Réttur Bandaríkjamanna til að eiga og bera vopn er tryggður í stjórnarskrá þeirra, segja margir.
Stjórnarskrá Bandaríkjanna var samin árið 1787 en strax fjórum árum síðar var nokkrum breytingartillögum bætt við hana og nefnast þær einu nafni Réttindaskrá Bandaríkjanna. Í þýðingu Vestur-Íslendingsins Ólafs S. Thorgeirssonar (1905) hljómar viðaukinn þannig:
„Með því að landvarnarlið með góðu skipulagi er nauðsynlegt fyrir óhultleika frjálsra ríkja, skal réttur þjóðarinnar til að eiga og bera vopn óskertur látinn“.
Í fyrri hluta viðaukans er þannig lögð áhersla á mikilvægi landvarnarliðs fyrir varnir ríkisins á meðan hinn síðari leggur blátt bann við því að skerða rétt þjóðarinnar til að eiga og bera vopn.
Í hugum margra Bandaríkjamanna táknar þessi einkennilega setning að þeir hafi stjórnarskrárvarinn rétt til að bera vopn, á sama hátt og öllum er tryggt málfrelsi og trúfrelsi.
Aðrir hafa raunar bent á að með orðinu „þjóðarinnar“ sé verið að vísa til fyrrnefnds „landvarnarliðs“ og að sá hluti eigi alls ekki við um almenna borgara.
Bandaríkjamenn hafa rökrætt það í liðlega tvær aldir hvort almenningur eigi að fá að bera vopn.
18 ára gamall sýknaður af morði
Stjórnmálamenn, lögfræðingar, mælskulistarmenn, málvísindafólk og sagnfræðingar hafa rökrætt í tvær aldir hvernig túlka beri þessa umdeildu setningu. Og þá greinir á um túlkunina. Fyrir bragðið enda rökræður um vopnalöggjöf Bandaríkjamanna oft sem vangaveltur um stjórnmál og hugmyndafræði.
Margir dómstólar hafa gegnum tíðina reynt að komast að raun um hvernig túlka beri stjórnarskrána; sem dæmi voru samþykkt lög í alríkishéraðinu Kólumbíu árið 1975 þess eðlis að einungis hermenn mættu bera vopn. Árið 2008 ákvað hæstiréttur Bandaríkjanna merð dómsúrskurði að lögin brytu í bága við stjórnarskrána.
Umræðurnar um bandarísku vopnalöggjöfina komust aftur í hámæli í nóvember 2021 þegar hinn 18 ára gamli Kyle Rittenhouse var sýknaður af því að hafa skotið tvo menn til dauða með riffli í óeirðum sem brutust út í borginni Kenosha.