Lifandi Saga

Nóttin var lífshættuleg

Öldum saman tengdi fólk nóttina við illsku og ýmsa hjátrú. Fólk fór á fætur til að vera ekki í svefni á hættulegasta tíma næturinnar. Tíminn var ýmist nýttur til hversdagslegra athafna eða þess sem alls ekki mátti nefna.

BIRT: 19/02/2023

Klukkan er 23 þegar skraddari í litlu þorpi í Norður-Englandi er vakinn kvöld eitt í apríl 1699. Ásamt öðru heimilisfólki sest hann við borðið til að fá sér matarbita. Úr húsinu við hliðina heyrast stunur. Þar hafa íbúarnir líka vaknað eftir fyrri svefnstund næturinnar en gegnum vegginn milli húsanna heyrist greinilega að ungu hjónin þar hafa valið aðra dægrastyttingu en að fá sér brauðbita.

 

Neðar við sömu götu er presturinn líka kominn fram úr og er nú að undirbúa næstu prédikun. Allir íbúar þorpsins eru að nudda stírurnar úr augunum. Allt samkvæmt siðvenju, því í Evrópu 17. aldar telst það eðlilegt að skipta nætursvefninum í tvennt.

 

Í hinum enda þorpsins vaknar 9 ára stúlka, Jane Rowth og sér móður sína sitja við eldstæðið og troða tóbaki í pípuna sína. Í sama mund er bankað á hurðina og litla stúlkan kippist við. Tveir menn standa fyrir utan og segja móður telpunnar að koma með sér.

 

„Liggðu bara kyrr, ég kem aftur snemma í fyrramálið,“ segir móðirin áður en hún hverfur út um dyrnar.

Einkum eitt gátu hjón gert til að drepa tímann milli fyrri og seinni svefns.

Jane óttast um móður sína því hún veit allt of vel að á þessum tíma, milli fyrri og síðari svefns næturinnar eru ekki aðrir á ferli utan dyra en þjófar og illmenni. Allir aðrir halda sig innanhúss.

 

Þegar Jane vaknar um morguninn er móðir hennar ókomin. Og hún kemur aldrei. Frú Rowth hefur verið myrt. Nóttin hefur krafist einnar fórnar í viðbót.

 

Tvískiptur nætursvefn

Nú til dags gerir flest fólk sér vonir um ótruflaðan nætursvefn þegar það hallar sér út af á kvöldin. En þetta hefur alls ekki alltaf verið þannig. Átta tíma ótruflaður nætursvefn er tiltölulega ný uppfinning. Langt fram yfir miðaldir og kannski alveg aftur á fornöld hefur fólk víða um heim skipt nætursvefni sínum í tvennt.

 

Áður en rafmagnsljós komu til sögunnar var eðlilegt að fara að sofa þegar myrkt var orðið og fara á fætur við fyrstu dagskímu en reyndar vaknaði fólk oft um miðja nótt og var á fótum fáeina tíma áður en það lagðist aftur til svefns. Af fyrri tíðar heimildum er vitað að þessar tvær svefnlotur gengu undir heitinu „fyrri svefn“ og „seinni svefn“. Vökustundin þar á milli virðist hins vegar ekki hafa haft sérstakt heiti.

„Kastaðu af þér vatni þegar þú vaknar eftir fyrri svefninn.“

Enski læknirinn Andrew Boorde á 16. öld.

Hve lengi fyrri svefn og seinni svefn stóðu yfir fór eftir árstíðum en gat líka verið einstaklingsbundið. Það var ekki óalgengt að fólk færi að sofa um níuleytið og vaknaði um ellefu. Margir vöktu þá til klukkan eitt eftir miðnætti en tóku þá aftur á sig náðir og sváfu fram í dagrenningu.

 

Flestu fólki þætti nú skrítið háttalag að fara fram úr um miðja nótt nema þá til að pissa. Það var þó auðvitað upplagt að nýta miðnæturvökuna til þess að sögn enska læknisins Andrews Boorde.

 

„Þegar þú vaknar eftir fyrri svefn skaltu kasta af þér vatni ef blaðran er full,“ skrifaði hann á 16. öld.

 

En miðnæturvakan var nýtt til margs annars.

Í gömlum húsum má sums staðar enn finna lokrekkjur þar sem rúmin eru greinilega of stutt.

