Lifandi Saga

Kviksettir í 69 daga

Þegar Mario Sepúlveda fer niður í San José námuna þann 5. ágúst árið 2005 gerir hann sér enga grein fyrir því að þetta er síðasta sinn í marga mánuði sem hann sér dagsljós. Aðeins örfáum klukkutímum síðar falla námugöngin saman og Mario, ásamt 32 öðrum námumönnum er innilokaðir á 685 metra dýpi. Næstu tvo mánuðina þjást þeir af súrefnisskorti, sveppasýkingum og röku lofti og hafa enga hugmynd um hvort þeir komist lífs af.

BIRT: 04/05/2023

Fimmtudaginn 5. ágúst 2010 kl. 13:

Mario Sepúlveda setti á sig heyrnarhlífar og hugsaði um fjölskyldu sína þar sem hann stjórnaði gröfunni sem braust gegnum fjallshlíðina. Það sem næst gerðist gátu hins vegar hvorki heyrnarhlífar né dagdraumar varið hann gegn …

 

Allt kringum manninn hrundu skyndilega björg og grjót. Fyrir framan gröfuna sást ekkert fyrir þoku úr brúnu námuryki.

 

Framundan grillti í útlínur vinnufélaganna. Maðurinn hreyfði varirnar og mótaði orðið sem allir óttuðust að heyra: „Grjóthrun“.

 

Þetta kom Mario Sepúlveda ekki á óvart, en árum saman hafði hann séð fyrir sér að þetta myndi gerast og reynt að vekja athygli yfirmanna sinna á hættunni, en talað fyrir daufum eyrum. Enginn vildi horfast í augu við hættuna sem virtist blasa við í San José námunni.

 

Í ríflega eina öld höfðu námuverkamenn grafið upp ógrynni af gulli og kolum úr námunni, sem er að finna í norðurhluta Chile.

 

Göngin höfðu verið grafin af algeru handahófi og náman orðin svo sundurgrafin að hún var öll holótt.

 

Dagana á undan hafði ýmislegt gefið til kynna að slys væri nánast óumflýjanlegt. Hávær hljóð höfðu borist úr berggrunninum.

San José náman

 „Fjallið grætur“, sögðu gamalreyndir námuverkamenn, sem gerðu sér grein fyrir að hljóðin gæfu til kynna að náman gæti hrunið.

 

Margir starfsmenn vöktu athygli yfirmanna sinna á vandanum, en var einungis sagt að styrkja betur loftin í göngunum.

 

Sama morgun heyrðist hávært brothljóð í námunni, án þess þó að yfirmennirnir aðhefðust neitt. Carlos Pinilla, sem stjórnaði daglegum rekstri námunnar, átti erindi inn í námuna og reyndi að róa mannskapinn með því að segja námuna vera að „jafna sig“.

 

Sjálfur stökk hann upp í fyrsta tiltæka farartækið og lét flytja sig burt úr námunni. Hálfri annarri klukkustund síðar síðan sat Mario Sepúlveda í gröfunni sinni þegar námugöngin í miðri námunni hrundu og lokuðu öllum útgönguleiðum.

 

Meðal þess sem hrundi var 700.000 tonna þungt bjarg. Mario og vinnufélagarnir 32 voru lokaðir inni í námunni á 685 metra dýpi.

 

Fimmtudagur 5. ágúst kl. 17:

Hver námuverkamaðurinn á fætur öðrum kom nú inn í öryggisrýmið, en um var að ræða öruggt rými sem mennirnir gátu safnast saman í.

 

Óhöpp og óverulegt berghrun átti sér reglulega stað í námunni og fyrir vikið vissu mennirnir hvert þeir áttu að leita. Þeir brutu sér leið gegnum ryk og grjót á leið þeirra að öryggisrýminu innst í námunni.

 

Þeim létti að sjá að allir voru þeir á lífi og höfðu sloppið án verulegra meiðsla.

