Lifandi Saga

Morð framin með eitri ýttu undir löglega hjónaskilnaði

Breskar konur fundu sér leið út úr hamingjusnauðum hjónaböndum, þ.e. með því að nota rottueitur. Mýmargir látnir eiginmenn vöktu grunsemdir stjórnmálamanna og neyddu þá til að auðvelda konum að fá lögskilnað, til þess beinlínis að bjarga lífi karlanna.

BIRT: 15/08/2024

Arseník sem var í raun rottueitur, var notað í fatnað, hattagerð og veggfóður á 19. öld, því það gaf varningi þessum eftirsóttan smaragðsgrænan lit. Hugvitssamar konur áttuðu sig á öðru notagildi eiturefnisins sem hvorki var lykt né bragð af.

 

Morðin á bresku eiginmönnunum komust á forsíður dagblaðanna á árunum upp úr 1820 og lesendur ráku upp ramakvein með þeim afleiðingum að yfirvöld neyddust til að takmarka sölu eitursins árið 1851.

 

Hér má lesa sér til um hver áhrif arseník hafði á frjálslega löggjöf okkar í tengslum við hjónaskilnaði.

 

Eitur olli hræðslu

Í september árið 1848 birtist í enska dagblaðinu, Douglas Jerrold’s Newspaper, óhugnanleg grein undir fyrirsögninni „Auðveld leið til að eitra“.

 

Greinin fjallaði um holskeflu morða sem fólust í því að eitrað hafði verið fyrir breskum karlmönnum. Dagblaðið hvatti yfirvöld til að grípa í taumana. „Lög stjórnvalda væru dýrkeypt en eitur aftur á móti einstaklega ódýrt“, stóð í blaðinu.

 

Allar götur frá árinu 1670 höfðu umrædd lög, „skilnaðarlögin“, gert fólki kleift að kaupa leyfi þingsins fyrir hjónaskilnaði. Leyfið kostaði tæp 300 pund sem samsvaraði 6,5 milljónum íslenskra króna á núgildi en sú upphæð var á fæstra færi.

 

Konur áttu í enn meira basli en karlar með að fá skilnað: Auk þess að þurfa að skrapa saman peningunum þurfti konan að sanna að eiginmaðurinn hefði haldið fram hjá henni, iðkað blóðskömm eða nauðgað henni. Allar götur frá árinu 1670 höfðu alls fjórar konur fengið leyfi fyrir skilnaði en karlar í sömu stöðu voru hins vegar 325 talsins.

 

Í greininni var bent á að margar konur hefðu gripið til þess örþrifaráðs að ráða eiginmanninn af dögum til að losna úr hjónabandinu. Vinsælar drápsaðferðir fólust í eitri á borð við arseník, blásýru og striknín. Arseník var notað sem rottueitur og var svo algengt að meira að segja börn gátu keypt það.

 

Árið 1851 bannaði þingið almenna sölu á arseníki. Öll kaup skyldu nú skráð og eitrið blandað sóti eða rauðu joði þannig að það fengi á sig lit.

 

Stundum var nefnilega eitrað fyrir fólki fyrir mistök, sökum þess að arseník líktist sykri. Á árunum 1837-1839 skráðu ensk yfirvöld alls 506 tilvik þar sem fólk hafði tekið inn banvænan skammt af arseníki af misgá.

 

Skömmu eftir árið 1851, þegar farið var að takmarka sölu á arseníki, fóru dagblöðin að greina frá nýjum morðum sem framin hefðu verið með notkun eiturs.

 

Þingið samþykkti þá ný lög árið 1858 með það að markmiði að reyna að lækka morðtíðnina. Nú þurfti fólk að greiða að hámarki 60 pund fyrir umsókn um lögskilnað en sú upphæð jafngilti árslaunum fjölskyldu í verkamannastétt.

 

Þó svo að um væri að ræða háa upphæð fjölgaði skilnuðum úr örfáum tilvikum á ári upp í allt að 300. Morðum þar sem eitri var beitt fækkaði hins vegar ekki.

Ráðleggingar og ábendingar fyrir giftar konur

Enskir hjónabandsráðgjafar á 19. öld kepptust við að gefa konum góð ráð um það hvernig þær gætu tryggt sér hamingjuríkt, traust og samstillt hjónaband.

