Lifandi Saga

Helförin: Lífseigt gyðingahatur greiddi götuna

Adolf Hitler áleit gyðinga vera sníkjudýr sem þýsku þjóðinni stæði ógn af og sem ynnu að því leynt og ljóst að komast til heimsyfirráða. Hitler var engan veginn einn um þessa skoðun sína. Gyðingahatur var útbreitt um alla Evrópu og fordómarnir hlutu sérstakan hljómgrunn þegar nasistar komust til valda árið 1933. Fimm árum síðar sauð hatrið upp úr.

BIRT: 02/12/2024

Adolf Hitler gekk ákveðinn í fasi gegnum troðfullan salinn að kvöldi hins 8. nóvember 1923, steig upp á ræðupallinn og skaut upp í loftið úr byssu sinni.

 

„Þjóðarbyltingin hefur brotist út“, hrópaði hann. Hitler var staddur í bjórkallaranum Bürgerbräukeller í München, með Hermanni Göring og nokkrum öðrum framámönnum úr hópi nasista, ásamt mörg hundruð vopnuðum stormsveitarmönnum.

 

Þar voru margir af fremstu stjórnmálamönnum Bæjaralands saman komnir.

 

Austurríkismaðurinn með litla, dökka yfirskeggið hafði aðeins sett sér eitt markmið: Að brjótast til valda í Bæjaralandi og leiða nasistaflokkinn til sigurs.

 

Hugmyndin var fengin að láni frá ítalska fasistaforingjanum Benító Mússólíní sem ári áður hafði náð völdum á Ítalíu á örfáum dögum.

 

Hitler og fylgisveinar hans höfðu þó ekki erindi sem erfiði. Valdaránshópnum tókst hvorki að ná undir sig lögreglunni eða hernum, né heldur höfðu þeir tryggt sér stuðning almennings.

 

Þegar líða tók á aðfaranótt hins 9. nóvember varð ljóst að hið svonefnda bjórstofuvaldarán hafði mistekist algerlega.

 

Nasistar guldu valdaránstilraunina háu verði: Til bardaga kom gegn lögreglunni og felldu lögregluliðar 16 nasista, auk þess sem þrír lögregluþjónar féllu í valinn. Nasistaflokkurinn var bannaður í kjölfarið og Hitler var dæmdur til fimm ára fangavistar fyrir föðurlandssvik.

 

Hitler varði tímanum í fangelsinu í að semja stefnuyfirlýsingu sína „Mein Kampf“, að hálfu leyti sjálfsævisögulegt rit og að hálfu leyti hugmyndastefnurit, þar sem stefnuskrá nasistaflokksins kemur berlega fram: Gyðinga skal þvinga frá Þýskalandi.

Bókin „Mein Kampf“ varð metsölubók en seld voru 5,2 milljónir eintaka áður en seinni heimsstyrjöld braust út árið 1939.

„Svarthærður gyðingastrákurinn liggur í leyni tímunum saman og með djöfullegu augnaráði fylgist hann grannt með ferðum grunlausrar stúlkunnar sem hann hyggst forfæra og óhreinka þannig blóð hennar og ræna henni frá fjölskyldunni“, ritaði Hitler.

 

Nasistaforinginn hélt því fram að gyðingar ynnu að því í leyni að ná heimsyfirráðum, auk þess sem hann kenndi þeim um sársaukafullan ósigur Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöld.

 

Í stefnuyfirlýsingu sinni heldur Hitler því fram að aríar, hreinasti, sterkasti og greindasti kynstofninn, eigi á hættu að þurrkast út ef hann blandast við ómerkilegan kynstofn gyðinga sem í hans augum er rót alls ills.

 

Með riti sínu bindur Hitler vonir við að komast til valda sem foringi hægri aflanna í Þýskalandi þegar hann losnar úr prísundinni. Kænskulist hans ber árangur:

 

Sambandsstjórnin í Bæjaralandi náðaði Hitler í desember árið 1924 og strax í febrúar 1925 fékkst leyfi til að endurvekja nasistaflokkinn, NSDAP, með Hitler í broddi fylkingar, þó með þeim skilyrðum að flokksfélagarnir létu af öllum ofbeldisverkum og störfuðu samkvæmt lögum og reglum.

 

Hitler var undir áhrifum falsara

Gyðingahatur nasista var ekkert einsdæmi: Gyðingar höfðu einnig sætt ofsóknum og kúgunum í Rússlandi og Vestur-Evrópu alla 19. öldina og það sem af var 20. aldarinnar.