Lokrekkjur  til lífsbjargar

Á söfnum er til mikið af rúmum sem greinilega eru of stutt til að fullorðið fólk geti teygt úr sér. En það átti fólk ekki að gera ef það vildi lifa nóttina af.

 

Frá miðöldum og endurreisnartímanum eru til ritaðar ráðleggingar af ýmsu tagi varðandi það hvernig best væri að búa um sig yfir nóttina. Á 16. öld varaði enski læknirinn William Bullein stranglega við því að sofa liggjandi. „Margir deyja þannig,“ var niðurstaða hans.

 

Þess í stað ráðlagði hann fólki að sofa í hálfsitjandi stöðu með kodda og púða til að styðja undir bak og höfuð. M.a. af þessari ástæðu voru stuttar lokrekkjur útbreiddar í Evrópu.

 

Sagnfræðingar hafa lengi talið að óttinn við að sofa liggjandi hafi tengst þeirri hugmynd að slæmt loft væri þyngra en ferskt loft og þess vegna væri mikilvægt að höfuðið væri í sem hæstri stöðu.

 

Skoðun gamalla texta sýnir þó fremur að læknar hafi lagt áherslu á að hálfsitjandi líkamsstaða væri betri fyrir meltinguna – einkum eftir matarmikla máltíð rétt fyrir svefninn.

 

Sumir sagnfræðingar benda líka á að meðal fátækra hafi ekki verið nóg pláss í rúminu til að allir gætu legið alveg flatir.

Margt gert á nóttunni

Fólk nýtti þessa vökustund kringum miðnættið á margvíslegan hátt. Sumar fjölskyldur borðuðu náttverð á þessum tíma en aðrir notuðu tímann til að undirbúa áhöld sín fyrir vinnu næsta dag. Að vetrarlagi var líka nauðsynlegt að bæta viði á eldinn til að ekki yrði ískalt í húsinu þegar fólk vaknaði að morgni.

 

Læknar gáfu oft fyrirmæli um að lyf skyldu tekin milli fyrri og seinni svefns. Flest fólk virðist líka hafa verið þeirrar skoðunar að neyta einhvers um miðnættið. Um það vitnar gömul ensk þjóðvísa þar sem textinn er efnislega á þessa leið:

 

„Er þú vaknar eftir fyrri svefn, skaltu fá þér heitan drykk – og er þú vaknar eftir seinni svefn, verða sorgir þínar á bak og burt.“

 

Í lækningabókum var mælt með að sofa fyrri svefninn á hægri hliðinni en svo væri mikilvægt að leggja sig á þá vinstri fyrir seinni svefninn.

 

Sumir kusu þó að halda sig í rúminu eftir fyrri svefninn. Heimildir herma að lista- og vísindamaðurinn Leonardo da Vinci hafi legið kyrr í rúminu en notað tímann til að yfirfara í huganum allt það sem hann hafði upphugsað eða gert um daginn.

Margt fólk var sannfært um að Satan og árar hans kæmu að næturlagi og réðust t.d. gegn fólki í draumi.

Bænir bægðu hinu illa frá

Rétt eins og nú á dögum skapaði rúmið fólki vissa öryggiskennd á miðöldum og einmitt þess vegna kusu margir að halda sig þar. Hin myrka nótt var einfaldlega tími djöfulsins og er lýst þannig í þýskum texta: „Nóttin er ríki Helvítis, þá stjórnar Satan.“

 

Hvort heldur fólk sat eða lá fór það með bænir – ekki síst munkarnir sem um alla Evrópu fóru á fætur á hverri nóttu til sameiginlegs bænahalds. Þetta var fastur liður og átti að tryggja blessun Guðs.

„Ættum við ekki að vakna til að vera á verði gagnvart morðingjum sem halda sér vakandi til að myrða okkur?“

Arrals biskup, Portúgal 1589

Miðnæturbænastundirnar voru taldar mikilsverður þáttur í vörn gegn illskunni. Portúgalski biskupinn Amador Arrals útskýrði þetta þannig á 16. öld:

 

„Það eru ekki aðeins prinsar, kapteinar, heimspekingar, skáld og fjölskyldufeður sem vakna á nóttunni, það gera líka þjófar og ræningjar. Ættum við ekki að fyrirlíta svefninn sem er í bandalagi við hið ósiðlega? Ættum við ekki að vakna til að vera á verði gagnvart morðingjum sem halda sér vakandi til að myrða okkur?“

 

Margar fjölskyldur söfnuðust saman milli fyrri og seinni svefns til að biðja Guð um að láta alla fjölskylduna sleppa óskaddaða gegnum nóttina.

