Lifandi Saga

Martröð leigjendanna: Versti húsnæðisokrari Rómverska lýðveldisins

Mikill húsnæðisskortur ríkti í rómversku höfuðborginni og þessa neyð notfærði auðjöfurinn Marcus Crassus sér. Hann fjárfesti í lélegustu risíbúðum borgarinnar og leigði þær fátæklingum. Húsin reyndust vera hinar verstu dauðagildrur.

BIRT: 21/12/2022

Logarnir sleiktu húsveggina. Einn eitt fjölbýlishúsið í Róm stóð í ljósum logum. Óttaslegnir íbúarnir þyrptust út á götu. 

 

Á fyrstu öld eftir Krist voru útleiguhúsin í borginni, sem gátu verið allt að níu hæða há, reist úr viðarstólpum og fyllt upp í veggina með þurri mold. Eldsvoðar gerðu mjög reglulega vart við sig og eldurinn breiddi úr sér á ógnarhraða. 

 

Eigendur húseignanna komu hlaupandi og horfðu örvæntingarfullir á fasteignir sínar verða eldi að bráð og breytast í ösku. Hópur þræla birtist í mannmergðinni, haldandi á vatnsfötum, hökum og stigum.

 

Í stað þess svo mikið sem að reyna að slökkva gráðugan eldinn stilltu þeir sér einfaldlega upp og biðu, á meðan þeir horfðu niður eftir götunni. Út úr skuggunum birtist kaldranalegur karlmaður, sem af dýrum fatnaðinum að dæma hlaut að vera einn af auðmönum borgarinnar. 

Crassus var sonur öldungaráðsmanns. Faðir hans og tveir bræður höfðu látist í borgarastríðinu í Rómverska lýðveldinu.

Virðulegi herrann stikaði rakleiðis til eigandans sem stóð þarna með grátstafinn í kverkunum. Eigandanum til mikillar undrunar bauðst maðurinn til að kaupa brennandi eignina hér og nú, en á gjafverði.

 

Eldtungurnar náðu nú hærra og hærra upp eftir veggjunum á meðan maðurinn beið rólegur svars.

 

Að lokum gafst eigandinn upp og samþykkti að selja fyrir verð sem nam einungis broti af því verði sem húsbyggingin hafði verið metin á einungis klukkustundu fyrr.

 

Þegar hér var komið sögu gaf maðurinn þrælunum merki með höfðinu og þeir hófust þegar handa við að slökkva eldinn með vatni sem þeir sóttu í fötur sínar í hverfisbrunninum.

 

Maðurinn var horfinn á braut við sólsetur og eftir stóð sótsvart húsið. Þrælarnir pökkuðu útbúnaði sínum saman eftir að þeir höfðu tryggt eiganda sínum, skuggamanninum Crassusi, enn ein frábær kaupin.

 

Marcus Crassus var ríkasti maður Rómverska lýðveldisins og jafnframt samviskulausasti húsnæðisbraskari Rómaborgar, sem þekkti engin takmörk þegar kom að því að sölsa undir sig eignir og þvinga fé út úr löglausum fasteignamarkaðinum.

Slökkvilið Crassusar samanstóð af þrælum en því var alls ekki ætlað að bjarga mannslífum, heldur að útvega honum húsnæði á gjafverði, sem hann gæti leigt út.

Fjölbýlishús fylltu Rómaborg

Á tímum Crassusar var húsnæðismarkaðurinn í Rómaborg einkar arðvænlegur, eftir hartnær tíu ára langt borgarastríð sem færði herstjóranum Sulla völdin árið 82 f. Kr. Hinn hefnigjarni Sulla lét taka þúsundir andstæðinga sinna af lífi og bauð upp húseignir þeirra, sem þýddi það í raun að hann lét gera eignirnar upptækar.

 

Þar sem margir af óvinum einræðisherrans tilheyrðu efri stéttum samfélagsins var iðulega um að ræða glæsihallir með hallargörðum umhverfis, ríkmannlegum húsbúnaði og þrælum.