 

Gyðingar þóttu of framsæknir og voru of valdamiklir á sviði fjármála og viðskipta eða þannig hljóðuðu ásakanirnar gegn þeim.

 

Kristnir þjóðernissinnar víða um lönd álitu gyðinga vera fjandsamlega og undirförula þjóð sem hefði í hyggju að komast til heimsyfirráða.

 

Kenning þessi átti m.a. rætur í Gerðabókum öldunganna í Zíon, falsriti sem einkenndist af gyðingahatri, gefnu út árið 1903 og sem náði verulegri útbreiðslu víða um lönd. Gerðabækurnar voru sagðar vera fundargerðir frá alþjóðaráðstefnu gyðinga en í raun réttri voru þær samdar af rússnesku leyniþjónustunni.

 

Lögreglan óskaði þess að Nikulás 2., Rússakeisari, efldi baráttuna gegn heittrúuðum gyðingum í Rússlandi.

 

Fundargerðirnar sögðu gyðinga ætla að berjast fyrir heimsyfirráðum og að þeir hefðu í hyggju að kollvarpa kristinni siðmenningu með frjálshyggju og sósíalisma. Þó svo að sýnt væri fram á árið 1921 að um falsanir væri að ræða staðhæfði Hitler áfram að fundargerðirnar væru sannar og réttar.

 

Nasistaforinginn notfærði sér í ríkum mæli fölsuðu ritin í áróðursstarfsemi sem að lokum greiddi leiðina fyrir gyðingahatrið.

 

Fagnaði valdaráni með morði

Eftir að valdaránið í München misheppnaðist breyttu Hitler og nasistaflokkurinn aðferðum sínum og gerðu nú tilraun til að komast til valda á þinginu.

 

Það var þó ekki fyrr en Þjóðverjar höfðu lent í einkar alvarlegri efnahagskreppu og upplifað gríðarmikið atvinnuleysi í kjölfarið á kauphallarhruninu í New York árið 1929 sem flokkurinn fór að njóta verulegrar velgengni.

 

Kjósendur flykktust að, hvaðanæva og í janúar 1933 náði nasistaflokkurinn völdum, með Hitler í broddi fylkingar.

 

Í landinu bjó á þessum tíma um hálf milljón gyðinga sem nú átti það fyrir að liggja að lifa við stjórnarfar sem opinberlega einkenndist af gyðingahatri. Strax á fyrstu mánuðunum eftir að nasistar komust til valda myrtu stormsveitir nasistaflokksins um það bil 40 gyðinga í hryðjuverkaárásum í bæjunum Niederstetten og Creglingen í Suðvestur-Þýskalandi.

 

Árásirnar leystu úr læðingi mikil mótmæli frá öðrum löndum, einkum Bandaríkjunum og Bretlandi en þar ræddu stjórnmálamenn, viðskiptafólk, leiðtogar innan kirkjunnar, svo og samtök gyðinga, um að banna innflutning á þýskum vörum.

 

Nasistarnir álitu viðbrögðin vera hreinar og skærar ofsóknir. Öskuillur tók Hitler málin í sínar hendur og hrinti í framkvæmd fyrstu stóru aðgerðinni gegn gyðingum í Þýskalandi árið 1933, hinu svokallaða gyðingabanni sem ætlað var að fæla aðrar þjóðir frá því að segja neitt neikvætt um aðstæður innan Þýskalands.

 

Ef gagnrýninni ekki linnti, hygðust Þjóðverjar skerpa á gyðingaofsóknunum, kom fram í hótuninni.

 

Nasistarnir máluðu vígorð á borð við „Þjóðverjar versla ekki við gyðinga“ og „gyðingar eru óhamingja okkar“ á verslunarglugga og veggspjöld fyrir framan allar verslanir gyðinga, lögmannsstofur þeirra, svo og læknastofur.

 

Ógnvekjandi stormsveitarhermenn í brúnum stökkum stóðu vaktina fyrir framan verslanir gyðinga.

Nasistar límdu miða á glugga gyðingaverslana: „Verslið ekki við gyðinga“.

Átakið var einungis fyrirboði þeirra hatursfullu aðgerða sem biðu gyðinganna.

 

Hitler og hans menn hertu tökin á gyðingum með hverri vikunni og ástandið versnaði mánuð eftir mánuð þar sem þeir innleiddu ný lög og reglugerðir.