Staða karlmannsins skiptir öllu

Kvenrithöfundurinn Elizabeth Lanfear (1824): „Ef þú giftist manni af lægri stétt getur þú með engu móti gert ráð fyrir að vinafólk þitt eigi eftir að sýna honum þá virðingu sem þér finnst hann eiga skilið“.

Kristileg skylda uppfyllt

Rithöfundurinn Elizabeth Lanfear (1824): „Gakktu til þinna daglegu verka og sinntu kristilegum og húslegum skyldum þínum. Þannig fæst virðing og gott álit allra og þú munt eignast hjarta eiginmanns þíns“.

Leyfið manninum að hafa rétt fyrir sér

Kvenrithöfundurinn Elizabeth Lanfear (1824): „Til að halda friðinn í hjónabandinu og tryggja væntumþykju eiginmannsins velja skynsamar konur oft að lúta í lægra haldi og láta eins og að maðurinn hafi rétt fyrir sér“.

Kynlífsstellingin skyldi valin gaumgæfilega

Læknirinn James Ashton (1861): „Öll ónáttúruleg afbrigði þessa verknaðar gætu stuðlað að slælegri heilsu konunnar. Margar konur verða fyrir alvarlegum meiðslum og ævarandi tjóni vegna stjórnleysis karlmannsins“.

Brúðkaupsnóttin er alvara

Kvenrithöfundurinn Ruth Smythers (1894): „Sumar ungar konur hugsa til brúðkaupsnæturinnar af forvitni og löngun. Gættu þín á slíkum viðhorfum! Sjálfselskur eiginmaður gæti mæta vel misnotað slíkan maka“.

Heiðvirð kona segir nei

Kvenrithöfundurinn Ruth Smythers (1894): „Aldrei skyldi nein kona gleyma hinni gullnu reglu hjónabandsins að láta einungis lítið eftir manninum, láta það eftir sjaldan og um fram allt ófúslega. Ellegar gæti það sem hefði getað orðið heiðvirt hjónaband breyst í kynsvall sem stjórnast af kynferðislegum löngunum“.

Grín gert að frjálsræði í skilnuðum

Í Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum var enn þó nokkuð um morð þar sem eitri var beitt í hamingjusnauðum hjónaböndum. Mary Ann Cotton frá Norður-Englandi varð beinlínis þekkt sem „arseníkmorðinginn“.

 

Á árunum milli 1865 og 1873 myrti Mary Ann þrjá eiginmenn sína, auk eins elskhuga, áður en hún var hengd fyrir glæpi sína. Á þessu sama tímabili drap Lydia Sherman nokkra eiginmenn sína í Bandaríkjunum með því að hella rottueitri út í kakódrykk þeirra.

 

Hjónaskilnaðir höfðu verið leyfilegir frá því á 17. öld í Bandaríkjunum. Ástæða þess hve mörg morð voru framin með eitri var sú að konurnar fýsti að komast yfir fjármuni eiginmannsins, því þær fengu ekkert í sinn hlut eftir hefðbundinn skilnað.

 

„Engin von ríkir fyrir tvo einstaklinga sem hlekkjaðir hafa verið saman í hamingjusnauðu hjónabandi, utan sú frelsun sem andlátið felur í sér“, hreytti kvenréttindakonan Laura Curtis Bullard reiðilega út úr sér í viðtali sem birtist í bandaríska tímaritinu The Revolution.

 

Réttur Bandaríkjamanna til að öðlast hjónaskilnað sætti mikilli gagnrýni utan landsteinanna. Þegar nýsjálenska þingið tók málið til umræðu árið 1867 hélt einn þingmannanna því fram að viðkomandi hefði heyrt eftirfarandi hrópað á járnbrautarstöð þar sem lest hefði staðnæmst í drykklanga stund:

 

„Tíu mínútna stopp til að sækja um hjónaskilnað og tuttugu mínútur til að verða sér úti um hressingu!”

 

Hneykslan þingmannsins ein og sér nægði ekki til og svo fór að hjónaskilnaðir voru leyfðir á Nýja-Sjálandi, auk þess sem fleiri breskar nýlendur fylgdu í kjölfarið.