 

Loftið í þessu 16 fermetra rými var styrkt þannig að það átti að geta staðist þrýsting af völdum stórgrýtis. Neyðarútbúnaðurinn samanstóð af tveimur súrefniskútum, lyfjaskáp og takmörkuðum matarbirgðum.

 

Mennirnir höfðu alls 10 lítra vatns, eina ferskjudós, tvær dósir af grænum baunum, eina dós af lax, 16 lítra af mjólk, 18 lítra af ávaxtasafa, 20 túnfiskdósir, 96 kexpakka og fjórar dósir af bökuðum baunum.

 

Birgðunum var ætlað að metta tíu námuverkamenn í tvo sólarhringa, sem var sá tími sem gert var ráð fyrir að tæki að losa mennina ef hrun yrði.

 

Námuverkamennirnir gerðu sér grein fyrir að brýnt væri að gera stjórn námunnar strax grein fyrir að slys hefði átt sér stað og að mennirnir væru lokaðir inn í námunni.

 

Þeir sprengdu dýnamít og brenndu hjólbarða í von um að hávaðinn og svartur reykurinn, sem borist gæti gegnum hugsanlegar glufur, myndi ná athygli annarra starfsmanna fyrirtækisins.

Verkstjóri hópsins átt að bera ábyrgð á mönnunum og segja þeim fyrir verkum. Í reynd lét hann þó rafvirkja hópsins Mario Sepúlveda eftir stjórnunina, en honum tókst með eindæmum vel að stjórna hópnum með persónutöfrum, óþrjótandi orku og hugvitssemi. Þegar Sepúlveda á einum tímapunktii var í þann veginn að gefast upp grátbáðu hinir mennirnir hann um að þrauka til þess að þeir allir gætu komist lífs af.

Föstudagur 6. ágúst:

Loftræstigöng gegna oft hlutverki neyðarútgönguleiða. Mario kannaði hvort gerlegt væri að komast út þá leiðina.

 

Mennirnir sváfu illa um nóttina. Undirlag, gert úr pappa, dugði ekki til að hlífa þeim gegn raka og oddhvössum steinum, auk þess sem lekandi vatn og hrynjandi möl minnti þá stöðugt á ótryggar aðstæðurnar.

 

Mario fór fram í námugöngin til að rannsaka loftræstigöngin, sem oft gegna hlutverki útgönguleiða í námum í Chile.

 

Mario Sepúlveda er smávaxinn maður og augu hans leiftruðu af hugrekki. Starfsfélagarnir kölluðu hann „trúðinn“, því aldrei stóð á hnyttnu tilsvari eða trúðslátum hjá honum.

 

Hann fann loftræstigöngin og byrjaði að fikra sig upp þau. Stiginn, sem var gerður úr leðri, hafði meyrnað og eilítið ofar leysti plastslanga hann af hólmi.

 

Mario náð taki á slöngunni og hóf að feta sig upp eftir veggjum opsins. Bergið var sleipt og manninum skrikaði fótur.

 

Í sömu andrá fékk hann grjót í andlitið og við það missti hann tönn og vörin sprakk. Hann leit upp á við og sá að stórgrýti hafði lokað opinu, svo ástæðulaust var að hætta lífinu í loftræstiopinu frekar og hann sneri við.

Hiti leiðir fólk til dauða

Ofurhiti kallast það þegar líkamshitinn fer yfir 40 gráður. Ástandið verður mjög varhugavert ef hitinn fer upp í 41 gráðu og fólk er látið ef líkamshiti þess fer upp í 45 gráður.

37 gráður: Eðlilegt hitastig líkamans.

Hitinn myndast af völdum efnaskiptanna, en hitastig umhverfisins hefur jafnframt áhrif. Með svita losar líkaminn sig við hita gegnum húðina.

40 gráður: Hættulegt ástand.

Æðarnar víkka og blóðið safnast einkum fyrir í utanáliggjandi æðum, þannig að minna blóð streymir til baka til hjartans. Hjartað dælir minna blóði til heilans og hætt er við yfirliði. Vöðvakrampi getur gert vart við sig, því líkaminn glatar salti með svitanum.