 

Þann 10. maí 1933 réðust námsmenn inn í háskólana í Berlín, svo og bókasöfn og bókaverslanir borgarinnar, þar sem þeir hentu bókum niður úr hillunum.

 

Vörubifreiðir óku með þúsundir rita eftir gyðinga og aðra sem þeir nefndu úrkynjaða rithöfunda, í líkingu við Sigmund Freud, Karl Marx og Ernest Hemingway, að Óperutorginu í miðborg Berlínar. Þegar dimma tók kveiktu stormsveitarhermennirnir gríðarmikið bál þar sem um 25.000 bækur brunnu til kaldra kola.

Þegar árið 1933 var byrjað var að brenna á báli hingað og þangað í Þýskalandi bækur eftir gyðinga og „úrkynjaða“ rithöfunda. Þeir rithöfundar töldust vera úrkynjaðir sem andmæltu hugmyndafræði Þýskalands.

Við tók tímabil þar sem stjórnin kynnti til sögunnar ný leyfisbréf til handa læknum og tannlæknum.

 

Gyðingum var ekki lengur heimilt að verða sér úti um slík leyfisbréf og þeim var heldur ekki veitt leyfi til að starfa á sviði menningarmála, t.d. sem listmálarar eða leikarar.

 

Árið 1934 var gyðingum jafnframt bannað að ljúka námi fyrir lögfræðinga og lyfjafræðinga.

 

Gyðingahatur varð að lögum

Eftir tveggja ára valdatíð höfðu einræðisherrann og flokkur hans öðlast ótakmörkuð völd í Þýskalandi.

 

Á landsþingi flokksins í Nürnberg árið 1935 kynnti Hitler til sögunnar tvenn ný kynþáttalög sem höfðu þann tilgang að vernda Þýska ríkið gegn „gyðingaógninni“ og greiða götu fyrir hreinræktuðu, arísku Stór-Þýskalandi sem leiðtogann dreymdi um.

 

„Eina leiðin til að losna við vandann er að setja lög“, öskraði Hitler úr ræðustólnum.

 

Þegar ræðunni lauk ætlaði fagnaðarlátunum aldrei að linna. „Heil Hitler, heil Hitler, heil Hitler“, hrópuðu áheyrendur í kór en þeir hinir sömu samþykktu 15. september 1935 nýja löggjöf sem síðar meir varð þekkt undir heitinu Nürnberg-lögin.

 

Héðan í frá skyldu þýskir ríkisborgarar annað hvort vera með þýskt eða „tegundartengt“ blóð. Allir gyðingar í Þýskalandi misstu ríkisborgararétt sinn og lögin bönnuðu jafnframt hjónaband og kynmök gyðinga og Þjóðverja til að tryggja „hreinleika þýska blóðsins“.

 

Með vísan til „heilbrigðrar réttlætiskenndar þjóðarinnar“ var gyðingum meinaður aðgangur að menntun, leikhúsum, kvikmyndahúsum, bókasöfnum, almenningssamgöngutækjum og almenningsgörðum, líkt og gyðingabörnum var bannað að ganga í almenna skóla.

Gyðingum var alltaf kennt um allt

Hatrið gegn gyðingum var ekki eitthvað sem nasistar fundu upp. Allar götur höfðu gyðingar verið ásakaðir um að standa að baki alls kyns ógæfu, á borð við fjárhagskröggur og farsóttir.

– Fimmta öld fyrir Krist

Drottning kom í veg fyrir fjöldamorð á gyðingum

Í bók Esterar er sagt frá fyrirhuguðu blóðbaði á gyðingum í Persíu á 5. öld fyrir Krist.

 

Persakonungurinn Xerxes var kvæntur gyðingastúlkunni Ester en ráðherra hans, Haman, hafði reiðst frænda Esterar, að nafni Mordokaj.

 

Haman fyrirskipaði embættismönnum sínum að útrýma gyðingum og að gera eigur þeirra upptækar.

 

Ester kom upp um skelfileg áform Hamans og Xerxes konungur hefndi sín með því að láta myrða Haman og syni hans.

– 168 fyrir Krist

Sýrlenskur konungur bannaði gyðingatrú

Antiochos 4., konungur Selevkídaríkisins (Sýrlands) bannaði gyðingatrú og vanvirti bænahúsið í Jerúsalem í fyrstu átökunum sem vitað er til að tengst hafi gyðingahatri.