„Gullna regla hjónabandsins er að láta einungis lítið eftir manninum, láta það eftir sjaldan og um fram allt ófúslega“.

Ruth Smythers í sjálfshjálparbókinni “Instruction and Advice for the Young Bride” frá 1894.

Eftir sem áður varð þó að vera góð og gild ástæða fyrir skilnaðinum: Árið 1887 var umsókn konu um leyfi til skilnaðar hafnað þó svo að eiginmaðurinn hefði barið hana með skörungi þar til blóðið streymdi úr henni.

 

Eiginmaðurinn afsakaði sig á þann veg að konan hefði farið á „einhverja skemmtun“ án þess að fá leyfi hans fyrst.

 

Dómarinn skýrði svo frá fyrir réttinum að um hefði verið að ræða „hæfilega refsingu“ og að það væri „tímasóun að trufla dómara með þess háttar“.

Hipparnir sem voru einkar áberandi í ungmennauppreisninni, prófuðu sig áfram með kynlíf og vímuefni.

Áhrif kirkjunnar fóru dvínandi

Að loknum miðöldum fór að grafa undan áhrifum kaþólsku kirkjunnar á hjónabandið. Óttinn við útskúfun úr kirkjunni fór að víkja fyrir kröfu um rómantísk ástarsambönd.

1690-1790: Upplýsingatíminn

Maðurinn getur hugsað sjálfur

Hjónabandið á 17. öld varð á nýjan leik að löglegu samkomulagi milli tveggja aðila en vígslan skyldi þó engu að síður hljóta blessun prests. Sá skilningur kirkjunnar að maðurinn væri saklaus syndari átti orðið undir högg að sækja og skynsemistrúin tók við.

1789: Franska byltingin

Frjálsar ástir öllum til handa

Kaþólska kirkjan missti tangarhald sitt á daglegu lífi Frakka eftir frönsku byltinguna. Hjónabönd og skilnaðir urðu einkamál hvers og eins og allir gátu gengið í hjónaband og fengið skilnað. Sama hugmyndafræði breiddist út um alla Evrópu næstu öld á eftir.

1850-1930: Iðnvæðingin

Bretar þurftu að hafa ástæðu

Farið var að gefa leyfi fyrir hjónaskilnuðum í ýmsum löndum Evrópu en reglurnar voru breytilegar. Í Bretlandi stóðu stjórnmálamenn einarðlega við þá skoðun að skilnaður krefðist ástæðu, t.d. að ofbeldi væri beitt ellegar framhjáhald hefði átt sér stað. Það var svo ekki fyrr en árið 2022 sem skilnaðir án nokkurrar ástæðu voru lögleiddir í Englandi og Wales.

1965-1975: Ungmennauppreisnin

Jafnrétti gilti um einkalífið

Getnaðarvarnarpillan kom á markað í Bandaríkjunum árið 1960 og hún varð fáanleg á Íslandi fljótlega eftir það en fyrsta auglýsingin um pilluna birtist í Læknablaðinu á Íslandi árið 1962. Bætt þjóðfélagsástand gerði ungu fólki kleift að prófa sig áfram með nýja lifnaðarhætti og nýja tegund sambanda. Færri gengu í hjónaband en áður og næstum annað hvert hjónaband á Vesturlöndum endaði með skilnaði.

Jeanne Weber sem bjó í París, var fátæk en engu að síður vinalegri og meira traustvekjandi en flestir. Vinir og fjölskylda hikuðu ekki við að skilja börn sín eftir í hennar umsjá. Dag einn árið 1906 komst ein móðirin hins vegar að hinu sanna.

Kaþólikkar börðust gegn skilnaði

Réttur karla og kvenna til að fá hjónaskilnað án afskipta kirkjunnar náði á 19. öld einnig til Norður-Evrópu þar sem mótmælendatrú ríkti.

 

Hollendingar lögleiddu hjónaskilnaði á árunum upp úr 1830 en Þjóðverjum áskotnuðust sömu réttindi eftir stofnun þýska þjóðríkisins árið 1871. Eftir það varð jafnvel mögulegt að losna úr hamingjusnauðu hjónabandi í kaþólska sambandslandinu Bæjaralandi.

