Hinn 7. desember 1982 skráði hinn fertugi Charles Brooks Jr. sig á spjöld sögunnar fyrir það að vera fyrsti sakamaðurinn sem tekinn var af lífi með banvænni sprautu. Brooks Jr. hafði, ásamt samsekum félaga sínum, rænt og myrt vélvirkja einn árið 1976 og sex árum síðar biðu hans sömu örlög í Huntsville-fangelsinu í Texas í Bandaríkjunum.
Julius Mount Bleyer, læknir í New York, fékk fyrstur allra þá hugmynd að taka mætti dauðadæmda glæpamenn af lífi með eitursprautu en þetta var árið 1888. Hann var sannfærður um að sprauta með eitri væri bæði ódýrari og mannúðlegri lausn en henging sem annars var sú aftökuaðferð sem flestir þess tíma aðhylltust.
Þrátt fyrir að Bleyer reyndi að kynna aðferð sína fyrir stjórnmálamönnum hlaut hugmynd hans ekki náð fyrir augum þeirra og gleymdist brátt.

Eitursprautan var notuð í sérlegum aftökuherbergjum, hér t.d. í San Quentin-fangelsinu í Kaliforníu þar sem nýr eitursprautuklefi var innréttaður í árið 2010.
Oklahoma kynnti sprautuna fyrst
Í rauninni var rykinu ekki dustað af eitursprautunni aftur fyrr en árið 1977 þegar Jay Chapman, sérfræðingur í réttarlæknisfræði í Oklahoma, stakk upp á að sprautur yrðu teknar í notkun sem ný, sársaukalaus aftökuaðferð.
„Saltvatnsdreypi rennur inn í æðalegg sem komið hefur verið fyrir í fanganum og síðan er bætt við banvænum skammti af róandi efni, ásamt vöðvaslakandi lyfi“, ritaði Chapman í frumvarpi sem varð að lögum skömmu síðar í Oklahoma.
Önnur fylki Bandaríkjanna fylgdu í kjölfarið og árið 1982 tók Texas upp notkun eitursprautunnar, fyrst allra fylkja, þegar Charles Brooks Jr. var tekinn af lífi. Síðan þá hefur sprautan verið algengasta aftökuaðferðin í þeim 27 ríkjum sem dauðarefsingu er beitt.
Fangarnir gefa að öllu jöfnu upp öndina að sjö mínútum liðnum en þó eru dæmi um að aftökur með eitursprautu hafi dregist á langinn og tekið allt að tveimur klukkustundum. Í dag eru banvænar sprautur notaðar við aftökur í Kína, Tælandi, Gvatemala, Taívan, Nígeríu, Víetnam og á Maldíveyjum.