 

Tilgangur konungsins var að brjóta gyðingatrú á bak aftur og þvinga íbúana á svæðinu með valdi til að aðhyllast gríska menningu en gyðingarnir svöruðu aftur: Eftir þriggja ára bardaga tókst þeim að leggja aftur undir sig bænahúsið í Jerúsalem.

– Árið 38

Keisarastytta orsakaði blóðbað

Á meðan rómverski keisarinn Kalígúla var við völd áttu sér stað blóðugar gyðingaofsóknir í Alexandríu í Egyptalandi en þar bjuggu á þessum tíma um 200.000 gyðingar.

 

Gyðingarnir neituðu að viðurkenna Kalígúla sem guð og fyrir bragðið hrinti hann af stað allsherjar blóðbaði: Bænahús og gyðingaheimili voru brennd niður og ótalmargir gyðingar drepnir.

– 132-135

Rómverjar báru gyðingauppreisn ofurliði

Bann rómverska keisarans Hadríans gegn gyðingahefðum á borð við umskurð drengja hafði uppreisn í för með sér.

 

Með herforingjann Simon Bar Kochba í broddi fylkingar sögðu gyðingar Rómverjum stríð á hendur og náðu um stundarsakir Jerúsalem aftur á sitt vald.

 

Rómverska ofureflinu tókst þó að lokum að brjóta uppreisnina á bak aftur en hún hafði kostað um hálfa milljón gyðinga lífið.

– 1096

Kristnir krossfarar réðust á gyðinga

Þegar Úrban 2. páfi hafði hvatt til krossferðar gegn Múhameðstrúarmönnum árið 1095 lögðu allt að 100.000 evrópskir krossfarar af stað í átt til landsins helga.

 

Krossfararnir beindu þó ekki aðeins spjótum sínum að Múhameðstrúarmönnum í Miðausturlöndum, heldur stunduðu þeir á ferð sinni gegnum Vestur-Evrópu jafnframt blóðugar árásir á ýmis gyðingasamfélög í Þýskalandi og Frakklandi.

 

Í bænum Mainz voru sem dæmi myrtir 1.100 íbúar á einum degi.

– 1171

Gyðingar brenndir á báli eftir rangar sakargiftir

Í bænum Blois í Norður-Frakklandi sagðist vikapiltur einn hafa séð rabbína kasta kristnu ungbarni í ána.

 

Í hefndarskyni fyrir þennan meinta glæp voru alls 32 gyðingar brenndir á báli.

 

Fjarstæðukenndar hugmyndir um að gyðingar myrtu kristin kornabörn í því skyni að nýta blóð þeirra í helgiathöfnum voru mjög algengar á 12. öld.

– 1215

Kirkjuþing þvingaði gyðinga til að ganga með merki

Á fjórða dómkirkjuþinginu í Róm samþykktu biskuparnir að gyðingar mættu einungis búa í tilteknum hverfum og að þeir yrðu að ganga með gyðingastjörnu.

 

Lögun merkisins var þó ekki fastsett og fyrir vikið var merkið breytilegt milli staða. Sums staðar var enn fremur skylda að ganga með bjöllur þannig að heyra mætti í gyðingunum úr fjarska.

– 1348-1349

Gyðingum kennt um Svarta dauða

Þegar Svarti dauði geisaði í Evrópu og hafði lagt hartnær helming allra íbúa þar að velli, staðhæfðu margir kristnir menn að gyðingar ættu sökina.

 

Sögusagnir hermdu að þeir hefðu eitrað vatnið í brunnum, ám og uppsprettum en enginn virtist kunna skýringu á því hvers vegna gyðingar létu lífið af völdum farsóttarinnar, ekki síður en aðrir.

 

Afleiðing þessara ásakana varð sú að 350 gyðingasöfnuðum var útrýmt, víðs vegar um Evrópu og í Strassborg einni voru alls 2.000 gyðingar myrtir á einum degi.

– 1543

Lúter kallaði gyðinga eiturnöðrur

Þýski guðfræðingurinn Marteinn Lúter lýsti í riti sínu „Um gyðinga og lygar þeirra“ gyðingum sem eiturnöðrum og sníkjudýrum sem hötuðust við alla kristna menn.

 

Hann hvatti fólk til að bera eld að húsum gyðinga og að brenna bænahús þeirra.

 

Gyðinga skyldi setja í nauðungarvinnu ellegar þvinga þá af landi brott.

