Júpíter – risaplánetan
Plánetan Júpíter er risi sólkerfisins. Plánetan er sú innsta af ytri gasplánetunum og hún vegur meira en helmingi meira en allar aðrar plánetur í sólkerfinu – samanlagt.
Júpíter er gaspláneta sem þýðir að hún hefur ekki neitt fast yfirborð. Eins og lýsingin segir er hún samsett úr gasi, mögulega þó með föstum kjarna í miðju. 75% af gasinu er vetni og 25% er helín.
Guðinn Júpíter
Júpíter hefur verið þekkt frá því í fornöld sem reikistjarna, en hún var fyrst rannsökuð gaumgæfilega um árið 1610, þegar Galileo Galilei skoðaði hana og fjögur stærstu tungl hennar í gegnum sjónauka sinn.
Plánetan Júpíter er nefnd eftir einum æðsta guðinum í rómverskri goðafræði: Guði þruma og eldinga.
Á Júpíter geisar stormur sem er 2 – 3 stærri en jörðin.
Rauði blettur Júpíters
Það geisa vindar á Júpíter rétt eins og hér á jörðu og þeir hreyfast í beltum frá austri til vesturs og öfugt. Á mörkunum milli vindanna verða iðuköst líka í gösunum og þar með verða til staðbundnir stormar.
Stærsti stormurinn er kallaður rauði bletturinn og hann þekur svæði sem er á við 2 – 3 jarðir. Bletturinn, sem sést greinilega á mörgum myndum af plánetunni, hefur geisað um aldaraðir.
Stjarnfræðingar hafa fylgst með storminum í næstum 350 ár og nú er útlit fyrir að hann sé að minnka.
Tungl Júpíters
Júpíter er með 79 þekkt tungl og uppgötvuðust 12 þeirra í júlí 2018. Talið er að plánetan geti reyndar verið með svo mörg sem 100 tungl. Júpíter er þannig með fleiri tungl en nokkur önnur pláneta í sólkerfinu.
Mörg tungl Júpíters eru loftsteinar sem plánetan hefur fangað með sínum gríðarlega þyngdarkrafti.
Fjögur stærstu tunglin nefnast galileísku tunglin því það var vísindamaðurinn Galileio Galilei sem uppgötvaði þau. Á þremur af tunglum Júpíters má mögulega finna haf úr saltvatni undir yfirborðinu og því telja sumir fræðimenn að það kunni að finnast líf á þessum tunglum.
Júpíter er sú pláneta í sólkerfinu sem hefur flest tungl
Rannsóknir frá sporbraut
Frá árinu 1973 hafa sjö ómönnuð könnunarför farið nærri Júpíter. Árið 1995 hélt Galileio – kanninn fyrstur á braut um plánetuna, þar sem hann var í sjö ár. Kanninn tók myndir af bæði Júpíter og fjórum galileísku tunglunum og sendi síðan lítið könnunarfar niður í gegnum lofthjúp Júpíters.
Þann 4. júlí 2016 fór könnunarfarið Juno til Júpíters og fór á sporbraut um plánetuna. Því er ætlað að rannsaka lofthjúp gasplánetunnar, segulsvið og innri formgerð.
Júpíter má oft sjá frá jörðu og að meðaltali er hann þriðja bjartasta fyrirbærið á næturhimni á eftir tunglinu og Venusi.
Um Júpíter
Radíus: 69.911 km
Fjöldi tungla: Minnst 79 (ný uppgötvast jafnan)
Fjarlægð til sólar: 778.547.200 km
Hitastig á Júpíter: -221°C