Draumurinn um bækistöð á tunglinu færist nú nær veruleikanum. Vísindamönnum hefur tekist að fá plöntur til að spíra í tunglryki. Þær eiga bæði að framleiða fæðu og súrefni og á næstu árum á líka að bora þar eftir vatni.
Jafnframt er Nokia að undirbúa 4G-net fyrir tunglið. En hvaðan á rafmagnið að koma?
Bandaríska geimferðastofnunin NASA vinnur að lausn á þeim vanda. Ætlunin er að reisa kjarnorkuver í 384.000 km fjarlægð frá jörðu eða nánar tiltekið á tunglinu sjálfu.
Verið á að standa tilbúið árið 2030.
NASA þarf stöðuga orku
Þótt sólþiljur geti reyndar framleitt raforku á tunglinu, eins og gert er á Marsjeppunum, þarf bækistöð á tunglinu mikla orku sem að auki þarf að vera jöfn og stöðug.
NASA hefur þegar valið þrjár hönnunartillögur að kjarnakljúf sem á að vera tilbúinn fyrir geimskot fyrir lok áratugarins.
„Það getur hjálpað okkur áleiðis að þróa þessa frumhönnum; við getum lagt grundvöllinn að langtíma viðveru manna á öðrum hnöttum,“ segir Jim Reuter sem er stjórnandi hjá geimtæknistjórndeild NASA.
Þannig virkar kjarnakljúfur
Kjarnakljúfur nýtir þá orku sem losnar við að kljúfa frumeindakjarna á borð við úran.
Kjarninn er klofinn með því að skjóta nifteindum inn í frumefnið úran-235 sem er fært um að viðhalda keðjuverkun.
Öfugt við endurnýjanlega orkugjafa skilar kjarnakljúfur orku jafnt og þétt og má því koma honum fyrir í myrkri, t.d. á tunglinu.
Það eru þrjú bandarísk fyrirtæki sem hafa fengið fimm milljónir dollara hvert til að þróa bestu lausnina: Lockheed Martin, Westinghouse og IX.
Það verður hluti Artemisáætlunar NASA að láta geimfara athuga möguleika þessara þriggja kosta strax í fyrstu mönnuðu tunglferðinni síðan 1972 sem nú er áætlað að fari til tunglsins 2025.
Kjarnakljúfurinn á að framleiða 40 kW og endast í a.m.k. 10 ár. Von manna er sú að kjarnakljúfar framtíðarinnar geti tryggt stöðuga viðveru manna á tunglinu.