– 1648

Kósakkar myrtu 100.000 gyðinga

Uppreisnarforinginn Bohdan Khmelnytskyj leiddi kósakka í blóðbaði gegn gyðingum en í fjöldamorði þessu myrtu kósakkar alls 100.000 karla, konur og börn úr hópi gyðinga. Kósakkarnir höfðu gert uppreisn gegn pólsku stjórninni og álitu gyðinga vera kúgara Póllands.

 

Garnir voru dregnar úr gyðingum, aðrir voru hoggnir í spað og hálshöggnir og enn aðrir steiktir á báli og étnir.

– 1881

Morðtilræði gegn keisaranum leiddi til ofsókna

Sprengjuárás gegn Alexander 2. keisara í Pétursborg í mars 1881 markaði upphafið að ofsafengnum árásum á gyðinga í Rússlandi.

 

Morðið framdi öfgasinnaður sósíalisti en margir Rússar voru þeirrar skoðunar að gyðingar hefðu staðið að baki árásinni og flykktust um göturnar fullir haturs og blóðþorsta.

 

Gyðingarnir urðu brátt fórnarlömb morða, rána og nauðgana dags daglega. Tala látinna var einkum há í Kænugarði og öðrum borgum í Úkraínu.

– 1903

Gyðingar myrtir eftir meint barnsmorð

Gyðingaofsóknir í borginni Kisjinjov sem í þá daga var höfuðborg rússneska héraðsins Bessarabíu, vöktu óhug um allan heim.

 

Ofsóknirnar kviknuðu í kjölfarið á sögusögnum um að gyðingar hefðu myrt kornabarn til að nota úr því blóðið í helgiathöfn.

 

Á þremur dögum myrtu borgarbúar 48 gyðinga, særðu 92 lífshættulega, auk þess sem 500 manns slösuðust.

Banatilræði olli ofbeldishrinu

Með lögum þessum útilokuðu nasistar gyðinga frá þjóðfélaginu, jafnvel þótt þeir síðarnefndu gætu enn lifað nokkurn veginn þolanlegri tilveru.

 

Haustið 1938 voru allar reglur hins vegar hertar.

 

Leynilögreglan, Gestapó, hóf nú umfangsmikla mannflutninga til einskismannslandsins á milli Þýskalands og Póllands.

 

Meðal þeirra sem þannig voru þvingaðir til að flytja búferlum var fjölskylda 17 ára pilts að nafni Herschel Grynszpan.

 

Foreldrar hans höfðu verið fluttir nauðungarflutningum frá heimilinu í Hannover í Þýskalandi til fátæks héraðs nærri landamærum Póllands.

Aðeins 17 ára gamall gyðingur, að nafni Herschel Grynszpan, skaut þýskan diplómata fimm skotum í magann með skammbyssu.

Sjálfur bjó Herschel ólöglega hjá frænda sínum í París og hugur hans var stöðugt hjá fölskyldunni og skelfilegum örlögum hennar.

 

Að lokum var pilturinn svo yfirbugaður af reiði, sorg og hefnigirni að hann tók til sinna ráða: Hinn 7. nóvember 1938 skaut hann þýskan diplómata í sendiráði Þjóðverja í París.

 

Fórnarlambið var 29 ára gamall sendiráðsritari að nafni Ernst vom Rath sem virtist þó fyrst í stað ætla að lifa af tilræðið en ástand hans var mjög óstöðugt.

 

Daginn eftir ætlaði allt um koll að keyra. Þýsku dagblöðin lýstu gjörvöllu gyðingasamfélaginu sem morðingjum sem hygðust ráða niðurlögum Þjóðverja með öllum ráðum.

 

Mótmæli og hefndaraðgerðir spruttu upp hér og þar í Þýskalandi næstu daga á eftir.

 

Í borginni Bad Hersfeld í héraðinu Hessen brenndu nasistar bænahús til grunna og í mörgum öðrum borgum mölvaði ævareiður múgurinn rúður í verslunum gyðinga og málaði slagorð á veggina, í líkingu við „Burt með gyðinga“.

„Þarf ég að segja ykkur af hvaða kynstofni svínið sem framdi óverknaðinn er? Hann er gyðingur!“

Úr ræðu Göbbels nokkrum klukkustundum áður en kristalsnóttin brast á.

Ernst vom Rath lést þann 9. nóvember 1938.

 

Þegar Hitler barst fréttin til eyrna að kvöldi sama dags, þar sem hann var staddur í München til að fagna 15 ára afmæli bjórstofuvaldaránsins, hvíslaði hann að Jósef Göbbels:

 

„Nú skulu gyðingar fá að finna fyrir reiði fólksins í eitt skipti fyrir öll. Leyfum flokksmeðlimum að leika lausum hala“.

