Andstætt við ýmsar aðrar tilfinningar sem við látum í ljós, svo sem að brosa, reiðast eða verða leið, þá reynir grátur ekki aðeins á vöðva andlitsins heldur einnig ýmsa aðra vöðva líkamans.
Vöðvar sem við notum til að draga andann koma t.d. mikið við sögu, andardrátturinn verður hraðari og slitróttari.
Hjartslátturinn verður að sama skapi örari og púlsinn fer upp úr öllu valdi. Við þetta má svo bæta að grátandi einstaklingur situr að jafnaði ekki kyrr, heldur tekur gjarnan um höfuð sér, nýr saman höndunum í örvæntingu og líkaminn skelfur.
Grátur reynir mikið á líkamann
Grátur er einkar flókið fyrirbæri sem látinn er í ljós á marga ólíka vegu frá einum til annars. Fyrir vikið er einnig ólíkt hversu margir vöðvar koma við sögu hjá hverjum og einum. Engu að síður leikur enginn vafi á því að grátur reynir mikið á líkamann. Aukin starfsemi vöðvanna, hjartans og öndunarfæranna gengur á orkuforða líkamans og sömu sögu er að segja af tára- og slímframleiðslunni.
Bandarískir vísindamenn mældu árið 1998 orkunotkun kornabarna í tengslum við ólíkar athafnir líkamans. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að grátandi börn vörðu um 30 prósent af samanlagðri orkunotkun sinni í sjálfan grátinn.
Grátur útheimti hartnær helmingi meiri orku en hefðbundin starfsemi og fjórum sinnum meiri orku en það að liggja kyrr í notalegheitum. Það er með öðrum orðum ekkert undarlegt að börn og fullorðnir örmagnist af því að gráta.