 

Ákafasti kaupandinn var Crassus.

 

„Þegar Sulla komst til valda í borginni og seldi eignir þeirra sem hann hafði látið drepa, þreyttist Crassus aldrei á að taka við þeim eða að kaupa þær“, ritaði grísk-rómverski sagnfræðingurinn Plutarch.

 

Crassus bauð allt niður í 10% af raunvirði húsnæðisins, án þess sem mikið sem að skammast sín fyrir, og enginn þorði að bjóða hærra en Crassus af ótta við að reyta Sulla til reiði og Crassus seldi eignirnar síðan áfram til nýríkra vina einræðisherrans. Og stórgræddi á viðskiptunum.

 

Sagnfræðingurinn Plutarch áleit þó að Sulla hafi að lokum ofboðið græðgin í Crassusi:

 

„Sagt er að hann hafi gert mann í Bruttium útlægan og gert eigur hans upptækar, án þess svo mikið sem að ráðfæra sig við Sulla, einungis til að komast yfir eignir hans“.

 

Þegar sala á glæsihúsum fór að líða undir lok fór Crassus að líta fjölbýlishúsin hýru auga. Sala á þeim var í miklum vexti eftir borgarastríðið og iðnaðarmenn, daglaunamenn og sölumenn streymdu til borgarinnar með fjölskyldur sínar til að vinna fyrir sér og hefja nýtt líf.

Sulla hélt lista yfir þá óvini sem skyldu drepnir dag hvern og listar þessir fylltu borgarbúana skelfingu.

Blóðug átök færðu Crassusi mikinn auð

Crassus glataði öllum fjölskylduauðævunum sem ungur maður sökum þess að tveir helstu andstæðingarnir á stjórnmálasviðinu háðu opið stríð hvor við annan. Crassus lifði átökin reyndar af og notfærði sér síðan ringulreiðina sem ríkti í kjölfarið til að byggja upp viðskiptaveldi sitt.

 

Æskuár Markusar Crassusar voru ein samfelld sorgarsaga. Árið 87 f. Kr. braust út styrjöld milli tveggja helstu stjórnmálaleiðtoganna í Róm: Lýðskrumarans Gaius Maríusar og leiðtoga íhaldsaflanna, Lucius Sulla. Ræðismaðurinn Cinna studdi Maríus, en sá síðarnefndi var gerður útlægur úr borginni þetta sama ár.

 

Cinna náði síðan Rómverska lýðveldinu á sitt vald, ásamt Maríusi, og þeir hófu herferð gegn  stuðningsmönnum Sulla. Faðir Crassusar og bræður hans tveir létust í átökunum og auðævi fjölskyldunnar voru gerð upptæk. Crassus neyddist til að flýja til Spánar, þá 28 ára að aldri. 

 

Maríus andaðist ári síðar en Cinna var hins vegar myrtur árið 84 f. Kr. Þá hélt Sulla til Rómaborgar með her sinn og Crassus gekk samstundis til liðs við hann. Þegar Sulla hafði náð völdum í borginni lét hann birta svokallaðan útskúfunarlista dag hvern yfir þá óvini sína sem hver og einn mátti myrða gegn greiðslu.

 

Mörg þúsund manns voru drepin í kjölfarið og eignir þeirra seldar. Einn ákafasti kaupandinn var Crassus sem eignaðist þannig hvert húsið á fætur öðru fyrir gjafverð. Með þessu móti tókst honum að komast yfir sambærileg auðævi og fjölskyldan hafði glatað og meira til í raun og veru.

Íbúafjöldinn óx úr 400.000 kringum 80 f. Kr. upp í um það bil eina milljón þegar Ágústus keisari lét gera fyrsta manntalið árið 28 f. Kr.

 

Leiguhúsnæði á m.a. Aventino-hæðinni, þar sem verkamennirnir bjuggu, var reist á mettíma til að anna eftirspurn. Þessi mikla efnahagsuppsveifla gaf samviskulausum mönnum eins og Crassusi byr undir báða vængi.

