Á hnetti án mannkyns væri dýralífið einna næst því sem sjá má í þjóðgörðum Afríku þar sem dýralífið er mjög fjölbreytt.
Þetta sýnir athugun frá árinu 2015, þegar vísindamenn hjá Árósaháskóla í Danmörku unnu líkan af dreifingu spendýra um jörðina, eins og hún væri ef mannkynið hefði aldrei komið fram.
Við höfum rutt stórum spendýrum út
Víðast hvar í heiminum er nú sáralítið eftir af stórum spendýrum. Litakóðarnir á kortunum sýna fjölda tegunda eftir þyngd. Spendýr yfir 45 kg þyngd flokkast sem stór.
Í heimi án mannkyns hefðu stór spendýr haldið velli víðast hvar á hnettinum. Í Suður-Ameríku væru t.d. 45 tegundir stórra spendýra en ekki aðeins 5.
Hið raunverulega útbreiðslukort sýnir að einungis í Afríku er umtalsverð fjölbreytni í hópi stórvaxinna spendýra – m.a. vegna þess að þau lifa óáreitt í stórum þjóðgörðum.
Vísindamennirnir telja að án manna væru stór spendýr að líkindum útbreidd um stærstan hluta hnattarins.
Einkum í Norður- og Suður-Ameríku væru stór spendýr miklu fleiri, líklega ámóta mikið af þeim og í Afríku. Þeir segja að í Suður-Ameríku væru þá um 45 tegundir stórra spendýra en ekki aðeins 5 tegundir eins og raunin er.
Fílar og nashyrningar gætu lifað í Norður-Evrópu ef mannkynið stæði ekki í vegi fyrir því.
Nú er fjölbreytileika stórra spendýra einungis að finna í Afríku en þar eru t.d. fílar, flóðhestar, gíraffar og nashyrningar. Í öðrum heimshlutum hefur útbreiðsla manna og lifnaðarhættir þeirra farið langt með að útrýma stórum tegundum.