Yfir 41 gráðu: Mjög tvísýnt ástand.

Allar frumur líkamans byrja að skemmast. Húðin sem áður var rauðleit verður nú föl eða bláleit vegna þess að blóðþrýstingurinn lækkar og blóðstreymið minnkar.

45 gráður: Bilun verður í lífsnauðsynlegum innri líffærum og dauðinn er óhjákvæmilegur.

Hjartað ofreynir sig við að dæla blóðinu og hættir að slá. Lifrarbilun á sér stað sökum breytinga á saltjafnvægi. Heilinn og nýrun verða jafnframt óstarfhæf.

Mánudagur 9. ágúst. Fimmti dagurinn:

Neyðarbirgðirnar voru nánast uppurnar. Máttfarnir námuverkamennirnir voru þjakaðir af sárum og sveppasýkingum, sem gera vart við sig á þreklitlum líkömum þeirra.

 

Þegar Mario Sepúlveda tilkynnti mönnunum að engin leið væri að komast út um loftræstigöngin misstu þeir alla trú á að björgun væri í nánd.

 

Þeir ákváðu þó að skipuleggja dagana út í ystu æsar til að hleypa í sig kjarki og gættu þess að hafa nóg fyrir stafni.

 

Einn af námuverkamönnunum setti rafhlöður úr tækjabúnaðinum í ennislugtirnar. Aðrir komu upp tómum olíutunnum sem hægt var að tæma ferðasalernin í.

 

Ferskt vatn var löngu uppurið en í námunni var að finna nægilegar birgðir vatns sem notað var á vélbúnaðinn. Mennirnir drukku vatnið, þrátt fyrir olíubragðið.

 

Hver maður varð að láta sér nægja eina skeið af túnfiski og örlitla mjólk.

 

Mennirnir fengu um það bil eitt hundrað hitaeiningar daglega, sem var engan veginn nóg fyrir karlmenn sem höfðu þörf fyrir 3600 hitaeiningar á dag.

 

Þá hafði lífið niðri í jörðinni jafnframt mjög slæm áhrif á heilsu mannanna. Margir voru með sár í munni og sveppir herjuðu á bringu þeirra og fætur. Mario Sepúlveda þjáðist af skelfilega slæmum fótsvepp.

 

Þjáðastur var þó hinn 63 ára gamli Mario Gómez. Hann hafði greinst með steinlunga, sjúkdóm sem veldur örvef í lungunum og gerir það að verkum að erfitt reynist að draga andann.

 

Gómez saup hveljur í sífellu til að ná andanum í heitu, röku og súrefnissnauðu umhverfinu.

Sveppaárás

Loftrakinn í námunni var stöðugt kringum 90 prósentustig. Þetta háa rakastig gerði það að verkum að mennirnir áttu erfitt með að svitna og hafa hemil á líkamshitanum.

 

Rakinn hafði einnig í för með sér sveppasýkingar. Sveppamyndun á sér oftast stað utan á húðinni en sumar tegundir þröngva sér í gegn og sýkja vöðva og bandvef.

 

Námuverkamennirnir þjáðust m.a. af veformi, svepp sem er þekktur fyrir að ráðast á fæturna.

Þriðjudagur 10. ágúst. Sjötti dagurinn:

Eftir fimm daga einangrun frá umheiminum heyrðu námuverkamennirnir skyndilega í bor sem braut sér leið gegnum berglögin.

 

Öndunarerfiðleikar Mario Gómez versna sökum hás hitastigsins, en hitinn fer ekki undir 30 gráður, og einnig af völdum loftrakans, sem mælist ekki undir 95 prósentustigum.

 

Í hans augum minna námugöngin einna helst á grafhýsi, sem mennirnir eru smám saman að kafna í.

 

Á nóttunni hlusta þeir á reglubundið dropafallið sem virðist telja klukkustundirnar og mínúturnar að óumflýjanlegum endalokunum.