 

Húsaleigan innan Rómaborgar var fjórfalt hærri en utan borgarinnar og fyrir bragðið keyptu húsnæðisbraskarar upp ógrynni fjölbýlishúsa sem nefnd voru „insulae“. Orðið táknar eyjar, því leiguhúsnæðið minnti einna helst á eyjar, umkringdar götum á alla vegu. Rómaborg var innilokuð á bak við háa borgarmúra og fyrir vikið var allt gert til að nýta sem best þá 4 km2 sem borgin hafði yfir að ráða og það var auðvitað best að gera með því að byggja allt að níu hæða háar byggingar.

 

Þetta þétta byggingarform var einkar almennt. Samkvæmt útreikningum nútímans var að finna um 46.500 svokallaðar „eyjar“ á tímum Crassusar. Innan við fjögur prósent allra bygginga í borginni voru auðmannaheimili, svokölluð „domus“.

 

Crassus fékk enn ábatasamari hugmynd.

Sérstakt slökkvilið

Eftir því sem fjölbýlishúsunum fjölgaði, hækkaði lóðaverðið að sama skapi. Byggingarrýmið var fyrir bragðið nýtt til hins ýtrasta. Tvær „eyjar“ mátti staðsetja svo þétt upp við hvor aðra að einungis örmjótt sund skildi þær að.

 

Samkvæmt munnmælasögum þurftu leigjendur aðeins að rétta höndina út um gluggann sinn til að geta heilsað nágrannanum hinum megin við sundið með handabandi. Byggingar þessar, sem voru byggðar úr tígulsteini, timbri og þurri mold, voru að sama skapi algerar eldgildrur.

„Þegar eldur logar á þriðju hæð, þá hafa þeir sem búa efst uppi ekki grænan grun um það! Þeir uppi á efstu hæðinni stikna fyrir vikið með skelfilegum hætti“

Ritaði rómverski háðsádeiluhöfundurinn Juvenal.

Allir lýstu upp með olíulömpum og hituðu upp með kolum. Ekki þurfti nema einn neista til að kveikja í þurru tréverkinu og það gerðist iðulega. Dag hvern urðu minnst 20 stórbrunar í Róm, hafa fræðimenn reiknað út.

 

Í Rómaborg var ekkert brunalið og ef eldurinn náði tökum voru dagar leigjendanna taldir, einkum á efstu hæðunum, því ekki var heldur um að ræða neina brunastiga.

 

„Þegar eldur logar á þriðju hæð, þá hafa þeir sem búa efst uppi ekki grænan grun um það! Þeir uppi á efstu hæðinni stikna fyrir vikið með skelfilegum hætti“, ritaði rómverski háðsádeiluhöfundurinn Juvenal.

 

Hann segir frá manni að nafni Codrus sem varð heimilislaus eftir að íbúðin hans brann. Hann slapp hins vegar lifandi og hafði með sér sex leirkrukkur, einn bekk og örfáar grískar bækur sem mýsnar höfðu nartað í:

 

„Nakinn og betlandi um matarleifar. Enginn vill hins vegar hjálpa honum með mat og enginn vill veita honum húsaskjól“.

 

Hinn hugvitssami Crassus sá hins vegar gráupplagt tækifæri í eldsvoðunum og hann kom sér þess vegna upp 500 manna slökkviliði, sem samanstóð af þrælum.

 

„Hann keypti logandi hús og hús sem stóðu þétt upp við brennandi byggingar, því eigendurnir voru tilbúnir til að selja fyrir slikk sökum hræðslu“, ritaði grísk-rómverski rithöfundurinn Plutarch.

Rómverjar notuðu kolalaugar með glóandi kolum til matargerðar og sérstaklega til að halda á sér hita á veturna. En brunahættan var mikil.