Samkvæmt hjátrúnni hittust nornir að næturlagi til að svalla og færa mannfórnir.

Allir óttuðust myrkraöflin

Allt frá árdögum mannkyns hefur fólk að líkindum óttast myrkrið. Nóttin gaf hjátrúnni byr undir báða vængi og í hinum kristnu heimhlutum var á allra vitorði að nóttin tilheyrði myrkrahöfðingjanum sjálfum, Satani.

 

Þegar dimmdi sá fólk til þess að eigur þeirra væru innandyra. Gluggum var lokað og dyrum læst. Á 18. öld skrifaði bæverski höfundurinn Jean Paul:

 

„Dagstofan okkar var víggirt og samtímis upplýst. Gluggahlerum var lokað og læst.“

 

Ljósið átti að bægja myrkrinu og illskunni frá en gluggahlerarnir og grimmir varðhundar áttu að halda þjófum og ræningjum í burtu.

 

Sumir sváfu með vopn í seilingarfjarlægð en allir vissu að þau dugðu ekki gegn illum öndum. Gegn þeim treystu flestir á bænirnar. Krossar og verndargripir voru hengdir upp í glugga og við dyr til að beina djöflinum og árum hans fremur að einhverju öðru heimili. Og í írskri þjóðvísu frá 18. öld segir efnislega:

 

„Kross sánkti Bridgetar hangir yfir dyrunum / hann verndar húsið fyrir nornum, þjófum og djöflum / og þótt hundarnir og þjónustufólkið sofi / þá verndar sánkti Bridget húsið.“

Fólk svaf í einni kös

Óttinn við óvissuna og tilhugsunin um gagnkvæma vernd birtist einnig í því að fólk svaf gjarnan í einni kös. Bæði í bæjum og sveitum var alsiða að allir svæfu í sama rúmi. Það var auðvitað líka ódýrara að hafa einungis eitt rúm og auk þess auðveldara að halda á sér hita.

 

Nálægðin skapaði líka öryggistilfinningu og óttinn við illsku myrkursins náði því síður að eyðileggja nætursvefninn. Hefði fjölskyldan ráð á þjónustufólki, var algengt að það svæfi í fjölskyldurúminu en höfundur bókar um hegðun og siði þjónustufólks gaf þó tiltekin ráð í þessu sambandi:

 

„Eigir þú að sofa í sama rúmi og einhver sem er þér hærra settur, áttu að muna eftir að spyrja hann hvoru megin hann kjósi heldur að liggja.“

 

Húsmóðirin gat líka nýtt þjónustufólk sitt sem eins konar vörn gegn eiginmanninum ef hann skyldi vilja nálgast hana í myrkrinu, enda óttuðust margar konur að verða þungaðar enn einu sinni. Gamlar heimildir geyma ýmis dæmi um eiginkonur sem beinlínis kröfðust þess að þjónustufólk deildi rúmi með fjölskyldunni.

Nytjahlutir á náttarþeli

Á miðöldum og endurreisnartímanum fór fólk ekki bara að sofa í rólegheitum. Það gat verið þörf á ýmsum áhöldum til að tryggja að maður gæti sofið sæmilega öruggur.

Náttkerti

Þegar fólk vaknaði að næturlagi var oft aðeins dauf skíma frá eldstónni. Fólk reyndi því að hafa kerti við höndina þannig að hægt væri að hafa ljóstýru ef nauðsynlegt var að fara fram úr.

Koppur

Iðulega þurfti fólk að létta á sér á nóttunni. Englendingur sem var á ferð á Írlandi um aldamótin 1700 fékk engan kopp en heyrði fólk fara að eldstæðinu og pissa í öskuna.

Vopn

Nóttin var hættulegasti tími sólarhringsins og þess vegna geymdi t.d. leikkonan Charlotte Charke alltaf nokkrar byssur undir rúminu sínu í London á 17. öld, „sem ég hlóð alltaf og setti tvær kúlur í hverja.“

Kross

Til varnar gegn yfirnáttúrulegum öflum og djöfullegri illsku notuðu margir lítinn kross eða einhver önnur áþreifanleg trúartákn til að halda yfir sér verndarhendi í svefninum.

