Kóralrifin eru oft nefnd regnskógar hafsins, enda eru þau heimkynni aragrúa sjávardýra og plantna.
Líffræðingar hafa þess vegna áhyggjur af því þegar kóralrif um allan heim verða að láta í minni pokann vegna hækkandi sjávarhita.
Kórallarnir ekki dauðir
Nú kemur í ljós að sum þeirra kóralrifja sem virðast dauð eru kannski öllu fremur í eins konar dvala.
Vísindamenn hjá Barcelonaháskóla á Spáni hafa uppgötvað að sumir kórallar búa yfir lífshæfni sem gerir þeim kleift að vakna til lífsins, jafnvel eftir mikla hitabylgju.
⇒Hitabylgjur i sjónum eggja kóralla í dvala
Kóralrifin virðast deyja alveg þegar sjórinn hitnar. En sum kóraldýr ná að lifa af með því að draga sig saman. Þegar kólnar vakna þau til lífsins á ný.
Farið með bendilinn yfir tölurnar til að lesa meira
Lifandi kóralrif: Kóraldýrin þrífast í svölu vatni
Holdýrin og þreifarar þeirra þekja rifið meðan sjórinn er svalur.
„Dautt“ kóralrif: Hitinn „drepur“ kóralrifið
Hár sjávarhiti kemur holdýrunum til að skreppa saman og draga sig niður í rifið.
Endurlífgað kóralrif: Kóraldýrin lifna við
Þegar hitastigið lækkar vaxa þessi litlu holdýr aftur og birtast á ný.
Í 16 ár fylgdust vísindamennirnir með þróun kóralrifja í Miðjarðarhafi og beindu sjónum sérstaklega að kórallategundinni Cladocora caesoitosa.
Þessi tegund hefur verið talin í mikilli hættu vegna þess hve hægt kórallarnir vaxa.
Það kom því mjög á óvart að einmitt þessi tegund skyldi geta jafnað sig á fáeinum árum.
Skreppa saman
Leyndardómur þessara kóralla felst í því að holdýrin skreppa saman og draga sig djúpt niður í kóralskelina þegar sjávarhiti verður of mikill.
Þannig haldast þau á lífi þótt rifið virðist alveg lífvana.
Þegar sjávarhiti lækkar aftur, teygja holdýrin sig upp aftur og breiða úr þreifurunum. Dýrin eru þó smávaxnari en áður og virðast eins konar yngri útgáfa af sjálfum sér.
Cladocora caespitosa – ,,dautt” og endurlífgað
„Dautt“ kóralrif árið 2006
Endurlífgað kóralrif árið 2017
Sams konar endurlífgunarhæfni var áður þekkt frá steingervingum af útdauðum kóraldýrum sem höfðu myndað smáar kóralskeljar ofan á gamlar en þetta er í fyrsta sinn sem fyrirbrigðið sést meðal núlifandi kóraldýra.
Af þessari uppgötvun leiðir að kórallar eru ekki jafn viðkvæmir fyrir skammtímasveiflum í sjávarhita og menn óttuðust en vísindamennirnir undirstrika þó að þetta dugi ekki til að bjarga kóralrifjunum ef hitastig sjávar hækkar áfram.