 

Skyndilega heyrist hins vegar annað hljóð, en um er að ræða viðvarandi sarghljóð, líkt og þegar málmur snertir klöpp.

 

Einn mannanna grípur holan bambusbút og þrýstir honum upp að veggnum. Á því leikur enginn vafi að einhvers staðar fyrir ofan þá er bor að brjóta sér leið gegnum bergið. Björgunarsveitir eru innan seilingar.

 

Námuverkamennirnir gera sér grein fyrir að taka muni langan tíma að bora gegnum bergið. Þegar svo borinn er í þann vega að komast alla leið í gegn á 14. degi eru mennirnir tilbúnir.

 

Hver og einn maður hefur skrifað á miða sem ætlunin er að festa á borinn þegar hann kemst í gegn, til að tryggja að björgunarsveitarmennirnir fái vitneskju um að mennirnir séu á lífi.

 

Í sömu andrá og mennirnir búast við að borinn brjótist í gegn, byrja taktföst höggin að deyja út.

 

Björgunarsveitin hafði ekki hitt á réttan stað og borinn hafði farið fram hjá.

Mennirnir voru hífðir upp úr námunni í hylki

Námugöng höfðu holað allt svæðið að innan og hætt var við hruni á mörgum stöðum. Enginn vissi í raun hvar krákustígar námuganganna lágu og björgunarmennirnir vissu alls ekki fyrir víst hvar þeir ættu að bora þegar þeir reyndu að bora björgunargöng niður til mannanna.

 

Bergið var einstaklega hart eldfjallaberg og erfitt reyndist að halda stefnu borsins vegna þess á hve miklu dýpi mennirnir voru. Björgunarsveitin gerði tilraunir með að bora niður á þrjá staði og alls voru gerðar níu tilraunir áður en tókst að brjótast niður á þann tiltekna stað sem mennirnir dvöldu á. Mennirnir voru síðan hífðir upp á yfirborðið í hylki, sem var þannig úr garði gert að það komst nákvæmlega fyrir í opinu.

Öryggisrými, sem mennirnir dvöldu í

Inngangur að björgunarrými (og verkstæði)

Hér hrundi náman

Námugöng

Björgunarop

Inngangur að námunni

Áætlun A (mistókst)

Áætlun B (mistókst)

Áætlun C (tókst)

Sunnudagur 22. ágúst. Átjándi dagur:

Borinn braust alla leið í gegn. Nú gátu mennirnir fengið súrefni, mat og aðrar nauðsynjar.

 

Fjarlægur en skerandi hávaði minnir Sepúlveda og hins námuverkamennina á að björgunarsveitarmennirnir hafa ekki gefið upp alla von um að finna þá.

 

Þegar þarna var komið sögu voru einungis tvær túnfiskdósir eftir og skammturinn hafði verið minnkaður í eina matskeð þriðja hvern dag.

 

Sepúlveda þoldi ekki lengur mengað vatnið. Hann kastaði því upp og varð fljótt fyrir miklu vökvatapi. Hann sofnaði óværum svefni en vaknaði við ærandi hávaða.

 

Rétt yfir höfðum mannanna hvein og ískraði í bor sem braust gegnum bergið. Mennirnir féllust í faðma.

 

Sepúlveda afklæddi sig og reif teygjuna úr nærbuxunum. Teygjuna notuðu þeir til að festa miðana við borinn.

 

„Estamos bien en el refugio los 33“ (við erum í athvarfinu allir 33 og líður vel) stóð á einum miðanum.

 

Opið sem borinn hafði myndað var nægilega stórt fyrir pípu sem var notuð til að koma vatni og mat til mannanna.

 

Í opinu var jafnframt rými fyrir tvær aðrar pípur: aðra fyrir súrefni og hina fyrir ljósþráð, sem gerði kleift að koma á myndsambandi milli björgunarsveitarinnar og mannanna í prísundinni.

 

Strax varð ljóst að taka myndi langan tíma að grafa nægilega stór göng til þess að koma mönnunum út.