Róandi lyf

Meðal heldra fólks tíðkaðist að hafa eitthvað róandi við hendina, t.d. ef martröð skyldi vekja mann upp af svefni. Í Frakklandi naut drykkurinn „dormitoire“ mikilla vinsælda en í honum voru m.a. áfengi og ópíum.

Vígt vatn

Í sveitum var ekki óalgengt að fólk tæki með sér vígt vatn heim úr kirkjunni. Presturinn hafði vígt vatnið og það var geymt á náttborðinu – ef einhver skyldi deyja í svefni.

Í sveitum var ekki óalgengt að svefnaðstaðan væri í gripahúsi því líkamshiti dýranna gagnaðist sem upphitun. Lyktina gat fólk sætt sig við.

 

Frá fjórtándu öld fram á þá sautjándu breyttust rúmin í Evrópu úr innrömmuðum hálmbingjum á gólfinu í raunveruleg rúm með dýnum, koddum, líni og teppum.

 

Árið 1577 lýsti enski presturinn William Harrison svefnaðstæðum í bernsku sinni:

 

„Forfeður okkar – og einnig við sjálf – lágum oft á hálmi og grófum mottum. Ofan á okkur breiddum við aðeins lítil teppi úr grófri ull og höfðum vel lagaðan eldiviðarkubb undir höfðinu. Púða notuðu aðeins fæðandi konur.“

 

Á æviskeiði Harrisons varð mun algengara að millistéttin og efnaðir bændur hefðu þokkalega svefnaðstöðu. Eins manns rúm voru þó áfram aðeins fyrir ríkasta fólkið. Það var stöðutákn yfirstéttarinnar að sofa í rúmi út af fyrir sig – nema aðeins þegar skyldur hjónabandsins buðu.

„Þegar hans náð sefur í rúminu mínu, verð ég að liggja svo nálægt bríkinni að ég dett stundum fram úr.“

Elisabeth Charlotte, eiginkona Filippusar af Frakklandi, hertoga af Orléans

Eiginkonu Filippusar af Frakklandi, hertoga af Orléans og bróður Loðvíks 14. þótti nánast óþolandi að deila rúmi með eiginmanni sínum. Vesalings hertogaynjan tjáði vinkonu sinni vandræðin í bréfi:

 

„Þegar hans náð sefur í rúminu mínu, verð ég að liggja svo nálægt bríkinni að ég dett stundum fram úr í svefninum, því hans náð vill ekki láta snerta sig. Og ef ég rek óvart í hann fótinn í svefni, þá vekur hann mig og skammar mig í hálftíma.“

 

Rúmi deilt með ókunnugum

Ferðamenn gistu á krám eða gistiheimilum þar sem sjaldnast var hægt að fá rúm til einkaafnota, jafnvel þótt menn ættu peninga og væru hátt settir. Þegar ókunnugir þurftu af þessum sökum að deila rúmi var auðvitað nauðsynlegt að hafa ákveðnar reglur um góða siði.

Gistiskýli voru oft rekin af trúarstofnunum og þar var iðulega lesið upp úr Biblíunni áður en gestir fóru að sofa.

Í frönskum leiðbeiningum til enskra ferðamanna árið 1699 var útskýrt að mikilvægt væri að menn héldu sig sínu megin í rúminu.

 

„Þú ert slæmur rúmfélagi ef þú dregur rúmteppið yfir þig,“ segir í þessum bæklingi, eða „ef þú sparkar frá þér í svefni.“

 

Gestir sem þurftu að gista hjá vinafólki gátu líka lent uppi í hjónarúminu. Á síðari hluta 17. aldar skrifaði franski rithöfundurinn JacquesLois Ménétra um ferðir sínar í Frakklandi og greindi frá gistingu hjá kunningja sínum og konu hans.

 

Ménétra útskýrði þar þá siðvenju að konan svæfi öðru megin í rúminu, eiginmaðurinn í miðjunni og gesturinn við stokkinn hinu megin. Þannig var ógerlegt að setja fram ásakanir um neitt ósiðlegt.