Líkfylgd Ernsts vom Raths í Düsseldorf. Nasistarnir notuðu morðið á diplómatanum sem afsökun fyrir kristalsnóttinni og auknum gyðingaofsóknum í kjölfarið.

Að þessum orðum sögðum yfirgaf leiðtoginn veisluna án þess að halda ræðu, líkt og hann hafði ætlað. Þess í stað tók Göbbels til máls:

 

„Ernst vom Rath var góður og gegn Þjóðverji, dyggur þjónn ríkisins sem stuðlaði að velferð þjóðarinnar í starfi sínu í sendiráði okkar í Frakklandi. Viljið þið vita hvað henti hann? Hann var skotinn niður og er nú látinn“.

 

Göbbels leyfði boðskap sínum að seytla inn í vitund áheyrendanna í nokkrar sekúndur áður en hann barði í borðið og hækkaði rödd sína:

 

„Þarf ég að segja ykkur af hvaða kynstofni svínið sem framdi óverknaðinn er? Hann er gyðingur! Núna í kvöld er hann í fjötrum í París þar sem hann heldur því fram að hann hafi verið einn að verki og eigi sér enga samverkamenn. Við vitum betur, er það ekki?“ öskraði Göbbels.

 

Orð áróðursráðherrans lentu líkt og bylmingshögg í eyrum áheyrendanna. Flokksmeðlimirnir öskruðu á hefnd. Göbbels þaggaði niður í þeim og hélt áfram:

 

„Félagar, við getum ekki látið fréttir af þessu morðtilræði sem orð um eyru þjóta. Okkur ber að fordæma verknaðinn. Okkur ber að upplýsa þjóðina um verknaðinn og viðbrögð hennar hljóta að vera vægðarlaus, vafningalaus og rækileg“.

 

Göbbels höfðaði til hefndarþorsta öldunganna í flokknum og hvatti þá til að skipuleggja mótmæli þegar í stað.

 

Fundarmenn streymdu út úr salnum til að hringja í flokksfélaga sína.

 

Allar símalínur í Þýskalandi glóðu þegar foringjar hinna ýmsu nasistadeilda voru hvattir til að ráðast á bænahús gyðinga, gyðingaverslanir og heimili þetta sama kvöld.

 

Mótmælin og ofbeldið skyldu líta út fyrir að vera eins sjálfsprottið og frekast væri unnt.

Áróðursráðherra Hitlers, Jósef Göbbels, talaði aftur og aftur gegn gyðingum.

Hefnigjarn múgurinn réðst til atlögu

Eina mínútu fyrir miðnætti þann 9. nóvember barst slökkvistöðinni í München fyrsta brunaútkallið.

 

Mótmælendur höfðu mölvað rúðurnar í vefnaðarvöruverslun í eigu gyðinga í Augustenstrasse og kveikt í varningnum í útstillingarglugganum.

 

Þremur mínútum seinna barst önnur hringing: Eitt af bænahúsum borgarinnar stóð í björtum logum.

 

Fimm slökkvibílar voru lagðir af stað til að reyna að ráða niðurlögum eldsins. Þegar stormsveitarmeðlimirnir uppgötvuðu tilraunina til að slökkva eldinn skáru þeir á vatnsslöngurnar og dældu bensíni á eldinn.

 

Kristalsnóttin var hafin. Nasistar gáfu hatrinu lausan tauminn og fóru herskildi í rösklega eitt þúsund borgum og bæjum alla nóttina, beittu ofbeldi, kveiktu í og myrtu.

 

Stormsveitirnar réðust á gyðinga á götum úti, rændu verslanir, brutust inn á heimili gyðinga og hentu í sumum tilvikum íbúunum út um gluggana.

 

Í norðurhluta Bæjaralands var gyðingafjölskylda ein vakin upp um miðja nótt.

 

Tveir menn náðu heimilisföðurnum og tóku hann af lífi fyrirvaralaust.

 

Öðrum fjölskyldumeðlimi var rænt og farið með hann út í nærliggjandi skóg. Þar var hann bundinn við tré og notaður sem skotskífa.

 

Ofsóknirnar í Berlín fóru fram með skipulagðari hætti en annars staðar: Lögreglan setti upp vegartálma til að beina umferðinni fram hjá þeim hverfum sem lýðurinn fékk að leika lausum hala í.