 

Þetta aukna frjálsræði varð áhyggjuefni meðal sumra íbúahópa því þegar þarna var komið sögu voru skrásettir 3.000 skilnaðir á ári sem var með því mesta sem þekktist í Evrópu. Fengi tíðnin að aukast takmarkalaust myndi samfélagið leysast upp, sögðu gagnrýnisraddirnar.

 

„Eftir skilnað stendur ekkert eftir annað en óbætanleg siðspilling“, sagði þingmaðurinn og baróninn Ernst Ludwig von Gerlach.

 

Píus 9. páfi (1846-1878) var honum sammála. Í ræðu einni kallaði hann réttinn til hjónaskilnaðar „skekkju í nútímanum“.

 

Kaþólska löggjafarvaldið var svo sannarlega áfram mótfallið hjónaskilnuðum. Skilnaðir voru leyfðir í Austurríki árið 1870 svo fremi annar aðilinn hefði verið úrskurðaður geðveikur. Slík leyfi voru þó aðeins veitt þeim íbúum landsins sem ekki aðhylltust kaþólska trú.

 

Skilnaðir voru leyfðir á nýjan leik í Frakklandi árið 1816 en þeir höfðu áður verið leyfilegir í byltingunni og í stjórnartíð Napóleons. Málefnið bar svo aftur á góma þegar morð framið með eitri skók frönsku þjóðina árið 1840.

Frakkar fylgdust af ákefð með réttarhöldunum yfir Marie Lafarges. Hún var dæmd sek fyrir að myrða eiginmann sinn með rottueitri.

Ung kona að nafni Marie Lafarge æskti þess að losna úr viðjum hjónabands síns þegar í ljós kom, strax að hjónavígslunni lokinni, að maður hennar sem hafði þóst vera góðum efnum búinn reyndist vera fátækur uppfinningamaður, sem bjó í kofa og átti ekkert nema himinháar skuldir.

 

Réttarhöldin gegn Lafarge urðu þess valdandi að franskir stjórnmálamenn neyddust til að rökræða rétt kvenna til að skilja.

 

„Leyfum löggjöf borgaranna að veita konum frelsi. Þær munu þá sækjast eftir vernd laganna umfram það að hefna sín með rottueitri, brennisteinssýru eða skammbyssu“, rökstuddi stjórnmálamaður einn í franska þinginu.

 

Þrátt fyrir víðtæk mótmæli öðluðust franskar konur aftur rétt til skilnaðar árið 1884, svo fremi eiginmenn þeirra hefðu yfirgefið þær, væru drykkfelldir eða í andlegu ójafnvægi.

 

Í kaþólsku löndunum, Spáni, Ítalíu og Írlandi, voru hjónabönd áfram órjúfanleg.

 

Pappírsvinnan tók einn dag

Fyrsta ríkið sem samþykkti skilnað, án þess að nokkurrar ástæðu væri getið, annarrar en þeirrar að annar aðilinn vildi skilja, var Rússland, skömmu eftir að bolsévikkar komust til valda.

 

Þá öðluðust konur á Norðurlöndum jafnframt rétt til skilnaðar á öndverðri 20. öld og þess má geta að árið 1924 var leitt í lög á Íslandi að annað hjóna gæti knúið fram skilnað þótt hitt vildi það ekki. Hjónaskilnuðum hinu megin Atlantsála fjölgaði að sama skapi.

 

Áður en síðari heimsstyrjöld braust út voru bandarísku borgirnar Miami og Las Vegas þekktar sem „skilnaðarborgirnar“. Þar þurftu hjón aðeins að setjast að í sex vikur til þess að færa sér í nyt skilnaðarlöggjöf staðarins.

 

Hlutirnir gengu enn hraðar fyrir sig í mexíkósku landamæraborginni Chihuahua. Þar gátu hjón fengið afhenta skilnaðarpappíra strax sama dag og þau komu til bæjarins og haldið heim á leið sama dag, sitt í hvoru lagi.

 

Eftir síðari heimsstyrjöld varð kjarnafjölskyldan ímynd hins fullkomna og eftirbreytniverða í Bandaríkjunum. Rösklega 90% fullorðinna Bandaríkjamanna leituðu öryggis í faðmi hjónabandsins en raunar aðeins þar til ástin gekk til þurrðar.