 

Kynlíf um miðja nótt

Þótt halda þyrfti karlkyns gesti frá húsfreyjunni gilti auðvitað annað um eiginmanninn sjálfan. Tíminn milli fyrri og seinni svefns var iðulega álitinn mikilvægur varðandi barnagetnað. Og eftir fyrri svefninn gafst hjónum góður tími til náinna samvista – einkum þó ef börnin höfðu eitthvað fyrir stafni eða sváfu kannski áfram.

 

Gyðingarit frá endurreisnartímanum leggur áherslu á mikilvægi þess að hjón ástundi samfarir um miðnætti, enda átti ástarleikurinn að hamla gegn því að eiginmaðurinn tæki að heyra ofheyrnir eða leiða hugann að öðrum konum.

 

Franski sautjándualdarhöfundurinn Louis-Sébastien Mercier lýsti því hvernig „verslunarmaðurinn vaknaði af fyrri svefninum og sneri sér að konu sinni með mikilli blíðu.“

„Sá sem fer út á nóttunni leitar uppi misþyrmingar.“

Ítalskt máltæki.

Á 16. öld hélt franski læknirinn Laurent Joubert því fram að ástalíf milli fyrri og seinni svefns hefði gagnleg áhrif á fæðingartíðni. Kynferðislegt samneyti „var viðhaft eftir fyrri svefn“ segir hann, á þeim tíma þegar hjónin „geta notið þess og haft af meiri ánægju.“

 

Sjálfur hvatti hann elskendur til að „sofna síðan sem fyrst aftur en gangi það ekki, halda þá kyrru fyrir í rúminu og slaka á í glaðværu samtali.“

 

Tíminn sem leið milli fyrri og seinni svefns var þó ekki aðeins sá tími þegar flest börn komu undir, heldur líka sá tími þegar flestir létu lífið við óeðlilegar aðstæður.

 

Nóttin var tími morðanna

Í Kastilíu á Spáni voru tvö af hverjum þremur morðum framin um miðja nótt, samkvæmt rannsókn frá 17. öld. Enn verra var ástandið í Doual í Norður-Frakklandi þar sem þrjú af hverjum fjórum morðum voru framin á tímabilinu milli fyrri og seinni svefns.

 

Á náttarþeli voru göturnar vettvangur glæpamanna og fæstir voguðu sér út úr húsi. Svo hættulegar voru evrópskar götur að næturlagi að ítalskt máltæki sagði: „Sá sem fer út á nóttunni leitar uppi misþyrmingar.“

Bændur lyftur sér ekki oft upp á miðöldum en þegar þeir gerðu það var skemmtunin langt fram á nótt.

Bændur lyftu sér upp á síðkvöldum

Í strangri stéttaskiptingu miðalda og endurreisnartímans tilheyrði dagurinn yfirstéttinni en lágstéttirnar skemmtu sér á síðkvöldum.

 

Fyrr á öldum var nóttin ekki fyrir viðkvæmar sálir. Hópar ungra drengja áttu til að hræða líftóruna úr fína fólkinu ef það vogaði sér út.

 

Hrekkir unglinga voru eitt en athafnir ránsmanna og annars illþýðis voru mun hættulegri. Glæpamenn voru þó ekki einir á stjái að næturlagi um alla Evrópu. Í Norfolk í Englandi fengu almennir borgarar áfall þegar kirkjuklukkurnar tóku að hringja um miðja nótt. Hópur slæpingja hafði brotist inn í kirkjuna og drukkið hressilega af messuvíninu áður en sú hugmynd kviknaði að hringja klukkunum.

 

Bændur áttu til að skemmta sér langt fram á nótt í fáein skipti á ári hverju. Sumarsólstöðum var víða fagnað með stórum bálköstum og í bjarmanum frá eldinum var sungið og dansað alveg þar til nýr dagur reis.

 

Nóttin var líka eins konar griðastaður ofsóttra kristinna trúarhópa. Árið 1576 lýsti nafnlaus sjónarvottur samkomu um 200 franskra húgenotta sem söfnuðust leynilega saman til bænahalds úti í skógi milli fyrri og seinni svefns:

 

„Þeir báru ljósker sem líktust úlfaaugum þar sem skin þeirra sást milli trjáa og runna í myrkrinu.“

Enski ferðamaðurinn Pynes Moryson skrifaði hjá sér um aldamótin 1600 að „alls staðar á Ítalíu er hættulegt að fara um göturnar að næturlagi.