 

Síðan voru byggingar gyðinga lokaðar af, klippt á símalínur og lokað fyrir rafmagn.

 

Í morgunsárið brunnu níu af tólf bænahúsum borgarinnar og í einni þeirra brann húsvörðurinn inni ásamt fjölskyldu sinni.

Kynþáttalög sett til að vernda Þjóðverja gegn gyðingablóði

Samkvæmt Nürnberg-lögunum frá árinu 1935 var íbúunum skipt í kynþáttahópa með hliðsjón af því hversu hátt hlutfall af þýsku blóði hver og einn var með í æðum sínum.

 

Strangar reglur voru settar í því skyni að þýskt blóð yrði ekki mengað af gyðingablóði. Lög þessi mynduðu grundvöllinn að kerfisbundnum ofsóknum gegn gyðingum sem síðar meir höfðu í för með sér kristalsnóttina og helförina.

 

Hreinræktaður Þjóðverji

Tvær þýskar ömmur og tveir þýskir afar táknaði að viðkomandi væri hreinræktaður Þjóðverji.

 

Hjónaband og kynmök milli Þjóðverja og gyðinga eða hálfgyðinga, voru með öllu bönnuð.

 

Hjónaband hreinræktaðra Þjóðverja og fjórðungsgyðinga voru þó leyfileg, því börn sem þannig væru getin yrðu þá einungis gyðingar að 1/8 hluta.

 

Hreinræktaðir Þjóðverjar gátu verið borgarar í þýska ríkinu.

 

Fjórðungsgyðingar

Fjórðungsgyðingur átti aðeins einn gyðing sem afa eða ömmu og fyrir vikið aðeins einn hálfgyðing að foreldri.

 

Fjórðungsgyðingar máttu ganga í hjónaband með Þjóðverjum, þar sem börn þeirra yrðu einungis gyðingar að 1/8 hluta og teldust fyrir vikið vera Þjóðverjar.

 

Fjórðungsgyðingar máttu þó ekki giftast öðrum fjórðungsgyðingum því börn þeirra myndu samkvæmt kynþáttakenningu nasistanna einnig verða fjórðungsgyðingar.

 

Hálfgyðingar

Hálfgyðingur sem einnig kallaðist „1. stigs blanda“, var einstaklingur sem átti tvo hreinræktaða gyðingaafa/-ömmur.

 

Hálfgyðingar urðu að biðja um sérstakt leyfi til að gifta sig og fengu oft aðeins leyfi til að ganga í hjónaband með gyðingum, öðrum hálfgyðingum eða þeim sem voru gyðingar að þremur fjórðu hlutum.

 

Hreinræktaðir gyðingar

Þeir sem áttu þrjá eða fjóra gyðingaafa/-ömmur töldust vera hreinræktaðir gyðingar, óháð trú.

 

Hreinræktaðir gyðingar máttu hvorki ganga í hjónaband né eiga kynmök við þá sem ekki voru gyðingar.

 

Gyðingar máttu ekki vera borgarar í þýska ríkinu, þeir misstu kosningarétt sinn og þá mátti ekki ráða til starfa hjá ríki né bæjarfélagi.

Í heilsubænum Baden-Baden handtók lögreglan karlmenn úr hópi gyðinga, alls um 80 menn, fór með þá á lögreglustöðina þar sem festar voru á þá stórar Davíðsstjörnur og þeir þvingaðir til að ganga með þær um göturnar og þola illskuleg hróp og köll áhorfenda.

 

Þegar hópurinn kom að bænahúsi heilsubæjarins ráku SS-menn fólkið inn fyrir með spörkum og höggum, þar sem gyðingarnir voru þvingaðir til að syngja baráttusöngva nasista og hafa eftir texta um óheiðarlegt eðli gyðinga úr Mein Kapf eftir Hitler.

 

Að því loknu ráku nasistarnir gyðingana út og kveiktu í bænahúsinu. Á meðan logarnir sleiktu bygginguna þvinguðu Þjóðverjarnir fanga sína upp í rútu sem ætlað var að flytja gyðingana í hinar illræmdu fangabúðir í Dachau.

 

Sömu örlög hlutu um 30.000 aðrir karlmenn af gyðingaættum þennan nóvembermánuð.

 

Allir voru þeir fluttir í nærliggjandi útrýmingarbúðir.

