Upp úr 1960 má segja að brostið hafi á kjarnorkuvopnakapphlaup milli BNA og Sovétríkjanna sem stóð fram á níunda áratug liðinnar aldar.
Á þessum tíma hafði BNA yfir að ráða milli 20.000 og 30.000 kjarnorkuvopnum.
Í upphafi kapphlaupsins voru Sovétríkin með nokkur þúsund slík vopn en réðust í mikla hervæðingu sem skilaði þeim um 40.000 kjarnorkuvopnum.
Á sjöunda áratugnum höfði bæði stórveldin nægjanlega mörg kjarnorkuvopn til að gjöreyða hvort öðru.
Og bæði hétu því að ef annað þeirra myndi beita slíku vopni, þá yrði því svarað með allsherjarárás.
Til að tryggja það komu ríkin sér upp getunni til að skjóta kjarnorkuflaugum með kafbátum.
Fræðilega átti þetta að fela í sér slíkan fælingarmátt að ekki væri hægt að beita þessum vopnum, enda myndi það leiða til endaloka hvoru tveggja.
Kapphlaupið hélt þó áfram vegna þess að bæði stórveldin höfðu ekki haldbærar upplýsingar um hernaðarmátt óvinarins.
Fjöldi kjarnorkuvopna var einatt ofmetinn og óttinn við að verða undir í kapphlaupinu hélt hervæðingunni gangandi.
Það var síðan árið 1987 sem Reagan og Gorbachev undirrituðu samkomulag um fækkun kjarnorkuvopna en segja má að grunnurinn að því hafi verið lagður með leiðtogafundinum í Höfða árinu áður.