sýnilegrar stjörnu í 50 milljón ljósára fjarlægð. Þökk sé þyngdarverkun hulduefnis hefur verið hægt að útbúa tölvuhermi sem sýnir dreifingu þess í okkar hluta alheims (sjá myndina). Svo virðist sem hulduefnið myndi formgerðir sem kalla mætti „þræði“ og „múra“, rétt eins og sýnilegt efni.