Þegar eldsvoði kom upp, ruku þrælarnir af stað, en þeir aðhöfðust ekkert fyrr en viðskiptin voru um garð gengin. Ef eigandinn örvæntingarfulli hafnaði tilboði Crassusar bauð braskarinn einfaldlega lægra verð í næsta tilboði sínu, því í millitíðinni hafði byggingin glatað enn meira verðgildi! Þannig tókst Crassusi að kaupa upp byggingar fyrir brot af upprunalegu verðgildi þeirra.

 

Um leið og viðskiptin höfðu verið innsigluð hófust þrælarnir handa við að slökkva eldinn. Þrælarnir vörðu húsin í næsta nágrenni gegn eldi með því að strengja vota dúka yfir veggi þeirra og þök.

 

Með þessu móti tókst Crassusi ekki einvörðungu að komast yfir brennandi byggingar fyrir hlægilegt verð, heldur einnig nágrannabyggingarnar sem sloppið höfðu við eldinn. Þegar svo slokknað var í öllum glóðum þyrptust þrælarnir inn í byggingarnar og hófust handa við að leggja ný gólf, koma upp veggjum og reisa ný þök í stað þeirra ónýtu.

 

„Þannig tókst honum að komast yfir bróðurpartinn af byggingunum í Rómaborg,“ skrifaði Plutarch. 

 

Allir óttuðust hrun

Viðgerðir á byggingum sem brunnið höfðu fólust oftar en ekki í að lappað var upp á húsin því engin byggingarreglugerð var í gildi í Rómverska lýðveldinu. Þökin á sumum húsunum voru svo hroðvirknislega unnin að fótgangendur niðri á götunni áttu á hættu að fá þaksteina í höfuðið. 

Rennandi vatn var einungis að hafa á neðstu hæðunum. Allir þurftu að burðast með vatn utan af götu og upp alla stigana.

Margar þessara svonefndu „eyja“ voru byggðar úr afar lélegum efniviði til þess eins að eigandinn gæti sem fyrst farið að borga upp það sem hann hafði lagt í bygginguna með því að leigja húsnæðið örvæntingarfullu fólki í sem vantaði þak yfir höfuðið.

 

Byggingarefni var sparað út í ystu æsar með því að reisa jarðhæðina úr múrstein og afgang hússins úr timbri. Í húsnæðinu á jarðhæð var m.a. að finna kjötgerðarmenn, sútara og bakara. Á heitum dögum angaði öll gatan af blóði og húðum sútaranna, sem voru meðhöndlaðar megi þvagi. Fnykurinn barst einnig upp í sjálfar íbúðirnar.

 

Þunnar gólffjalirnar voru rammskakkar og þaktar rifum, sökum þess að timbrið hafði ekki náð að þorna almennilega. Skilrúmin milli íbúðanna voru einungis 2 cm þykk og samanstóðu af fjölum sem örþunnt lag af kalki hafði verið borið á.

 

Útveggurinn var 18-21 cm á þykkt og samanstóð af einfaldri röð múrsteina sem voru festir með blöndu af þurri mold og grjótmulningi.

 

Rómverski arkitektinn Vitruv sagði mannvirkin vera afar varasöm.

 

„Múrsteinsveggir, sem eru ekki nema tveir eða þrír múrsteinar á þykkt, halda ekki uppi nema einni hæð“, ritaði arkitektinn sem aðvörun í riti sínu „Um húsagerðarlist“ u.þ.b. 20 árum fyrir Krist.

„Tvær verslana minna hafa hrunið og í hinum hluta byggingarinnar eru sprungur.“

Sagði rómverski stjórnmálamaður Cicero um eitt af leiguhúsnæðunum hans

Þegar byggingarnar voru orðnar allt að níu hæða háar urðu þær svo óstöðugar að stífa þurfti viðarbjálka á milli tveggja bygginga til að koma í veg fyrir að þær legðust hvor utan í aðra.

 

„Það er þannig sem leigusalinn heldur óstöðugum húsunum uppi. Hann lappar upp á opnar sprungur í gamla múrnum og býður leigjendunum að sofa rótt undir húsþaki sem er í þann veginn að hrynja niður á höfuðið á þeim“, ritaði háðsádeiluhöfundurinn Juvenal.