 

Maður sem kom til Valencia á Spáni 1603 lýsti ástandinu svona: „Þegar myrkt er orðið er ekki óhætt að fara út úr húsi án þess að hafa bæði brynju og skjöld.“

 

Í Moskvu voru næturmorð svo algeng að eftir nóttina var öllum líkum safnað saman á tiltekinn stað, þar sem áhyggjufullir ættingjar gátu komið um morguninn til að sjá hvort sá sem saknað var, fyndist meðal líkanna.

 

Í sumum borgum var reynt að tryggja öryggi á götunum með vopnuðum vörðum en það tókst mis vel. Í Saint-Malo í Norður-Frakklandi beittu íbúarnir allt annarri aðferð til að halda fólki öruggu innan dyra yfir nóttina í byrjun 17. aldar.

 

„Þegar skyggir er klukkum hringt til að tilkynna öllum sem eru utan borgarmúranna að þeir eigi að koma inn í borgina. Síðan er borgarhliðunum lokað og 16-20 soltnum mastiff-hundum sleppt lausum. Þeir ólukkulegu drykkjurútar sem ekki koma sér heim, finnast morguninn eftir eins og Jezabel í Jizre-el.“ Lokaorðin eru tilvísun í frásögn Biblíunnar af Jezabel sem grimmir hundar tættu í sundur.

Vekjaraklukka Samuel Applegate frá árinu 1882 vakti þann sem svaf með því að lemja viðkomandi í höfuðið. Klukkan náði engum vinsældum.

Da Vinci lagði sig aðra hverja klukkustund

Nætursvefninn hefur alltaf verð einstaklingsbundinn. Sumir sváfu stutt en aðrir áttu í erfiðleikum.

 

– Bandaríski stjórnmálamaðurinn og vísindamaðurinn Benjamin Franklin (1706-1790) notaði vökustundirnar um miðnættið til að vinna á heimaskrifstofunni – nakinn.

 

– Sumir norður-amerískir indíánar notuðu blöðruna sem vekjaraklukku til að vakna um miðnættið til öryggis. Áður en þeir lögðust til hvíldar drukku þeir mikið vatn. Og það brást ekki að nokkrum tímum síðar þurftu þeir að pissa.

 

– Leonardo da Vinci (1452-1519) svaf aldrei alla nóttina. Sumar heimildir herma að hann hafi látið sér nægja að leggja sig í korter aðra hverja klukkustund.

 

– Þegar þrumuveður gekk yfir um nótt fengu sumir Norðurlandabúar sér „þrumukaffi“. Kaffidrykkjan gerði þeim kleift að vaka og vera viðbúnir að bjarga skepnum eða húsmunum ef elding kveikti í húsi.

 

– Bandaríkjamaðurinn Samuel Applegate fann árið 1881 upp vekjaraklukku úr tréramma með mörgum korkskífum. Ramminn átti að falla niður á höfuðið á sofandanum og vekja hann á tilætluðum tíma.

 

– Hinrik 8. Englandskóngur (1491-1547) óttaðist mjög að vera myrtur í svefni. Hann lét stinga margoft niður í gegnum rúmið áður en hann fór að sofa til að fullvissa sig um að enginn morðingi leyndist þar undir.

Þjófarnir trúðu á galdra

En jafnvel þótt fólk héldi sig innandyra yfir nóttina gat það átt á hættu að verða fyrir glæpamönnum. Það var ekki óalgengt að innbrotsþjófar kæmu í heimsókn meðan heimilisfólkið svaf. Og rétt eins og allir aðrir á þessum tíma voru þjófarnir sanntrúaðir á galdra og illa anda.

 

Víða í Evrópu bjuggu þjófar þó yfir aðferð sem átti að tryggja að heimilisfólk vaknaði ekki meðan þeir væru að störfum. Aðferðin byggðist á því sem nefnt var „hönd dýrðarinnar“ og var afhöggvin mannshönd af glæpamanni sem tekinn hafði verið af lífi.

Þessi ,,Hönd dýrðarinnar” frá Englandi er eina þekkta eintakið sem enn er til. Talið er að hún hafi verið í notkun fram á þriðja áratug 19. aldar.

Þjófarnir laumuðust þá út að næturlagi og hjuggu hönd af líki sem enn hékk í gálganum. Höndin var síðan þurrkuð í jurta- og steinefnablöndu og að síðustu dýft í vax þannig að hver fingur gat virkað eins og kerti.

