Ef allt byggingarefni í framtíðarbækistöð manna á Mars ætti að koma frá jörðinni, þyrfti til þess svo ofboðslegt magn eldflaugaeldsneytis að það yrði einfaldlega allt of dýrt.
Þess vegna er nauðsynlegt að finna aðferðir til að breyta því efni sem til er á Mars í sterkt byggingarefni.
Nú stinga vísindamenn við Manchesterháskóla á Englandi upp á því að geimfararnir sjálfir framleiði hluta byggingarefnisins í líkömum sínum – blóð, svita og þvag.
Vísindamennirnir hafa gert tilraunir með blöndu prótínsins albumín sem er að finna í blóði manna og ryks með sömu eiginleika og ryk á Mars. Úr blöndunni varð efni sem þeir nefna AstroCrete og er jafnsterkt og steinsteypa.
Í tilraunum tókst rannsakendum að búa til AstroCrete með bæði tilbúnu tunglryki (til vinstri) og tilbúnu Marsryki (hægri).
Tilraunir í rannsóknastofu sýndu að AstroCrete þolir þrýsting upp á 25 megapasköl. Til samanburðar er þol venjulegrar steypu sem notuð er í húsbyggingar á bilinu 20-32 megapasköl.
Þvag gerir steypuna enn sterkari
Vísindamennirnir sýndu því næst fram á að sé efninu urea sem er að finna í svita og þvagi, bætt við blönduna fer þrýstingsþolið upp í 39,7 megapasköl.
Þrívíddarprentunin AstroCrete sýndi í þrýstiprófi að hún er sterkari en steypan sem notuð er í byggingar á jörðinni.
Vísindamennirnir hafa reiknað út að sex manna hópur geimfara gæti skilað af sér prótíni og urea sem dygði í 500 kg af AstroCrete í tveggja ára dvöl á Mars.
Þetta virðist kannski ekki mikið en sé efnið einungis nýtt í burðarvirki þar sem þörf er fyrir mestan styrk, getur það engu að síður dugað nokkuð langt. Samkvæmt útreikningunum gæti einn geimfari skilað nægu magni efnisins til að byggja þá viðbót við Marsbækistöð sem þarf til að hýsa einn geimfara.