Bretar stofnuðu fyrstu fangabúðirnar

Þegar Búastríðið geisaði í Suður-Afríku á árunum kringum 1901 setti breska hernámsliðið á laggirnar fangabúðir á nokkrum stöðum í því skyni að uppræta skæruhernað óvinarins.

 

Bretar brenndu bæi Búanna til grunna, slátruðu kvikfénaði þeirra og lokuðu inni konur og börn til þess að þau yrðu ófær um að aðstoða hermennina.

 

Aðstæður í þessum fangabúðum sem voru alls 45 talsins, voru einkar ómannúðlegar.

 

Föngunum var troðið saman í tjöldum eða kofum þar sem ýmsir sjúkdómar á borð við taugaveiki, mislinga og skarlatssótt geisuðu af völdum óþrifalegra aðstæðna.

 

„Vögnum var ekið meðfram tjaldaröðunum til að sækja líkin. Dag hvern áttu sér stað greftranir“, segir Hester Uys sem var aðeins átta ára gömul þegar hún var lokuð inni í fangabúðunum.

 

Undir lok stríðsins var rösklega 100.000 konum og börnum haldið föngnum í búðunum en alls 20.000 þeirra létu lífið.

Gyðingar flýðu í óðagoti

Sjálfa kristalsnóttina var kringum 7.500 verslunum og heimilum í eigu gyðinga rústað, auk þess sem 267 bænahús voru skemmd eða brennd til grunna.

 

Ef marka má upplýsingar frá hinu opinbera lét 91 gyðingur lífið sökum ofbeldisins en í raun réttri létu mörg þúsund manns lífið, m.a. margir sem dóu næstu mánuðina á eftir í fangabúðunum.

 

Hartnær 300 gyðingakonur tóku líf sitt þessa nótt eftir að hafa misst heimili sín eða eiginmenn.

 

Eftir kristalsnóttina urðu gyðingar sjálfir að greiða fyrir að láta fjarlægja glerbrot af götunum og að taka til í brunarústunum þar sem staðið höfðu bænahús.

 

Þar að auki var gyðingasamfélagið dæmt til að greiða nasistum sekt sem nam einum milljarði ríkismarka.

 

Einu nasistarnir sem voru dæmdir fyrir ofbeldisverk kristalsnóttina skelfilegu voru þeir karlmenn sem höfðu nauðgað gyðingakonum.

 

Með því að nauðga þeim höfðu þeir nefnilega gerst brotlegir gegn Nürnberg-lögunum sem kváðu á um blátt bann við kynmökum milli þýskra ríkisborgara annars vegar og þeirra sem ekki voru af arískum uppruna hins vegar.

 

Kristalsnóttin markaði tímamót í lífi þýskra gyðinga: Eftir tæplega sex ára tímabil sem einkenndist af ofsóknum og mismunun var nú gengið í garð nýtt tímabil grimmilegra árása og morða.

 

Í kjölfarið á martröð kristalsnæturinnar flýðu tugþúsundir gyðinga úr landi og þar með rættist að sumu leyti draumur Hitlers um hreinræktað Þýskaland: Þegar stríðið braust út í september 1939, höfðu um 282.000 af rösklega hálfri milljón gyðinga í Þýskalandi þegar flúið land.

Lesið meira um gyðingaofsóknir

S. Friedländer: Nazi Germany and the Jews: The Years of Persecution: 1933-1939, W&N, 2007

G. Aly: Europe Against the Jews, Met. Books, 2020

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Stine Overbye

© Alamy/Imageselect,© Hulton Archive/Getty Images,© United States Holocaust Memorial Museum, © Scherl/Süddeutsche Zeitung Photo/Ritzau Scanpix,© Everett Historical/Shutterstock,© Getty Images,© Ann Ronan Picture Library/ Heritage Images/Imageselect

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Hvaða gerð geislunar er skaðlegust?

Náttúran

Hvað er svartur ís (frostrigning)?

Náttúran

Á Suðurskautslandinu myndast dularfull vök af og til – nú vita vísindamenn ástæðuna

Náttúran

Órangútanapi græðir sár

Lifandi Saga

Taipinguppreisnin: Blóðugasta borgarastríð sögunnar

Alheimurinn

Hvað eru sólblettir?

Maðurinn

Af hverju eru vélinda og barki svo nálægt hvort öðru?

Náttúran

Húðin ljær dýrum ofurkrafta

Lifandi Saga

Svört samviska Norðurlanda

Lifandi Saga

Hvað er Truman-kenningin? 

Maðurinn

Vísindin skoða fjórar mýtur um kulda

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is