 

Sumar frásagnir greina frá því að höndin hafi getað haldið á kerti sem gert var úr fitu afbrotamannsins sem höndin var höggvin af.

 

Þjófar sem ekki gátu orðið sér úti um „hönd dýrðarinnar“, gripu til annarra ráða og tautuðu sumir áhrínsorð fyrir munni sér, „Látið þá sofa sem sofa“, meðan þeir gengu milli herbergja í leit að verðmætum.

Langflestir þjófnaðir voru framdir á nóttunni og því var ekki óvenjulegt að hafa vopn tiltæk við rúmið.

Nóttin vék fyrir ljósi

Öldum saman urðu óttinn og hjátrúin til þess að fólk var á fótum kringum miðnættið en loks urðu tvær snjallar uppfinningar til þess að kveikja ljós í myrkrinu – í bókstaflegri merkingu – og leggja þar með niður þessa gömlu hefð.

 

Þann 28. janúar 1807 var kveikt á fyrstu gasljósunum á strætum Lundúna. Innan fárra ára hafði verið komið upp nokkuð góðri götulýsingu í enskum borgum og skömmu síðar var líka tekið að lýsa upp bæði verksmiðjuhúsnæði og heimili. Þegar ljós loguðu bæði úti og inni, tók fólk að fara síðar í háttinn og fór þá um leið að sofa í einni lotu til morguns.

 

Vaxandi vinsældir vasaúranna á 19. öld höfðu líka mikla þýðingu. Áður hafði dagsbirtan ein ráðið því hvenær fólk átti að vinna eða sofa en nú var það úrið sem ákvarðaði hvenær skyldi mætt til vinnu, hvenær farið væri heim og hvenær rétt væri að leggjast til svefns.

Þegar á 16. öld voru fyrstu færanlegu vélrænu klukkurnar fundnar upp, en þær urðu ekki vinsælar fyrr en á 19. öld.

Og jafnframt því sem vasaúr og gasljós breyttu svefnvenjunum, útrýmdi upplýsingin hjátrúnni smám saman. Óttinn við galdra og djöfulskap hvarf og fólk fór að geta sofið rólega yfir nóttina.

 

Nú til dags þurfa fæstir að hafa áhyggjur af innrás þjófa á heimilið yfir nóttina og við þurfum ekki heldur að stilla okkur af í nákvæmu samræmi við gang sólarinnar. Rúmin okkar eru líka mun þægilegri og ekki yfirfull af fólki. Að samanlögðu telja sumir vísindamenn að þetta valdi því að mannfólkið hafi aldrei sofi jafnvært og nú.

 

Aðrir sérfræðingar álíta þvert á móti að tvískiptur nætursvefn sé manninum eiginlegur og því gætu fylgt kostir að snúa aftur til svefnhefða miðalda. T.d. sýna rannsóknir að almennt örvi tvískiptur svefn vitsmunagetuna. Spænskar rannsóknir sýna að fólk sem tekur „siesta“ og leggur sig í einn til tvo tíma eftir hádegið dragi þar með úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum.

 

Um það eru þó allir vísindamenn sammála að líkaminn þurfi kringum átta tíma svefn á sólarhring. Sem sagt: Góða nótt og sofðu vel.

Lestu meira um sögu svefnsins

A. Roger Ekirch: At Day’s Close: Night in Times Past, W. W. Norton & Company, 2006

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Benjamin T. Christensen, Bue Kindtler-Nielsen

© Meisterdrucke.fr,© Nationalmuseet, Danmark,© Henry Fuseli,© Getty Images, Shutterstock,© Paul Gustave Doré,© Getty Image,© S. Applegate,© Badobadop,© The Metropolitan Museum of Art,© Shakko,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Ofvirkni í heilastöð veldur stami

Maðurinn

Rannsókn: Þetta er ástæðan fyrir því að börn læra hraðar en fullorðnir

Maðurinn

Heilinn kortlagður: Smásæ vefsýni sýna stórbrotin smáatriði

Náttúran

Af hverju er kalt í mikilli hæð?

Maðurinn

Hversu oft segjum við ósatt?

Lifandi Saga

Kjarnorkuógnin: Sovéskur kafbátur í skerjagarðinum

Alheimurinn

Lítið eitt um þyngdarkraftinn

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.