Eyðileggur frumuhimnur
Handspritt drepur bakteríur, veirur aðrar örverur og sótthreinsar þannig hendurnar.
Áhrifin stafa af alkóhóli í sprittinu, sem er minnst 60% og eyðileggur frumuhimnur örveranna því sem næst samstundis.
Frumuhimnurnar eru úr fituefnum og prótínum og alkóhól hefur skaðleg áhrif á hvort tveggja.
Alkóhólsameindir smjúga milli fitusameinda í frumuhimnunni og valda því að hún sundrast.
Prótín eru mjög langar sameindir og leggjast saman í fellingar á alveg sérstakan hátt, ekki ósvipað og rafmagnsvírar í kapli.
Hver felling er mikilvæg ef prótínið á að virka rétt, en alkóhólið kemst milli fellinganna og réttir úr þeim, þannig að prótínið eyðileggst.
Alkóhól tætir bakteríur sundur
Handspritt ræðst á bakteríur og veirur á tvennan hátt og bæði gatar himnurnar og lokar fyrir virkni prótína.
Alkóhól gatar himnuna
Alkóhólsameindir í sprittinu smjúga milli fitusameindanna í frumuhimnunni.
Göt á himnu drepa frumu
Alkóhólið gatar himnuna, sem þá getur ekki varið umfrymið. Bakterían tætist sundur.
Spritt kemst í fellingarnar
Langar prótínkeðjur liggja inn og út um frumuhimnu bakteríunnar. Alkólhólsameindir aflaga fellingarnar.
Fellingarnar rétta úr sér
Alkóhólið sléttar fellingarnar. Þar með virkar prótínið ekki lengur og er ónýtt.
Drepur handspritt allar bakteríur?
Framleiðendur halda því gjarnan fram að handsprittið drepi 99,9% af bakteríunum, en það er ekki alls kostar rétt.
Í fyrsta lagi geta sumar bakteríur myndað spora, sem eru ónæmir fyrir alkóhóli og þróast síðar í bakteríur. Þetta gildir t.d. um Clostridium, sem veldur alvarlegum þarmasýkingum.
Í öðru lagi hefur sprittið ekki full áhrif ef hendurnar eru óhreinar eða fitugar, því þá getur sprittinu reynst erfitt að komast í návígi við bakteríurnar.
Í þriðja lagi þarf handspritt dálítinn tíma til að virka. Til að tíminn verði nægur þarf að núa saman höndunum þangað til sprittið er alveg þornað.
Sápa er enginn bakteríudrápari
Öfugt við spritt drepur sápa hvorki bakteríur né veirur. Hún leysir hins vegar upp klístraða fitu á húðinni þannig að skola má af sér þeim örverum sem handsprittið náði ekki til. En til að sápan virki almennilega, þarf að núa henni um hendurnar í a.m.k. 20 sekúndur.