Þegar tveir herir leggja upp í stríð geta ótalmargir þættir haft áhrif á niðurstöðu bardaganna en herstjórnarfræðingar segja það skipta sköpum að árásarherinn sé í það minnsta þrefalt stærri en varnarherinn, eigi hann að eygja möguleika á sigri í bardaganum.
Ástæðan er sögð vera sú að það sé langtum meira krefjandi, líkamlega og siðferðislega, að gera árás en að verja sig.
Ef marka má prússneska hershöfðingjann og hernaðarfræðinginn Carl von Clausewitz (1780-1831) verða aðfangalínur árásarhersins víðáttumiklar þegar herinn stígur inn á óvinveitt landsvæði. Þetta táknar að línurnar verða viðkvæmari fyrir árásum og hermennirnir þurfa á meiri mannafla að halda til að sjá framvarðarsveitunum fyrir aðföngum.
Þegar um er að ræða varnarher verða aðfangalínurnar hins vegar styttri og tiltölulega öruggar eftir því sem hersveitirnar hörfa meira og ferðast gegnum sín eigin svæði. Slíkur her hefur því þörf fyrir minni liðsstyrk.
Þegar um er að ræða landhernað hefur varnarherinn jafnframt ávinning af landslaginu því hermennirnir búa að öllu jöfnu á þeim svæðum sem þeim er ætlað að verja. Þeir þekkja fyrir vikið umhverfið til hlítar sem kann að gagnast þeim vel, m.a. ár, hæðir og fjöll.
Napóleon réðst inn í Rússland árið 1812 með um hálfrar milljón manna herafla en meirihluti frönsku hermannanna lét lífið meðan á herförinni stóð.
Það er hægt að breyta vörn í sókn
Þó svo að varnarherir, samkvæmt Clausewitz, hafi ávinning umfram sóknarheri í stríðsrekstri, getur varnarher engu að síður beitt herkænskulist árásarhers. Í slíkum tilvikum þurfa hermennirnir að verja sig allt þar til óvinaherinn er að þrotum kominn. Þá getur varnarherinn ráðist til sóknar og sigrast á örþreyttum andstæðingnum.
Þessari herkænskulist beittu Rússar með góðum árangri í herför Napóleons inn í Rússland árið 1812, þegar Rússar hörfuðu stöðugt og veiktu franska herinn, þar til þeir að lokum snerust til sóknar og sigruðust á andstæðingnum.
Á þennan sama hátt brást Rauði herinn við sókn Þjóðverja í síðari heimsstyrjöld og réðst að lokum til atlögu við Þjóðverjana þegar þýsku aðfangalínurnar rofnuðu.