Regnbogafáninn með röndunum sex hefur verið merki hinsegin fólks allar götur frá árinu 1978 þegar Bandaríkjamaðurinn Gilbert Baker hannaði hann.
Gilbert þessi barðist fyrir réttindum samkynhneigðra og var hvattur til að útbúa svokallað stoltmerki (ens: pride symbol) sem samkynhneigðir gætu notað til að sýna að þeir væru stoltir af kynhneigð sinni.
Fram að því höfðu samkynhneigðir notað bleikan þríhyrning í sama skyni en það tákn höfðu nasistar notað til að einkenna samkynhneigða karlfanga með í útrýmingarbúðunum.
Margir tengdu þess vegna þríhyrninginn við kúgun og þá langaði að eignast nýtt, jákvætt tákn sem léti í ljós „fæðingu nýrrar samkynhneigðrar vitundar“.
Útkoman var regnbogafáninn sem blakti í fyrsta sinn við hún í San Francisco í júní árið 1978.
Engin tilviljun réð því að Baker valdi regnbogafána í þessum tilgangi, því þessi margliti fáni hefur oft verið notaður sem tákn friðar í gegnum tíðina, t.d. gerði bandaríski heimspekingurinn Thomas Paine það að tillögu sinni á 18. öld að hlutlaus skip flögguðu regnbogafána á stríðstímum til að gefa til kynna að þau færu með friði.
Regnbogafáninn hefur einnig verið dreginn að húni í öðru samhengi, t.d. nota nokkrir hópar innfæddra í Perú regnbogafánann til að hylla forfeður sína.
Í borginni Cusco í Perú hefur regnbogafáni verið notaður sem opinber fáni borgarinnar frá árinu 1978.