 

Björgunarsveitirnar gerðu ráð fyrir að sú vinna gæti tekið fjóra mánuði og á meðan snerist auðvitað allt um að halda lífi í mönnunum. Margir þeirra voru orðnir svo máttfarnir að smávægileg sýking gæti gert út af við þá.

 

Mario Gómez, sem greinst hafði með steinlunga, var í mestri hættu. Hætt var við að hann fengi lungnabólgu og myndi deyja á skömmum tíma.

 

Sepúlveda og margir hinna voru með skemmdar tennur, sem hefði getað haft í för með sér lífshættulega sýkingu í rakri og óþrifalegri námunni.

 

Tíminn leið löturhægt og mennirnir reyndu að bægja burt bölsýninni með því að spila dómínó með heimagerðum spilakubbum.

Námuryk leiðir af sér steinlungu

Námuryk felur í sér agnir sem innihalda sílíkatkristalla. Kristallarnir orsaka litla hnúta í bandvefnum og geta valdið óþægindum í öndunarfærum. Ástand þetta getur haft í för með sér aukinn þrýsting í lungnaslagæðum, stækkun hjartahólfs og hættu á hjartastoppi.

1

Ónæmiskerfi lungnanna bregst við innrás agna úr sílíkati í holrúm lungnanna sem nefnast lungnablöðrur. Ónæmisfrumur sem kallast gleypifrumur umlykja agnirnar.

2

Gleypifrumurnar eyðileggjast þó sjálfar í stað þess að granda ögnunum. Þegar gleypifrumurnar drepast losa þær frá sér ensím sem hafði verið til þess gert að granda sílíkatinu. Ensímin leiða svo af sér sýkingu.

3

Líkaminn bregst við á þann hátt að bandvefsfrumur sem nefnast gleypifrumur umlykja sílíkatagnirnar með þeim afleiðingum að lungun mynda örvef.

4

Örvefsmyndun kemur í veg fyrir að lungun geti starfað eðlilega og veldur sýkingu, sem eitilfrumur ónæmiskerfisins eiga oft í mesta basli með að vinna bug á. Sjúklingurinn fær andþyngsli og þjáist iðulega af verkjum í brjósti, svo og slæmum, þurrum  hósta.

Laugardagur 9. október. Dagur 66:

Borinn braust í gegn og nú voru komin göng þangað sem mennirnir 33 voru samankomnir.

 

Slæleg heilsa mannanna gerði það að verkum að andleg heilsa þeirra átti verulega undir högg að sækja. Björgunarmennirnir neituðu að segja hvenær þeir byggjust við að komast alla leið í gegn fyrr en borinn væri í tíu metra fjarlægð frá námugöngunum.

 

Ætlunin var að brjótast í gegn á verkstæðinu, þar sem námuvélarnar  voru staðsettar.

 

Mennirnir þyrptust saman þegar skilaboðin bárust og fylgdust með þegar leðja og vatn, og síðan stórgrýti, féll úr loftinu á meðan borinn komst síðustu sentímetrana.

 

Borinn stöðvaðist við það að rekast á stóra málmboltana í loftinu, að því er virtist í heila eilífð, en andartaki síðar fylltist rýmið af ryki og borinn hékk í lausu lofti. Mennirnir féllust í faðma.

 

Þegar borinn hvarf aftur gengu þeir upp að stóru opinu. Niðamyrkur var í göngunum og mennirnir sáu aðeins örfáu metra upp á við, en vissu samt að þeir myndu bjargast.

 

Svalt, hressandi loftið kældi andlit þeirra.

 

Námuverkamennirnir urðu enn að bíða í tvo daga áður en björgunarhylkið, sem átti að flytja þá upp á yfirborðið, yrði tilbúið. Biðtíminn reyndist erfiðari en nokkru sinn fyrr.

 

Margir mannanna voru andvaka um nóttina og næsta morgun vöknuðu þeir við háa hvelli.

 

Kalt loftið sem streymdi inn í námuna hafði valdið því að bergið tók að  brotna.