 

Þrátt fyrir styrktarbjálka og viðgerðir á götum í múrnum nægði ein hressileg rigning til að fá hús til að hrynja.

 

„Tvær verslana minna hafa hrunið og í hinum hluta byggingarinnar eru sprungur. Ekki nóg með að leigjendurnir séu flúnir, heldur hafa mýsnar einnig látið sig hverfa“, sagði hinn þekkti stjórnmálamaður Cicero, sem einnig græddi á því að leigja út íbúðir í fjölbýlishúsum.

 

Fyrirfólk notfærði sér húsnæðisskortinn

Crassus tímdi nánast engu fé að verja í viðgerðir. Ef einhver „eyjan“ reyndist vera orðin of léleg  lét hann þræla sína einfaldlega rífa hana niður. Lóðin, sem byggingin hafði staðið á, var þá seld hæstbjóðanda.

 

Enginn hörgull var á kaupendum því yfirstéttin vildi umfram allt fjárfesta í fasteignum. Stjórnmálamenn og efnafólk áleit húsnæðisbrask vera heiðarlegri leið til að græða fé en t.d. fyrirtækisrekstur.

Ráðist á leigjendur úr öllum áttum

Lögin voru hliðholl leigusölunum. Væri húsaleigan ekki greidd á réttum tíma mátti reka leigjendurna á dyr fyrirvaralaust og jafnframt selja húsbúnað þeirra. Aðrir neyddust til að flytja ef í ljós kom að leigusali þeirra var alls ekki eigandi eignarinnar.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Þrátt fyrir hættuna á að grafast undir múrsteinshaugum var slegist um jafnvel lélegasta húsnæðið í „eyjunum“. Ef enga íbúð var að hafa var hinn kosturinn fólginn í því að búa á götunni, undir brúnum eða í grafhýsunum þeirra látnu fyrir utan bæinn, þar sem þjófar og morðingjar voru á ferli á nóttinni.

 

Laust húsnæði var auglýst á veggspjöldum sem var hengt upp á húsmúrana í Rómaborg. Leigusamningurinn fólst í munnlegu samkomulagi við umboðsmann eigandans og milligöngumaður sá um að innheimta húsaleiguna. Í millistéttar-„eyjum“ svaraði dagleg leiga til fimm koparpeninga.

 

Sú upphæð samsvaraði um hálfum lítra af borðvíni eða um það bil hálfum dagvinnulaunum iðnaðarmanns. Í fátækrahverfum Rómaborgar greiddu leigjendurnir leigu sem samsvaraði tveimur til þremur koparpeningum á dag.

„Nú þarf ég ekki lengur að útvega fé fyrir húsaleigu, því ég hef fengið frítt húsaskjól að eilífu“.

Áletrun á legstein sem fannst fyrir utan Róm.

Umboðsmaðurinn í byggingunni rak á dyr þá sem ekki gátu greitt leiguna en hann hafði oft yfir að ráða heilum her manna sem sá um að innheimta húsaleiguna og að berja óstýriláta íbúa til hlýðni.

 

Íbúarnir í betri hverfum borgarinnar greiddu húsaleiguna í eitt ár í senn en áttu þó einnig á hættu að verða bornir út ef leigan barst ekki á réttum tíma. Ljóðskáldið Martial mætti eitt sinn vini sínum á götu með alla fjölskylduna og húsgögnin:

 

„Ég sá húsbúnaðinn þinn, Vacerra. Eiginkona þín bar húsbúnaðinn á brott eftir að hafa verið neitað um að greiða tveggja ára húsaleigu með honum“.

 

Sorgir leigjendanna lýsa sér kannski best í grafskriftinni yfir hinum 43 ára gamla Rómverja, Ancarenus Nothus, þar sem hann gleðst því að hafa að lokum fundið ró:

 

„Nú þarf ég ekki lengur að útvega fé fyrir húsaleigu, því ég hef fengið frítt húsaskjól að eilífu“.

