„Chernozem“ er heitið á svarta jarðveginum sem leitt hefur af sér viðurnefnið „brauðkarfa Evrópu“ yfir Úkraínu. Þessi næringarríki jarðvegur hefur nefnilega gert Úkraínu að einu frjósamasta landi heims og færir landsmönnum ákjósanlegustu skilyrði sem fyrirfinnast fyrir ræktun nánast allra landbúnaðarafurða.
Nú á dögum telst Úkraína til helstu framleiðenda heims á korni, kartöflum, maís, sojabaunum, sólblómafræjum, hnetum, sykurrófum og mörgum öðrum afurðum og eru þær flestar fluttar úr landi.
Áður en Rússar réðust inn í Úkraínu keyptu Rússar um fimmtung af úkraínskum útflutningsvörum og Evrópusambandið um 17 prósent.
Svarta moldin í Úkraínu hefur gert landið að einu því frjósamasta í heimi.
Jörðin var seld ólöglega
Ástæða þess að jarðvegurinn er eins frjósamur og raun ber vitni er sú að jarðvegurinn felur í sér hátt innihald af mold og er einkar vel til þess fallinn að varðveita raka.
Í raun réttri er úkraínskur landbúnaðarjarðvegur svo frjósamur að landið ætti að geta séð ríflega hálfum milljarði manna fyrir fæðu. Þetta samsvarar rösklega öllum íbúafjölda Evrópusambandsins en íbúar í því eru hartnær 450 milljónir alls.
Svarta moldin er svo eftirsótt að hún gekk kaupum og sölum á svarta markaðnum eftir upplausn Sovétríkjanna og sjálfstæði Úkraínu árið 1991. Moldinni var lestað á flutningabíla og hún seld ólöglega, allt þar til lagabreytingar afléttu banninu árið 2020.