 

Mennirnir mundu eftir orðum gamalla námuverkamanna: Náman gefst aldrei upp. Þeir settu upp hjálmana og voru viðbúnir því versta.

 

Miðvikudagur 13. október.Dagur 70:

Þennan dag var björgunarhylkið Fönix loks tilbúið og mennirnir voru dregnir upp, einn í einu.

Bergið lék á reiðiskjálfi í þá tvo daga sem mennirnir biðu þess að verða hífðir upp úr prísundinni. Heilmikil jarðskriða lokaði hluta af námgöngunum, þar sem mennirnir höfðu áður getað gengið um.

 

Þegar björgunarhylkið, sem nota átti til að ferja mennina upp úr fjallinu, loks sást efuðust margir um að þeir ættu eftir að komast lífs af. Hylkið var nákvæmlega passlegt fyrir uppreistan mann.

Mönnunum var bjargað í hylki

Ferðin upp 685 metra langa björgunarholuna tók fyrst í stað 20 mínútur en þeir frá leið tókst þó að auka hraðann. Síðasti námuverkamaðurinn sem hífður var upp var aðeins átta mínútur á leiðinni.

Tenging við lyftuna

Björgunarhylki

Hjálmur með innbyggðum heyrnartækjum og hljóðnema sér fyrir tengingu við yfirborðið

Sérhönnuð dökk sólgleraugu

Lífmælir sem skráir hjartslátt

Öryggisbelti með fimm krókum

Vatnsheldur galli sem hleypir í gegn svita

Stuðningsbindi sem vinnur gegn blóðtappa

Jafnvægishjól með höggdeyfum koma í veg fyrir að hylkið festist og tryggir óhefta ferð gegnum 685 metra langa borholuna.

Hylkið, sem skírt var Fönix í höfuðið á sagnafuglinum, var hannað með aðstoð NASA.

Sepúlveda var annar maðurinn sem dreginn var upp á yfirborðið. Áður en hann steig inn í hylkið var hann látinn íklæðast öryggisfatnaði. Hjartasíriti var festur við bringu mannsins til að fylgjast með hjartslætti hans.

 

Alla leiðina upp úr námugöngunum gat Sepúlveda fylgst með veggjum opsins gegnum vírnet í hylkinu.

 

Ferðin virtist taka heila eilífð en 20 metrum áður en maðurinn kom upp á yfirborðið var hann þó farinn að sjá skímu.

 

Klukkan 1:09 var hylkið komið alla upp. Hann kom auga á eiginkonu sína, Katty. „Sæl, gamla mín,“ hrópaði maðurinn þegar hann kom augu á konuna, sem hann hafði þráð að hitta í 69 daga.

Mario Sepúlveda dansaði af gleði þegar hann kom upp úr námunni. „Skaparinn og skrattinn slógust um mig og skaparinn hafði vinninginn,“ sagði hann glaður í bragði við fréttamennina.

Öllum mönnunum er bjargað á ótrúlegan hátt á meðan allur heimurinn fylgist með. CNN var með beina útsendingu þegar síðasti námumaðurinn yfirgaf hyldýpið.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ELSE CHRISTENSEN

© Shutterstock, © AFP/SCANPIX, © Archive

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hvernig gátu riddarar í brynju farið á klóið?

Maðurinn

Ofurörvuð börn læra minna

Alheimurinn

Ráðgátan um dularfullu geimhringana

Maðurinn

8 vísindalegar ástæður þess að þú lyktar

Náttúran

Snjáldurmýs ganga á eigin heila

Náttúran

Háhyrningar réðust á bát og beittu áður óséðri aðferð

Tækni

Lítil kjarnarafhlaða heldur símanum gangandi í 50 ár

Læknisfræði

Kvefast ég frekar ef ég fer út með blautt hár?

Náttúran

Súrefni: Hvað er súrefni – og er hægt að fá of mikið af því?

Náttúran

Nú gætum við fundið leynilegar tímavélar alheimsins

Maðurinn

Heilasérfræðingar: Ástin og vináttan verðlauna heilann

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is