LESTU EINNIG

Leigjendurnir skiptust á flóm og sjúkdómum

Til þess að komast hjá því að vera varpað á dyr urðu margir leigjendur að láta sér nægja að deila húsnæði með alls óskyldu fólki, t.d. daglaunamenn. Ef launin brugðust gátu þeir hlaupið undir bagga hver með öðrum.

 

Slíkt sameiginlegt húsnæði var iðulega að finna á efstu hæðum „eyjanna“ og kallaðist „klefar“ því húsnæðið fólst oft aðeins í einu herbergi.

 

Herberginu var stundum skipt milli fleiri fjölskyldna. Allt að tíu manns gátu búið í einum hnapp á 10 fermetrum, eða minna rými. Þá hékk kannski uppi dúkur sem notaður var til að greina eitt heimilishaldið frá öðru.

Júlíus Sesar hefði aldrei komist til valda á rómversku stjórnmálasviði ef ekki hefði verið fyrir örlát lán Marcusar Crassusar.

Crassus fjármagnaði starfsferil Sesars

Crassus notaði auðævi sín á þann hátt að hann lánaði fyrirfólkinu í Rómaborg háar upphæðir, en meðal þeirra sem þáðu lán hjá honum var hin alræmda eyðslukló Júlíus Sesar. Þannig komst Crassus til valda í Rómverska lýðveldinu þegar Sesar innleiddi hið svonefnda þrístjóraveldi.

 

Peningar táknuðu völd í Róm og Crassus veitti stjórnmálamönnum hagstæð lán til að geta haft áhrif á þá.

 

„Hann lánaði vinum sínum fé án þess að innheimta vexti en þegar lánstíminn var útrunninn krafðist hann þess miskunnarlaust að fá upphæðina endurgreidda“, ritaði Plutarch, sem jafnframt hefur bent á að margir hafi frekar kosið að borga háa vexti.

 

Þetta átti hins vegar ekki við um hinn þrítuga Júlíus Sesar, sem gerði sér vonir um að komast til metorða á sviði stjórnmála en átti ekki fimmaur með gati. Crassus lánaði honum fé, sem Sesar varði í stórkostlegar áróðursherferðir og skylmingaþrælakappleiki, sem færðu honum verulega miklar vinsældir en kostuðu óheyrilegar upphæðir.

 

Árið 63 f. Kr. var Sesar orðinn æðstiprestur og ári síðar hreppti hann embætti dómara, sem var næsta þrep fyrir neðan alræðismann. Sesar var aftur á móti stöðugt í peningavandræðum. Einungis tveimur árum síðar varð Crassus aftur að hlaupa undir bagga og lána honum himinháa upphæð, alls 830 rómverskar talentur.

 

Líkt og Crassus hafði bundið vonir við rak Sesar minni til greiðans og árið 60 f. Kr. bauð sá síðarnefndi velgjörðarmanni sínum sæti í nýju ríkisstjórninni, þrístjóraveldinu. Crassus var nú orðinn einn af þremur valdamestu mönnunum í Rómverska lýðveldinu, en hinir voru Sesar og hershöfðinginn Gnaeus Pompejus.

Borin von var að eiga sér neitt einkalíf í „eyjunum“. Allir gátu fylgst með því hvenær nágrannarnir stunduðu kynlíf, að ekki sé minnst á konur sem voru að fæða börn í heiminn, en óp þeirra heyrðust um gjörvalla bygginguna.

 

Klefarnir voru lélegasta húsnæðið, m.a. sökum þess að íbúarnir þurftu dag hvern að fara upp alla stigana. Ekki var óvanalegt að þurfa að klífa upp 200 þrep í einu.

 

Á sumrin bakaði sólin þök bygginganna sem gerði það að verkum að nánast ólíft var í „klefunum“ sökum hita. Þegar veturinn gerði vart við sig og snjór eða rigning herjaði á íbúana voru „klefarnir“ ísjökulkaldir sökum þess hve óþéttir þeir voru og ekki hjálpuðu þunnir veggir bygginganna til.

