Fáir muna eftir eins slæmu ári og árið 792. Hvert ógnvekjandi táknið á eftir öðru hafði birst í formi hvirfilvinda og harðvítugra þrumuveðra.
Hungursneyð hafði herjað á ríki Northumbria í norðausturhluta Englands. Hins vegar fannst munkunum í klaustrinu á eyjunni Lindisfarne þeir vera öruggir. Þeir báðu, lifðu fátæklega og helguðu líf sitt Guði.
En þegar munkar klaustursins komu út úr kapellunni eftir morgunbæn sína 8. janúar 793, sáu þeir tvö skip með drekahöfuð á leið til strandarinnar fyrir neðan klaustrið.
Þegar skipin voru komin á grunnt vatn stukku 100 þungvopnaðir og villimannslegir menn út úr skipunum og hlupu öskrandi í átt að skelfingu lostnum munkunum.
Nokkrir munkar féllu á kné og báðu ákaft til Guðs. Hinir hlupu inn í kirkju klaustursins. Þar heyrðu þeir í gegnum glugga kirkjunnar bænir klausturbræðra sinna sem brátt breyttust í nístandi sársaukaóp. Munkarnir krupu fyrir altarinu og báðust fyrir.
Víkingarnir rændu klaustrið
Bænirnar hjálpuðu ekki neitt. Kirkjudyrunum var sparkað upp og innan nokkurra mínútna hafði restin af varnarlausu munkunum verið höggin niður, í spað. Þungt hlaðnir helgum gull- og silfurfjársjóðum klaustursins yfirgáfu danskir víkingar staðinn.
Lindisfarne varð frægt fyrir fallega biblíu klaustursins frá 8. öld. Það er elsta biblía Englands.
„Heiðingjar vanhelguðu helgidóm Guðs, eyðilögðu hús og híbýli okkar og tróðu á líkum heilagra manna eins og þeir væru óhreinindi á götunni,“ skrifaði munkur í York um árásina.
Síðan bað hann bæn sem yrði endurtekin um alla Evrópu næstu 250 árin: „Ó, Drottinn, frelsaðu okkur frá reiði norrænna manna.“
Stofnað af írskum munki
Lindisfarne-klaustrið, þar sem fyrsta stóra þekkta víkingaárásin átti sér stað, var stofnað árið 635 af írska munknum Aidan.
Klaustrið fékk miklar peningagjafir frá Oswald konungi Northumbria sem vildi að land sitt yrði algerlega kristnað. Oswald trúði því að kristin kirkja gæti tryggt frið í óstöðugu konungsríkinu.
Konungurinn studdi Lindisfarne
Munkinum Aidan gekk mjög vel að útbreiða kristna boðskapinn í Northumbria og gaf konungur honum og hinum munkunum ríkulegar gjafir. Fljótlega áttu munkarnir fjármuni til að byggja glæsilega kirkju klaustursins úr steini. Hinar af byggingum klaustursins voru svo byggðar úr timbri.
Á 8. öld varð Lindisfarne svo útnefnt biskupssetur og völd klaustursins jukust enn frekar. Munkarnir stofnuðu klausturskóla sem þjálfaði trúboða.
Skólinn þjálfaði einnig embættismenn fyrir kirkjuna og konunginn. Þegar víkingar lögðu klaustrið að velli árið 793 var það því ein ríkasta og mikilvægasta trúarmiðstöð alls Englands.
Í dag er Lindisfarne klaustrið rústir einar. Stofnandi þess, Heilagur Aidan vakir þó enn yfir byggingum sínum.
Í dag er Lindisfarne klaustrið rústir einar. Stofnandi þess, Heilagur Aidan vakir þó enn yfir byggingum sínum.
Munkarnir flýja eyjuna
Á næstu 200 árum var klaustrið rænt margoft af víkingum. Margir munkar flúðu að lokum og skólanum var lokað.
Í lok 8. aldar var Lindisfarne loksins yfirgefið og biskupssetrið flutt til Durham á meginlandinu. En 100 árum síðar var klaustrið svo aftur endurbyggt sem nunnuklaustur en staðurinn varð aldrei aftur trúarlegur valdastaður.
Þetta afskekkta klaustur þjónaði þess í stað sem vistarvera fyrir aðalskonur sem höfðu fallið úr samfélagslegri náð eða gátu ekki gift sig.
Árið 1536 var klaustrið lagt niður þegar Hinrik VIII lokaði öllum klaustrum Englands og gerði land þeirra upptækt. Klaustrinu var leyft að grotna niður og varð að þeim fallegu og töfrandi rústum sem það er í dag.