Af hverju verða kóralar harðir?

Kóralar eru lífverur. Hvernig stendur á því að þeir skuli verða svo grjótharðir eftir dauðann?

BIRT: 04/11/2014

LESTÍMI:

< 1 mínúta

Kóralar í sjó eru ekki ósvipaðir plöntum eða sveppum, en þeir teljast til dýraríkisins. Kóralar eru holdýr og fullorðnir sitja þeir fastir á sjávarbotni, ýmist stakir eða í hópum. Líkami dýrsins er að stærstum hluta magaholrúm og magaopið gegnir bæði hlutverki munns og endaþarms.

 

Oft er kórölum skipt upp í mjúka og harða kórala. Í mjúkum kórölum er engin burðargrind til að skapa styrk og lögun, heldur er það innvortist vökvaþrýstingur sem heldur líkamanum í skorðum. Þetta form takmarkar nokkuð stærðarmöguleika dýrsins. Harðir kóralar hafa á hinn bóginn eins konar beinagrind, sem annað hvort er gerð úr kalki eða hornkenndu prótíni. Það er þetta harða efni sem kóralarnir skilja eftir sig þegar mjúkir líkamsvefir eru horfnir.

 

Þeir kóralar sem mynda kóralrif, mynda harða kalkundirstöðu sem á þátt í að byggja kóralrifið upp og mynda grunn fyrir stóra hópa nýrra kynslóða. Þannig hafa kóralrif vaxið upp í stærstu byggingar sem nokkrar lífverur hafa skapað að manninum einum undanskildum. Harka kóralrifjanna dugar þeim vel til að eiga góða möguleika á að verða steingervingar. Þróun steinkórala má rekja 200 milljón ár aftur í tímann á grundvelli steinrunninna rifa, t.d. á Grænlandi.

 

Kóralar sem byggja upp beinagrind úr hornprótínum nota hana oft til stuðnings, á svipaðan hátt og stoðrif í laufblaði. Með slíkri byggingu ná kóralarnir mun víðar til fanga en án nokkurar beinagrindar.

 
 

BIRT: 04/11/2014

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.