 

Mjög fáir gluggar prýddu húsin og stutt var yfir til nágrannanna, sem gerði það að verkum að mjög lítil dagsbirta barst inn í „eyjarnar“. Íbúarnir höfðu fyrir vikið kveikt á ósandi olíulömpum allan sólarhringinn, ef þeir þá höfðu efni á því.

 

Þrengslin og sorpið frá íbúðunum, auk fullra næturgagna undir hverju rúmi, gerðu það að verkum að sjúkdómar geisuðu og meindýr lifðu góðu lífi. Alls staðar í byggingunum var að finna lýs, flær og kakkalakka.

 

Faraldrar geisuðu ítrekað í Rómaborg, t.d. taugaveiki, niðurgangur og malaría, þar sem íbúarnir lifðu „í litlum íbúðum sínum í hita, svefnleysi og í náinni snertingu við aðra“, ritaði rómverski sagnfræðingurinn Tacitus.

 

Íbúarnir þurftu jafnframt að þola ódaun sem barst neðan frá. Væri að finna almenningssalerni á neðstu hæðinni, barst óþefurinn af saur og þvagi upp á allar hæðirnar.

 

Lögin vernduðu húsnæðisokrarann

Þrátt við aumar og í raun lífshættulegar aðstæður í lélegasta húsnæðinu í Rómaborg hefur fræðimönnum ekki tekist að finna eitt einasta dómsmál þar sem leigjandi hefur kvartað yfir aðstæðunum eða leigusalanum.

 

Vonlaust var að höfða mál í rómverska réttarkerfinu, nema þá leigjandinn hefði nægilegt fé á milli handanna. Það eitt að höfða mál með aðstoð lögfræðings kostaði 250 sestertíur, sem samsvaraði þre- eða fjórföldum mánaðarlaunum iðnaðarmanns.

 

Margir leigjendur pökkuðu fyrir vikið föggum sínum saman og fluttu út fyrirvaralaust. Oft gafst leigusalinn upp á því að innheimta leiguna sem í skuld var. Þess í stað flýtti hann sér að leigja húsnæðið öðrum.

 

Þar sem engin lög vernduðu leigjendurna og engar lágmarkskröfur fyrirfundust um húsnæði gat Crassus haldið starfsemi sinni áfram óáreittur. Við þetta má svo bæta því að enga aðstoð var að hafa fyrir þá sem vildu höfða mál. Handverksþrælarnir þáðu engin laun og salan á höllum, húsum og lóðum gekk eins og í sögu. Við þetta bættust svo leigutekjur af þúsundum „eyja“.

 

Árið 71 f. Kr. var Crassus orðinn svo efnaður að hann gat haldið úti 40.000 hermanna her sem braut á bak aftur uppreisn sem þrællinn Spartakus stóð fyrir.

Crassus gjörsigraði þrælaher Spartakusar og fyrirskipaði krossfestingu þeirra 6.000 þræla sem komust lífs af, meðfram Via Appia.

„Maður er ekki auðugur nema að hann geti haldið úti her sem hann fjármagnar sjálfur“, státaði Crassus sig af þegar hann var inntur eftir því hvers vegna hann eyddi stórfé í útbúnað, vopn og mannskap.

 

Sigurinn yfir þrælahernum gerði Crassus að þjóðhetju. Frægðin og hagstæð lán til handa yfirstéttinni í Rómverska lýðveldinu aðstoðuðu braskarann við að ná langt á sviði rómverskra stjórnmála og 60 árum fyrir Krist var Crassus orðinn meðlimur hins svonefnda þrístjóraveldis, þ.e. nýju ríkisstjórnarinnar í Róm, ásamt m.a. Júlíusi Sesar.