 

Slúðurblöðin kepptust um að flytja fréttir af skilnuðum fræga fólksins á 6. og 7. áratugnum. Kvikmyndastjörnur á borð við Elísabetu Taylor og Marilyn Monroe gengu oftsinnis í hjónaband og skildu álíka oft og fréttirnar rötuðu á forsíður blaðanna hverju sinni.

„Ég hafði vonast til þess að hjónabandið færði mér ást, hlýju, blíðu og skilning“.

Sagði Marilyn Monroe eftir skilnað hennar og hafnaboltahetjunnar Joe DiMaggio árið 1954.

Marilyn Monroe gekk að eiga hafnaboltahetjuna Joe DiMaggio í janúar árið 1954 en hamingjan var hins vegar uppurin áður en árið var á enda. Marilyn gaf eftirfarandi skýringu frammi fyrir dómara í Kaliforníu, böðuð í tárum:

 

„Ég hafði vonast til þess að hjónabandið færði mér ást, hlýju, blíðu og skilning en sambandið reyndist einkennast af kulda og höfnun“.

Ódýrari aðferð og sársaukaminni. Þannig hljóðuðu rök bandaríska læknisins sem mælti með því árið 1888 að fólk skyldi tekið af lífi með notkun eiturs.

Eftir einungis níu mánaða hjónaband í október 1954 sótti Marilyn Monroe um skilnað frá hinum margrómaða hafnaboltaspilara Joe DiMaggio.

Blómabörnin kröfðust frjálslegri ástarsambanda

Krafan um ást og blíðu varð áberandi á 7. áratugnum, þegar getnaðarvarnir og kvenréttindahópar áttu þátt í að ýta undir frjálslegri ástir.

 

Femínistinn Betty Friedan réðst harkalega á hjónabandið í bók sinni „Kvenleg dulúð“ (1963): Konur geta verið heilar án þess að hafa karlmenn sér við hlið, undirstrikaði Friedan.

 

Rithöfundurinn Marabel Morgan svaraði þessu í bók sinni „Fullkomna konan“ (1973). Kristileg gildi gera manninn að „höfði“ fjölskyldunnar. Konunni er ætlað að dást að manni sínum og vera sú kona sem hann vill að hún sé, ritaði Morgan.

 

Hið kristilega hjónaband var hins vegar liðið undir lok og segja má að skilnaður hafi verið orðinn hluti af nútímamenningunni. Tökum sem dæmi kvikmyndina „Kramer gegn Kramer“ (1979) sem fjallar um hjón sem skilja að skiptum. Maðurinn tekur starfið fram yfir allt annað en konan er að reyna að finna sinn stað í lífinu.

 

Sérfræðingar telja að hjón nú á tímum hiki oft við að fara sitt í hvora áttina sökum þess að þau hafi ekki efni á að búa hvort í sínu lagi.

 

Hjónaskilnuðum fækkaði um fimmtung í efnahagskreppunni á fjórða áratug síðustu aldar en hagsæld og frjálsar ástir á 7. áratugnum ollu fjölgun hjónaskilnaða og annað hvert hjónaband endaði með skilnaði.

 

Tölfræði frá Bandaríkjunum leiddi í ljós að það voru konur sem fóru fram á 70% þessara skilnaða.

 

Um það bil 40% hjónabanda á Íslandi lýkur með skilnaði í dag.

Lesið meira um skilnaði í seinni tíð

  • Roderick Philips: Untying the Knot – A Short History of Divorce, Cambridge University Press, 1991

HÖFUNDUR: NATASJA BROSTRÖM , ANDREAS ABILDGAARD

© DGIM studio/Shutterstock. © Shutterstock. © and4me/Shutterstock. © Michal Beno/Shutterstock. © inspiron.dell.vector/Shutterstock. © Arcady/Shutterstock. © Bridgeman Images. © akg-images/Imageselect. © Los Angeles Times/Wikipedia & CBW/Imageselect. © CSG CIC Glasgow Museums Collection/Bridgeman Images & Darkened Studio/Imageselect.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.