 

Velgengnin steig Crassus aftur á móti til höfuðs. Þegar hann fór að lengja eftir fleiri auðævum sagði hann Persum stríð á hendur, í því landi sem nú kallast Íran. Crassus hafði takmarkaða reynslu af stríðsrekstri og það varð honum að falli. Árið 53 fyrir Krist biðu húsnæðisbraskarinn og her hans ósigur gegn Persum.

 

Plutarch segist svo frá að Crassusi hafi tekist að safna 230 tonnum af gulli, en um var að ræða meiri auðævi en fyrirfundust í gjörvallri fjárhirslu Rómverska lýðveldisins. Bróðurparturinn hafði verið píndur út úr fátækustu íbúum borgarinnar. 

Crassus vanmat riddaralið Parþíumanna sem braut á bak aftur hersveitir hans við borgina Harran.

Persar slökktu gullþorsta Crassusar

Crassus stóð í skugganum á bandamönnum sínum, Sesari og Pompeiusi. Í því skyni að tryggja sér hernaðarlega vegsemd, auk þess að komast yfir fleiri eignir, réðst Crassus inn í persneska Parþíaríkið. Innrásin endaði með ósköpum.

 

Fullur sjálfstrausts sigldi Crassus yfir ána Efrat árið 53 f. Kr. og hélt áfram sem leið lá frá Sýrlandi og inn í persneska Parþíaríkið. Meðferðis voru 40.000 hermenn sem hann greiddi laun úr eigin vasa. Tvö árin á undan hafði hann ráðið ríkjum í rómverska héraðinu Sýrlandi og rænt öllu gulli þeirra innfæddu sem hann komst yfir.

 

Þegar þarna var komið sögu hugðist hann raka að sér gríðarháa skatta Persanna með því að leggja undir sig landið. Ef honum tækist að sigra erkióvininn myndu tíðindin auðvitað berast til Rómar og færa honum jafnmikla aðdáun og bandamenn hans á stjórnmálasviðinu nutu, yfirhershöfðingjarnir Júlíus Sesar og Gnaeus Pompejus.

 

Ættbálkahöfðingja einum tókst að telja Crassusi trú um að óvinir hans væru færri en raun bar vitni. Crassus lét í barnaskap gabba sig út á eyðimörkina þar sem Persarnir veittu honum fyrirsát. Heill urmull af persneskum örvum hæfðu Rómverjana allt þar til Crassus fyrirskipaði mönnum sínum að hörfa aftur til borgarinnar Harran.

 

Minnst helmingur rómversku hermannanna féll í bardaganum um borgina og Crassus var sjálfur einnig veginn. Ef marka má rómverska rithöfundinn Dio Cassius helltu Persarnir bræddu gulli upp í munninn á hinum látna Crassusi, til þess að hann mætti endanlega fá slökkt gullþorsta sínum.

Hér má lesa meira um Crassus og leiguhúsnæði í Rómaborg

  • Bruce W. Frier: Landlords and Tenants in Imperial Rome, Princeton University Press, 2014

 

  • Robert Lerner: The Entrepreneurial Thinking of Marcus Crassus, eigin útgáfa, 2020

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Natasja Broström, Niels-Peter Granzow Busch

© Bridgeman Images & Shutterstock. © Miłek Jakubiec/Historiebladet. © Bridgeman Images. © Photo Scala, Florence & Shutterstock. © AKG-images/Peter Connolly. © Look and Learn/Bridgeman Images. © Giancarlo Costa/Bridgeman Images. © Giuseppe Rava. All Rights Reserved 2021/Bridgeman Images.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

Náttúran

Greind í heimi dýranna

Alheimurinn

Hér eru sannanirnar fyrir Miklahvelli

Náttúran

Nýfundin risaeðla með furðu smáa framlimi

Lifandi Saga

Veislubúningar varðmanna Nixons aðhlátursefni

Náttúran

Hvað eru doppleráhrif?

Spurningar og svör

Af hverju eru sítrónur súrar?

Maðurinn

Hvernig framleiðir líkaminn orku úr fæðunni?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.